Þykkvibær
Þykkvibær er í Rangárþingi ytra, á milli Þjórsár og Hólsár, um það bil 1,6 kílómetra frá sænum. Fyrst er getið um Þykkvabæ í kirkjubók Oddakirkju árið 1270, en ekki er vitað hvenær byggð hófst þar. Bærinn stendur í austanverðu landnámi Þorkels Bjálfa í Háfi.
Þykkvibær
[breyta | breyta frumkóða]Þykkvibær er elsta sveitaþorp á Íslandi og var eina sveitaþorpið á landinu í 900–1000 ár. Áður en Þykkvibær, Rangárvallarhreppur og Holta- og Landsveitarhreppur voru sameinaðir þann 9. júní 2002 var Þykkvibær hluti af Djúpárhreppi, en hann varð til árið 1936 við skiptingu Ásahrepps.[1]
Þykkvibær er nú þekktur fyrir kartöflurækt. Sjósókn var í aldaraðir mikilvægur þáttur í sögu Þykkvabæjar og má rekja þéttbýlismyndunina til sjósóknar. Elstu heimildir herma að á landnámsöld hafi skip siglt til og frá Rangárósi. Eftir 17. öld stíflaðist ósinn og lögðust róðrar af næstu 60 til 70 árin. Síðar var aftur farið að róa frá Þykkvabæ, en erfiðleikar og áhætta voru meiri en áður. Árið 1896 eyðilagðist allur skipafloti Þykkbæinga og lagðist þá útgerðin af til 1916 en þá gekk eitt skip frá Þykkvabæjarsandi. Skipunum fjölgaði svo eftir það, en árið 1923 lá sjósókn niðri vegna þess að allir sem vetlingi gátu valdið voru að hlaða stíflu við Djúpós.
Seint í mars árið 1955 var mannaður áttæringur til sjóferðar með ellefu skipverjum. Þegar báturinn var að komast úr ósnum hvolfdi honum með öllum skipverjunum en komust þeir þó allir lífs af. Merkilegt þykir að af þessum atburði náðist mynd í þann mund sem bátnum hvolfdi. Laskaðist báturinn eitthvað og eftir þetta slys lagðist sjósókn af.[2]
Djúpósstíflan
[breyta | breyta frumkóða]26. maí 1923 er merkur dagur í sögu Þykkvabæjar en þá hófu heimamenn miklar framkvæmdir við Djúpós. 90 til 100 menn tóku þátt í þessu mannvirki og var þetta talið með mestu mannvirkjum á þessum tíma. Á ýmsu gekk meðan á þessum framkvæmdum stóð. Þann 4. júlí var stíflan fullgerð og var mikið mannvirki, 340 metra löng og 15 metra breið. Nú stendur minnisvarði við Djúpós til heiðurs þeirra sem tóku þátt í stíflugerðinni og til minningar um þetta merka mannvirki.[3]
Strand í Þykkvabæjarfjöru
[breyta | breyta frumkóða]Þessi greinarhluti þarfnast hreingerningar svo hann hæfi betur hér á Wikipedia. Eftir að greinin hefur verið löguð má fjarlægja þessi skilaboð. |
16. febrúar 1981 um miðnætti hrakti Heimaey VE 1, 112 tonna stálskip, í ofsaveðri að Þykkvabæjarfjörum og strandaði. Hafði skipið verið að netaveiðum og fengið netin í skrúfuna svo vél þess stöðvaðist. Margar tilraunir voru gerðar til að koma dráttartaug í skipið en þær mistókust allar, enda veðrið óskaplega slæmt. Þegar skipið fór gegnum brimgarðinn, kom mikill brotsjór yfir skipið og tók með sér tvo menn af tíu sem um borð voru. Þeir drukknuðu báðir en þeir hétu: Albert Ólafsson 20 ára háseti fæddur í Vestmannaeyjum 12. mars 1960. Hann stundaði ýmsa verkamannavinnu og starfaði lengst hjá Vestmannaeyjabæ, en þetta var hans fyrsta úthald til sjós. Hann lætur eftir sig unnustu. Guðni Torberg Guðmundsson 20 ára háseti fæddur á Selfossi 15. maí 1960. Hann hafði búið í Vestmannaeyjum í tíu ár. Guðni Torberg var verkamaður í Vinnslu-stöðinni HF í Vm. áður en hann réð sig á Heimaey VE en hann var að byrja sína sjómennsku er hann réð sig á skipið. Hann var einhleypur.
http://nafar.blog.is/blog/nafar/entry/376762/
http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=319228
http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2875842
Í mars árið 1997 strandaði 8.000 tonna flutningaskip í Þykkvabæjarfjöru en þetta skip var frá Þýskalandi og hét Vikartindur. Varðskip kom og reyndi að bjarga Vikartindi frá strandi og settu skipverjar sig í mikla hættu. Einn skipverji fórst. Þyrla landhelgisgæslunnar bjargaði áhöfninni úr Vikartindi.[4]
Kartöfluræktun
[breyta | breyta frumkóða]Það sem Þykkvabærinn er þekktastur fyrir í dag er kartöfluræktunin. Það var árið 1934 sem land var fyrst unnið í Þykkvabæ með það að leiðarljósi að selja uppskeruna. Þrátt fyrir að jarðvegurinn í Þykkvabæ hafi ekki verið hentugur til grasræktunar þá hentaði hann mjög vel til kartöfluræktunar. Ræktunin á þessum árum var ekki mjög stór miðað við það sem er að gerast í dag enda voru verkfærin hestar, skóflur og kvíslar á meðan í dag er notast við stórvirkar vinnuvélar. Mikil breyting varð 1939 en þá var fyrst notuð vél sem dregin var af hestum. Sú vél skar kartöflugrasið og dreifði kartöflunum og jarðveginum út frá sér, þótti þessi nýjung mjög merkileg og hraðvirk.
Árið 1945 kom fyrsta heimilisdráttarvélin í Þykkvabæ og fjórum árum seinna eða 1949 höfðu allir bændur í hreppnum eignast sína eigin vél. Dráttarvélarnar, sem voru af gerðinni Ferguson, voru þær fyrstu til að koma með vökvaknúið lyftiafl og hentaði það vel í búskapinn.
Á svipuðum tíma fóru bændur að nota tilbúinn áburð vegna þess að húsdýraáburður var ekki nægur. Hefur kartöfluræktun þróast mjög hratt eftir þetta.[5]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Árni Óla. Þúsund ára sveitaþorp (Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs, 1962).
- Oddgeir Guðjónsson o.fl. Sunnlenskar byggðir V. (Reykjavík: Búnaðarsamband Suðurlands, 1987).
- Sverrir Gíslason. Frá dögum við djúp og fleira (Bókaforlagið Gýgjasteinn, 2008).