Þjóðvegur 26
Þjóðvegur 26 eða Landvegur er vegur á Suðurlandi og liggur frá hringveginum (Þjóðvegi 1) við söluskálann Vegamót (einnig kallað Landvegamót, eftir veginum) skammt vestan við Hellu. Liggur hann síðan upp eftir Holta- og Landsveit, framhjá Skarði og Galtalæk og áfram norðan við Heklu um Rangárbotna, framhjá Tröllkonuhlaupi og að Þjórsárdalsvegi (32) sunnan Þjórsár. Landvegur er 63 km langur.
Frá Þjórsárdalsvegi breytir Þjóðvegur 26 um nafn og heitir Sprengisandsleið eftir það. Vegurinn hefur verið uppbyggður í tengslum við virkjanaframkvæmdir Landsvirkjunar langt upp fyrir Þórisvatn og fær leiðin ekki F-númerið fyrr en komið er að skálanum Versölum. Liggur leiðin um Tungnaá hjá Hrauneyjafossi og um svonefndan Kvíslaveg upp að Versölum.
Um Sprengisandsleið er fjallað sér.
Sprengisandsleiðin er 219 km alla leið í Bárðardal, þar af eru 65 km frá Þjórsárdalsvegi að Versölum.