Air Viking

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Boeing 720-vél frá Air Viking á Heathrow.

Air Viking var flugfélag sem Ferðaskrifstofan Sunna stofnaði í Reykjavík árið 1970. Forsvarsmaður félagsins var Guðni Þórðarson forstjóri Sunnu. Fyrstu flug félagsins voru með Vickers Vanguard-vél sem það leigði frá Air Canada. Félagið stundaði leiguflug milli Íslands og Evrópu og innan Evrópu, einkum milli Þýskalands, Austurríkis og Sviss og Spánar. Félagið fékkst líka við pílagrímaflug. Árið 1973 tók félagið Convair CV-880-þotu á leigu og ári síðar tvær Boeing 720-vélar.

Árið 1975 kom Alþýðubankamálið upp þegar bankaeftirlit Seðlabankans taldi sitthvað athugavert við stór lán til nokkurra viðskiptavina bankans án fullnægjandi veða. Air Viking var meðal þessara aðila. Möguleg rekstrarvandræði félagsins voru mikið til umræðu þetta ár og töluðu margir um aðför að fyrirtækinu. Í mars 1976 ákvað Olíufélagið að gjaldfella skuldir Air Viking en við það varð flugfélagið gjaldþrota og Olíufélagið fékk allar eigur þess. Flugfélagið Arnarflug var stofnað nokkrum dögum síðar til að kaupa flugrekstur Air Viking úr þrotabúinu.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.