Fara í innihald

Skuggi (eyðibýli)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Skuggi í Hörgárdal)

Skuggi er eyðibýli í landi Staðartungu í Hörgárdal. Þar hefur staðið yfir fornleifauppgröftur frá 2008 sem er hluti af Gásir Hinterlands Project.

Staðsetning og saga

[breyta | breyta frumkóða]

Bæjarstæði Skugga er neðst í fjallshlíð, hátt yfir Hörgá, í um 170 metra hæð yfir sjávarmáli. Það er um 2 km sunnan við Staðartungu og er í landi þeirrar jarðar. Rústanna er fyrst getið í örnefnalýsingum Staðartungu frá 20. öld en örnefnið Skuggagata kemur fyrir í sölubréfi frá 1396 þar sem lýst er skógarítaki á þessum stað.[1] Það bendir til að nafnið sé fornt og að Skuggi hafi tilheyrt Staðartungu a.m.k. frá 14. öld.

Vettvangsrannsóknir

[breyta | breyta frumkóða]

Rústirnar á Skugga voru skráðar 2005[2] en staðurinn var síðan valinn til frekari rannsókna sem hluti af verkefninu Gásir Hinterlands Project. Það verkefni miðar að því að rannsaka áhrif kaupskipahafnarinnar á Gásum á efnahag og samfélag sveitanna í kring. Árið 2008 var borað í kringum bæjarstæðið og grafinn könnunarskurður sem leiddi í ljós öskuhaug með miklum og vel varðveittum mannvistarleifum. Umfangsmeiri uppgröftur var gerður í öskuhauginn árið eftir, en 2013 var opnað stærra svæði og grafin fram lítil bygging frá víkingaöld.

Tímasetning

[breyta | breyta frumkóða]

Stærsti hluti öskuhaugsins á Skugga var undir gjóskulagi frá 1104 en þunnt mannvistarlag var ofan á gjóskunni en undir gjósku frá 1300. Þetta bendir til að bærinn hafi farið í eyði á 12. öld og styðja það fjórar geislakolsaldursgreiningar sem gefa niðurstöður á bilinu 890 til 1208 e.Kr. Búskapur hefur örugglega hafist á Skugga á 10. öld og mögulega í lok þeirrar 9.[3]

Gripasafnið frá Skugga er lítið og fábreytt eins og algengt er á íslenskum uppgraftarstöðum frá víkingaöld. Mest var um járngjall og járngripi ýmiskonar (naglar, hnífar ofl), en líka beinprjónar, bronshlutir og slitrur af leðri og ullarklæðum. Þrjú brýni frá Eidsborg í Noregi eru meðal fundanna og deigla sem gæti bent til smíði úr góðmálmum. Óvenjulegastar eru tvær glerperlur en önnur þeirra er málmhúðuð og talin framleidd við austurhluta Miðjarðarhafs.[3]

Markmið rannsóknanna á Skugga voru fyrst og fremst að rannsaka dýrabeinin úr öskuhaugnum til að varpa ljósi á efnahag og félagslega stöðu bæjarins. Beinin sýna að á Skugga var stundaður hefðbundinn búskapur með kýr, kindur, geitur og svín. Hlutfall svína var lágt en stöðugt allan tímann sem búið var á Skugga en geiturnar hverfa undir lok búsetunnar á 12. öld. Hlutfall kinda miðað við nautgripi er hærra en meðaltal íslenskra bæja á víkingaöld og telja rannsakendur að það tengist lágri félagslegri stöðu: að kotbýli eins og Skuggi hafi haft fleiri kindur en kýr og að sauðfjárræktin hafi að stórum hluta miðast við að framleiða ull. Greinileg aukning í þá átt sést í beinasafninu: til að byrja með er flestum kindunum slátrað á fyrsta ári en þegar kemur fram á 11. öld er æ stærra hlutfall þeirra látið lifa lengur en 2 ár.[3]

Þó Skuggi sé meir en 20 km inni í landi skipti sjávarfang miklu máli fyrir fólkið sem þar bjó. Auk selbeina í litlu magni eru fiskbein úr þorski, ýsu, keilu, ufsa og lúðu meir en 20% af beinasafninu eftir seinni hluta 10. aldar. Fólkið á Skugga hefur því haft aðgang að sjó, en hinsvegar vakti athygli að engin bein fundust úr silungi eða rjúpu og er þó auðvelt að veiða þessar tegundir í næsta nágrenni Skugga. Eitt hið óvenjulegasta við beinasafnið frá Skugga var hátt hlutfall beina úr hrafni, sum þeirra brotin eins og kjötsins hafi verið neytt.[3]

Uppgraftargögnin hafa verið túlkuð þannig að Skuggi hafi verið smábýli, ef til vill í sama flokki og Sveigakot í Mývatnssveit. Takmarkaður aðgangur að veiðiskap og áhersla á framleiðslu ullar sem hentaði til að greiða leigu gæti bent til að býlið hafi frá upphafi verið hjáleiga eða á einhvern hátt undirsett öðrum bæ, líklegast Staðartungu (vegna nálægðar og seinni tengsla). Þó fólkið í Skugga hafi örugglega verið fátækt á þess tíma mælikvarða sýnir glerperlan frá suðurlöndum að það hefur ekki verið með öllu tengslalaust. Fátæktin ein og sér skýrir heldur ekki af hverju býlið lagðist í eyði. Mörg býli í sama stærðarflokki voru að leggast af á þessum tíma sem bendir til að eyðingin tengist almennum breytingum í hagkerfi landsins. Bent hefur verið á að skammt sunnan við bæjarstæði Skugga eru leifar mikilla beitarhúsa sem kölluð eru Klausturhús. Nafnið kemur til af því að á seinni öldum tilheyrði Staðartunga Möðruvallaklaustri en vera má að beitarhúsin hafi tekið við hlutverki Skugga: að í stað þess að láta eina fjölskyldu hokra með nokkrar kindur í úthögum hafi verið látið duga að láta smalamann sjá um kindurnar.[3][4]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Íslenzkt fornbréfasafn III, bls. 503-504
  2. Elín Ósk Hreiðarsdóttir ritstj. 2008, Fornleifaskráning í Öxnadals- og Skriðuhreppi I, Fornleifastofnun Íslands FS370, Reykjavík
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 Harrison, Ramona 2010b, 'Small holder farming in Early Medieval Iceland: Skuggi in Hörgárdalur.' Archaeologia islandica 8
  4. Harrison, Ramona 2013, World Systems and Human Ecodynamics in Medieval Eyjafjörður, North Iceland: Gásir and its Hinterlands, PhD Dissertation, City University of New york