Sund á Íslandi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sundlaugin á Hofsósi.

Sund á Íslandi er mikilvæg íþrótt og afþreying. Útisundlaugar þar sem vatnið er hitað með jarðhita, eru eitt af því sem einkennir íslenskt samfélag. Sundlaugar eru mikilvæg almenningsrými á Íslandi og þar fer fram mikið félagslíf, auk sunds.[1][2] Sundkennsla er skyldufag í grunnskóla og sundkunnátta því mjög almenn. Víðast hvar fer kennslan fram í einni af fjölmörgum almenningssundlaugum landsins. Margar af þessum laugum hafa sérstaka leikaðstöðu fyrir börn og fjölbreytta aðstöðu fyrir ýmis konar heilsuiðkun, eins og sólbaðsaðstöðu, heita potta, nuddpotta, eimböð og sánur. Sjósund er líka vinsælt á Íslandi og sérstök aðstaða fyrir sjósundsiðkun hefur verið byggð upp í Nauthólsvík í Reykjavík og við Langasand á Akranesi. Frá 8. áratug 20. aldar hefur jarðhitinn verið notaður til að hita upp sérhönnuð baðlón víða um land, sem eru vinsælir áfangastaðir ferðafólks. Dæmi um slík baðlón eru Bláa lónið, Jarðböðin við Mývatn, Sky Lagoon, Skógarböðin, GeoSea, Vök og Hvammsvík sjóböð.

Í þjónustukönnun Reykjavíkurborgar 2019 sögðust 73% svarenda hafa farið í sund á síðustu 12 mánuðum.[3] Ánægja með sundlaugarnar mældist líka mjög mikil í sömu könnun. Í alþjóðlegri viðhorfakönnun frá 2022 kom fram að um 40% fullorðinna Íslendinga stunduðu sund reglulega, en um 20% sögðust aldrei fara í sund.[4] Sundmenning á Íslandi hefur verið mörgum innblástur. Jón Karl Helgason hefur gert tvær heimildarmyndir um sund á Íslandi: Sundið (2012) og Sundlaugarsögur (2022) og Birnir Jón Sigurðsson setti upp leikverkið Sund í Tjarnarbíói árið 2023. Það ár kom fram hugmynd um að skrá sundið á lista UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf.[5]

Íslenskt sundfólk hefur oft náð langt á alþjóðlegum mótum. Örn Arnarson varð til dæmis Evrópumeistari í baksundi árin 1998, 1999, 2000 og 2002 og náði 4. sæti á Ólympíuleikunum árið 2000. Sundsamband Íslands hefur umsjón með sundmótum á Íslandi og er aðili að Alþjóðasundsambandinu.[6] Nokkur fjöldi sundliða er á Íslandi, eins og Sundfélagið Ægir, Sundfélagið Óðinn, Sundfélag Hafnarfjarðar, Sundfélag Akraness, Sunddeild ÍRB, Sunddeild KR, Sunddeild Ármanns, Sundfélag ÍBV og Sunddeild Breiðabliks.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Í Íslendingasögum er á nokkrum stöðum talað um sund, svo hugsanlega var sundkunnátta algeng á miðöldum. Þessi kunnátta tapaðist svo niður með tímanum og árið 1820 var talið að aðeins sex manns kynnu að synda á Íslandi.[7] Drukknun var algeng dánarorsök og stundum kom fyrir að sjómenn drukknuðu við að lenda bátum í flæðarmálinu. Slysum af því tagi fjölgaði eftir því sem fleiri settust að við sjávarsíðuna á síðari hluta 19. aldar. Á þeim tíma var því tekið að ræða um nauðsyn þess að efla sundkunnáttu sjómanna.

Sundfólk við sundskálann Gretti í Skerjafirði 1909.

Seint á 19. öld var svo farið að kenna sund sem skipulega íþrótt. Kennslan fór víðast hvar fram í köldum sjó, en sum staðar voru volgir lækir stíflaðir til að búa til sundlaugar. Sundfélag Reykjavíkur var stofnað í kringum sundkennslu í Laugardal árið 1884 og sundskýli var reist í Sundskálavík í Skerjafirði árið eftir. Nokkrum árum síðar var tekið að gera sundlaugar úr hlöðnu grjóti eða steinsteypu. Fyrsta steypta laugin í Reykjavík var gamla Laugardalslaugin sem var gerð 1908. Í hana var veitt volgu vatni úr Þvottalaugunum. Sama ár hófst sundkennsla í Hafnarfirði (í sjó) og 1913 var reistur sundskáli í Hellufjöru. Árið 1908 var líka reistur sundskáli undir Heimakletti í Vestmannaeyjum en sund var kennt þar við Lönguna. Sundlaug með kolahituðum sjó var tekin í notkun í Vestmannaeyjum 1934 og í Hafnarfirði 1943.

Sundlaugarnar voru mikilvægur liður í að bæta hreinlætisaðstöðu, en mörgum þótti óþrifnaður almennur meðal Íslendinga á 19. öld. Baðhúsfélag Reykjavíkur var stofnað af nokkrum framámönnum í Reykjavík 1895 í tengslum við fyrsta baðhúsið þar. Annað baðhús, Baðhús Reykjavíkur, var reist 1905 og starfaði til 1966. Sundlaugarnar gerðu slík baðhús óþörf, auk þess sem baðherbergi urðu almennari á heimilum þegar líða tók á 20. öldina.

Árið 1925 var sveitarfélögum gefin heimild með lögum að koma á skyldunámi í sundi og Vestmannaeyjabær varð fyrstur til að innleiða það. Í Reykjavík varð sundkennsla að skyldu árið 1927. Árið 1940 var svo kveðið á um skyldunám í sundi á landsvísu.

Vesturbæjarlaug sem var opnuð árið 1961 var fyrsta sundlaugin sem var hönnuð fyrir fjölbreyttari afnot en sundiðkun. Hún var bæði með sérstakri barnalaug og heitum pottum sem arkitektinn Gísli Halldórsson byggði á teikningu sem hann hafði gert af Snorralaug í Reykholti. Sams konar pottar voru eftir það settir upp víða um land og voru kallaði „snorralaugar“ fyrstu árin.

Fyrsta vatnsrennibrautin var sett upp í Laugardalslaug árið 1988.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Samantha Bresnahan (20.3.2017). „The secret to Iceland's happiness? It's in the water“. CNN.
  2. Karen Gardiner (17.8.2020). „An Icelandic ritual for wellbeing“. BBC Travel.
  3. Maskína (2019). Reykjavíkurborg Þjónustukönnun nóvember 2018-janúar 2019.
  4. Katrín Snorradóttir og Valdimar Tr. Hafstein (2023). Sund. Forlagið. bls. 11.
  5. Kjartan Kjartansson (15.3.2023). „Vilja sund­lauga­menningu og laufa­brauðs­gerð á lista UNESCO“. Vísir.is.
  6. „Um SSÍ“. Sundsamband Íslands.
  7. „Sex kunnu að synda á Íslandi árið 1820“. Kvikmyndir.is. 5.10.2012.
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.