Vaktir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Vaktir eða vaktavinna er vinnufyrirkomulag þar sem sólarhringnum er skipt upp í vel afmarkaðar vinnulotur. Bakvakt nefnist vakt þar sem starfmaður er heima, en getur með skömmum fyrirvara mætt til vinnu eftir útkall, t.d. eru menn í hjálparsveitum á bakvöktum. Algengt vaktafyrirkomulag eru þrískiptar vaktir, sem eru þá 8 klukkustunda langar og tvískiptar vaktir sem eru 12 klukkustundir. Á skipum er stundum notast við fjórskiptar vaktir, sem eru þá 6 klukkustunda langar.

Aðrar starfsstéttir sem vinna gjarnan á vöktum eru: læknar, hjúkrunarfólk, lögregla, slökkvilið, veðurfræðingar o.s.frv.

Sjóvaktir[breyta | breyta frumkóða]

Vaktir á sjó nefndust áður fyrr sjóvaktir og má þar nefna eftirfarandi:

  • baujuvakt er vakt þegar legið er yfir bauju, gat verið mislöng.
  • dagvakt
  • hundavakt er næturvakt á skipi (frá kl. 24-4), einnig nefnd hundur eða lágnættisvaka.
  • langavakt er dagvakt á fiskiskútum (7 klst).
  • lágnættisvaka er hundavakt. Stundum var þeim skipt í tvennt Fyrsta lágnættisvaka og Önnur lágnættisvaka.
  • stímvakt er vakt meðan (vél)skip er á siglingu, annaðhvort frá eða að landi.
  • stjórnborðsvaka eða stjórnborðsvakt stóð vörð frá klukkan tólf um nóttina til klukkan sex að morgni.
  • stutta vaktin var næturvakt frá klukkan 4-7.

Sjómenn nefndu (og nefna) það glas, þegar klukkan er á slaginu og vaktirnar eiga að skipta. Þá var oft hrópað á þá sem sváfu en áttu að hefja næstu vakt: Svona upp með þig það er glas! Þessi notkun orðsins er dregin af orðinu stundaglas og átt er við það að sandurinn hafi verið að renna niður og glasinu skuli snúið við.

Í reglugerð um vaktstöður um borð í íslenskum farþegaskipum og flutningaskipum (nr. 599/2001) eru sérstaklega tilgreindar siglingavakt, þilfarsvakt, vélstjóravakt og fjarskiptavakt.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]