Tony Curtis

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Tony Curtis áritar ævisögu sína, American Prince, árið 2009.

Tony Curtis (3. júní 192529. september 2010), upphaflegt nafn Bernard Schwartz, var bandarískur leikari. Hann var sonur ungverskra innflytjenda af gyðingaættum og talaði eingöngu ungversku þar til hann var fimm eða sex ára að aldri. Hann lék í meira en eitt hundrað kvikmyndum, auk sjónvarpsmynda og sjónvarpsþáttaraða.

Þekktasta hlutverk hans var líklega hlutverk Joe/Josephine í kvikmyndinni Some Like it Hot frá árinu 1959, þar sem hann lék á móti Jack Lemmon og Marilyn Monroe. Einnig var hann þekktur fyrir leik sinn í bresku sjónvarpsþáttaröðinni The Persuaders, á árunum 1971-1972, þar sem hann lék á móti Roger Moore.

Hann var tilnefndur til Óskarsverðlauna sem besti aðalleikari fyrir hlutverk sitt í The Defiant Ones frá árinu 1958, þar sem hann lék á móti Sidney Poitier, og léku þeir strokufanga sem hlekkjaðir voru saman. Hann hlaut einnig lof fyrir túlkun sína á þrælnum Antoníusi í Spartacusi og raðmorðingjanum Albert DeSalvo í The Boston Strangler.

Curtis giftist leikkonunni Janet Leigh árið 1951 og eignuðust þau dæturnar Kelly Lee og Jamie Lee Curtis, sem báðar urðu leikkonur. Curtis og Leigh skildu árið 1962 og giftist Curtis aftur fimm sinnum í og eignaðist fjögur börn í viðbót. Árið 1998 giftist hann Jill Vanderberg, sem var 42 árum yngri en hann, og voru þau gift þar til hann lést úr hjartaáfalli á heimili sínu í Nevada 29. september 2010.