Fara í innihald

Thorbjørn Egner

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Thorbjörn Egner)
Egner árið 1960

Thorbjørn Egner (12. desember 1912 í Ósló (þá Kristjaníu) – 24. desember 1990 á sama stað) var norskur rithöfundur, leikskáld, myndskreytir og tónskáld sem skrifaði bækur og myndskreytti, samdi vísur og lög, og hannaði búninga og leikmyndir við eigin leikrit.

Barnæska og menntun

[breyta | breyta frumkóða]

Faðir Thorbjörns hét Magnus Egner og móðir hans Anna. Thorbjörn var yngstur af 3 börnum. Þau bjuggu í hverfinu Kampen í útjaðri Ósló í fjölbýlishúsi og á allri neðstu hæðinni voru verslanir svo sem bakarí, skósmiður, mjólkurbúð og nýlenduvöruverslun, en það voru foreldrar Thorbjörns sem áttu og ráku nýlenduvöruverslunina.

Frá því Thorbjörn var lítill var mikill söngur og tónlist í kringum hann. Faðir hans og bróðir spiluðu á fiðlu, systir hans á píanó og sjálfur spilaði hann seinna meir á píanó, gítar og banjó.

Thorbjörn hafði margvíslega hæfileika. Hann var áhugasamur um tónlist og söng, einnig um að teikna og mála og þegar hann hafði lært að skrifa fór hann að skrifa sögur. Þar sem hann var svona hæfileikaríkur átti hann í erfiðleikum með að velja hvað hann vildi gera. Faðir hans vildi að hann fengi góða menntun og því gekk Thorbjörn í verslunarskóla þegar hann var 16 ára gamall. Að loknum verslunarskólanum reyndi hann við ýmis störf. Löngunin til að verða betri í að teikna og mála gerði það að verkum að tvítugur fór hann í Lista- og handinðaskóla þar sem hann lærði undir leiðsögn annarra málara og myndskreyta. Að loknu námi hóf hann starf á auglýsingastofu og vann þar til 1940 þegar hann var 28 ára að hann sagði upp og ákvað að verða rithöfundur og teiknari í fullu starfi.

Sama ár, 1940, kom út fyrsta bókin hans sem hann skrifaði með vini sínum Sigurd Winsnes. Bókin hét Barnabókin og í henni voru ævintýri, frásagnir, vísur, krossgátur og leikir. Alls komu þrjár bækur út í þessum flokki sem þeir Winsnes skrifuðu saman en eftir það skrifaði Thorbjörn allar bækur sínar einn.

Á árunum 1940 – 1945 komu út alls 22 bækur eftir Thorbjörn, að meðtöldum bókunum sem hann skrifaði með Winsnes, 20 þeirra voru barnabækur en tvær fullorðinsbækur. Auk þess að skrifa bækurnar myndskreytti hann þær allar, samdi vísurnar og söngvana. Seinna meir þegar hann skrifaði leikrit upp úr bókum sínum og þau voru sett upp í leikhúsi, teiknaði hann leikmyndirnar og hannaði búningana og mörgum sinnum bjó hann leiktjöldin til.

Egner kom að barnatímum í norska útvarpinu frá árinu 1946. Fyrst á laugardögum þar sem hann var með leikrit, en árið 1951 var ákveðið að hafa barnatíma fyrir yngstu börnin alla virka daga. Þar voru sagðar sögur, sungið og leikin tónlist. Það var hér sem Egner lagði grunninn að frægð sinni. Hann hafði einkar þægilega og hlýja rödd, sagði sögur og söng. Í fyrstu las hann þekktar barnabækur sem hann hafði þýtt á norsku, svo sem Bangsímon, en síðar hafði hann eingöngu eigið efni. Hann las oft sögur og leikrit í barnatímanum sem hann skrifaði, gerði við þær vísur og lög sem hann söng sjálfur. Þarna kynnti hann ýmsar persónur sem síðar komu fram í sögubókum hans og leikritum.

Fyrsta sögubókin sem Egnar gaf út var um Karíus og Baktus. Hann hafði áður skrifað frásögn um þá í Barnabókina sem kom út árið 1941 og leikrit var flutt í barnatímanum 1947 en bókin sjálf með myndskreytingum Egners kom út árið 1949. Nú gátu lesendur séð hvernig Egnar sá þessa litlu tannálfa. Egner hefur sagt að hugmyndin að sögunni hafi komið frá því að hann þurfti oft að fara til tannlæknis sem barn. Í verslun foreldra hans var sælgæti til sölu og gaukuðu þau því að honum þegar hann var á vappi hjá þeim sem lítill drengur.

Dýrin í Hálsaskógi kom út í bókarformi árið 1953, en áður hafði hann flutt textann með söngvum í útvarpi.

Egner lýsti Hálsaskógi þannig: Hálsaskógur er lítill skáldaður heimur, sem getur á margan hátt minnt á okkar stóra heim. Dýrin í skóginum eru ævintýrapersónur sem fá persónueinkenni bæði frá dýrum og mönnum. Þau bera dýranöfn og dýralegt útlit, en eru í fötum og ganga upprétt á tveim fótum - og minna okkur á fólk í mörgu af því sem þau gera og segja. Bangsapabbi og Bangsamamma eru táknræn fyrir vinsemd og öryggi, Mikki refur er sá hættulegi og óútreiknanlegi sem við góðar aðstæður getur einnig breytt rétt. Marteinn skógarmús er skynsami og vinnusami samborgarinn sem einnig hugsar um morgundaginn, á meðan Lilli klifurmús, góðvinur hans er áhyggjulaus trúbador sem vill helst spila á gítar, yrkja og syngja vísur - listamaður. Hann er sá í skóginum sem best skilur gagnsemina af því ógagnlega. Egner fannst hann eiga margt sameiginlegt með Lilla klifurmús. Dýrin í Hálsaskógi var sýnt sem brúðuleikhús árið 1959 og sá Egner um að breyta sögunni í leikrit, samdi lögin, gerði leiktjöldin og bjó til brúðurnar. Það var síðan árið 1962 sem leikritið var fyrst sýnt sem venjuleg leikskýning í Þjóðleikhúsinu i Reykjavík í fyrsta sinn.

Kardemommubærinn kom út í bókarformi árið 1955 í fyrsta skipti, en sagan hafði áður komið fyrir í útvarpi. Þetta er ímyndaður bær og í honum miðjum er hár turn og lítil hús í kring. Um göturnar ganga asnar og kameldýr og þar vaxa pálmatré, ásamt sporvagni sem gengur frá norðri til suðurs. Þegar Egner hafði skapað umgjörðina setti hann persónur inn í bæinn, bæjarstjórann Bastian og konu hans, Soffíu frænka og Kamillu litlu, Tobías sem bjó í turninum, kaupmanninn, pyslugerðarmanninn og bakarann að ógleymdum ræningjunum þremur og ljóninu þeirra svo einhverjir séu nefndir.

Frá 1949 ferðaðist Egner oft til Frakklands, Ítalíu, Alsír og Marokkó, þar sem hann teiknaði ýmislegt af því sem fyrir augu bar. Áhrifa af þessum ferðum gætir í Kardemommubænum.

Hann færði söguna yfir í leikrit og var það frumsýnt árið 1956 í þremur borgum samtímis, Ósló, Björgvin og Þrándheimi.

Á árunum 1949 – 1972 skrifaði Egner 16 lestrarbækur fyrir grunnskólabörn. Hann hafði lengi átt þann draum að skrifa nýja gerð af skólabókum, þær áttu að skapa áhuga, vekja lestrarlöngun og lesgleði hjá börnum. Einnig vildi hann skapa tilfinningu fyrir list, því áttu bækurnar að vera ríkulega myndskreyttar.

Fjölskylda og einkalíf

[breyta | breyta frumkóða]

Egner var kvæntur Annie sem hann kynntist í verslunarskólanum og eignuðust þau fjögur börn, Björn sem er fæddur árið 1938 og á næstu 8 árum fæddust Turi, Harald og Marit. Á þessum tíma bjó fjölskyldan í þriggja herbergja íbúð í Ósló og vann Egner heima, fyrstu bækurnar sína skrifaði hann og myndskreytti á stofuborðinu á meðan börnin léku sér í kringum hann. Haustið 1952 flutti fjölskyldan í einbýlishús sem Óslóborg hafði byggt á lóð við safn Edvards Munch. Þar fékk Egner loksins sér vinnustofu. Annie sá um heimilið og börnin en að auki var hún ritari Egners og sá um allt reikningshald. Þar fyrir utan var hún faglegur ráðgjafi og hún las allt sem hann skrifaði og gaf álit sitt á því, áður en það fór lengra.

Thorbjörn Egner hlotnaðist ýmis heiður um ævina fyrir störf sín, m.a. var hann sleginn til riddara af St. Olavs orðunni, fékk heiðursverðlaun Óslóborgar og Cappelen verðlaunin. Frímerki með mynd af honum kom út 1984.

Verk sem komið hafa út á íslensku

[breyta | breyta frumkóða]

Karíus og Baktus hafa komið út í bókarformi og einnig sem hljómplata og síðar sem geisladiskur. Kardemommubærinn var gefin út á hljómplötu og var þar um að ræða leiksýningu sem var sett upp í þjóðleikhúsinu en var síðan hljóðrituð í Ríkisútvarpinu í desember árið 1963 og gefið út af SG-hljómplötum. Það sama á við um Dýrin í Hálsaskógi, þar var sýning úr Þjóðleikhúsinu hljóðrituð í Ríkisútvarpinu í desember árið 1966 og gefin út á hljómplötu. Bæði leikritin hafa síðar komið út á geisladiskum. Síglaðir söngvarar voru hljóðritaðir í Ríkisútvarpinu árið 1973 og komu út á geisladisk ásamt Karíusi og Baktusi. Verkstæði jólasveinanna kom út á hljómplötu og síðar á geisladisk.

  • Viermyr, Marianne: Tusenkunstneren THORBJÖRN EGNER, N. W. Damm & Son AS 2003