Smávirkjun
Smávirkjun eða bændavirkjun er lítil vatnsaflsvirkjun. Smávirkjun getur verið heimarafstöð ætluð til raforkuframleiðslu til eigin nota á sveitabæ eða sumarbústað en getur einnig selt orku inn á dreifikerfi rafmagnsveitna. Margar heimarafstöðvar voru byggðar á fyrri hluta 20. aldar og um 1950 höfðu verið byggðar um 530 heimarafstöðvar. Þeim fækkaði svo með rafvæðingu sveitanna og árið 1992 voru 175 smávirkjanir í notkun á Íslandi (minni en 300 kw). Á árunum 2000 til 2009 voru byggðar um 30 smávirkjanir.
Litlar virkjanir eru flokkaðar eftir þremur meginþáttum en það eru uppsett afl, virkjuð fallhæð og hvort virkjun sé rennslisvirkjun eða með miðlunarlóni. Ef uppsett afl er undir 100 kW er virkjunin örvirkjun en smávirkjun ef uppsett afl er á bilinu 100 til 300 kW og lítil virkjun ef uppsett afl er allt að 1000 kW. Fallhæð undir 50 telst lítil fallhæð en meðalfallhæð er á bilinu 50-250 m og mikil fallhæð er meira en 250 m. Rennslisvirkjun er virkjun sem nýtir árvatn sem rennur hjá eftir náttúrulegum aðstæðum en er ekki með miðlunarlóni.