Wikipedia:Grein mánaðarins/11, 2023

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Wagner-hópurinn (rússneska: Группа Вагнера; umritað Grúppa Vagnera) er hópur rússneskra málaliða sem var stofnaður árið 2014 af ólígarkanum Jevgeníj Prígozhín. Prígozhín var náinn bandamaður Vladímírs Pútín, forseta Rússlands, og Wagner-hópurinn hefur starfað í ýmsum löndum sem nokkurs konar óformlegur armur rússneska hersins eða „hulduher“ ríkisstjórnar Pútíns. Hópurinn hefur meðal annars barist með Rússum eða bandamönnum þeirra í Úkraínu, Sýrlandi og í Vestur-Afríku.

Hernaðarleiðtogi Wagner-hópsins var lengst af Dmítríj Útkín, fyrrum sérsveitarmaður innan leyniþjónustu rússneska hersins, GRU. Útkín, sem var áhugamaður um þýska hernaðarsögu og var skreyttur húðflúrum með nasistamerkjum, nefndi hópinn eftir þýska tónskáldinu Richard Wagner.