Paul Rusesabagina

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Paul Rusesabagina
Fæddur15. júní 1954 (1954-06-15) (69 ára)
ÞjóðerniRúandskur og belgískur
MenntunKenya Utalii-háskóli
University College Dublin
FlokkurPDR-Ihumure
TrúKristinn
MakiTatiana Rusesabagina (g. 1989)
Börn5

Paul Rusesabagina (f. 15. júní 1954) er rúandskur stjórnmálamaður og fyrrverandi hótelstjóri. Hann er þekktur fyrir aðgerðir sínar við að bjarga Tútsum á tíma þjóðarmorðsins í Rúanda árið 1994. Rusesabagina hefur í seinni tíð gagnrýnt forseta Rúanda, Paul Kagame, og hann var einn stofnenda stjórnarandstöðuflokksins Mouvement rwandais pour le changement démocratique.[1] Rusesabagina var handtekinn árið 2020 vegna meintra tengsla sinna við skæruliðasamtökin Þjóðfrelsisfylkingu Rúanda (fr. Front de libération nationale).

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Paul Rusesabagina er kominn úr bændafjölskyldu og gekk í trúboðsskóla og nam guðfræði í Kamerún. Hann vann fyrir belgíska ríkisfugfélagið Sabena á hóteli í Akagera-þjóðgarðinum í austurhluta Rúanda. Hann var ráðinn sem aðstoðarhótelstjóri Mille Collines-hótelsins í Kígalí árið 1984 og svo hótelstjóri árið 1993.[2]

Í apríl árið 1994 hleypti morðið á Juvénal Habyarimana, forseta Rúanda, af stað fjöldamorðum gegn þjóðarbroti Tútsa í landinu. Rusesabagina, sem er Hútúi í föðurætt en Tútsi í móðurætt og var sjálfur kvæntur Tútsakonu, leitaði hælis ásamt fjölskyldu sinni á Mille Collines-hótelinu. Þegar skæruliðasamtökin Interahamwe umkringdu hótelið veitti hótelið um 1.268 Tútsum og hófsömum Hútúum skýli. Rusesabagina reyndi að semja við leiðtoga Hútúa, eins og hershöfðingjann Augustin Bizimungu, til þess að flóttafólkinu yrði veitt vernd. Rusesabagina náði símsambandi við framkvæmdastjóra Sabina, rekstrarfélags hótelsins, og hafði samband við Hvíta húsið, Sameinuðu þjóðirnar og utanríkisráðuneyti Frakklands með faxi. Að endingu var flóttafólkið flutt frá hótelinu í fylgd með friðargæslusveitum Sameinuðu þjóðanna.[3]

Rusesabagina flutti ásamt fjölskyldu sinni til Belgíu árið 1996[3] og hlaut belgískan ríkisborgararétt.[4] Hann hefur flutt fjölda erinda á ráðstefnum um atburðarásina á tíma þjóðarmorðsins. Árið 2006 sæmdu samtökin Centre de recherche et d'études politiques (CREP) hann Condorcet-Aron-verðlaununum fyrir störf hans í þágu lýðræðis.[5]

Árið 2004 leikstýrði írski kvikmyndaleikstjórinn Terry George myndinni Hotel Rwanda, þar sem fjallað var um gerðir Rusesabagina í þjóðarmorðinu. Í henni fór bandaríski stórleikarinn Don Cheadle með hlutverk Rusesabagina.[6]

Hlutverk Pauls Rusesabagina við björgun þeirra 1.200 flóttamanna sem leituðu hælis í Mille Collines-hótelinu er þó umdeilt.[7][8][9] Ýmsar frásagnir og söguskýringar sem stangast hver á við aðra hafa komið fram. Rusesabagina hefur meðal annars verið sakaður um að hafa rukkað fólk sem hlaut skjól á hótelinu og því hafi aðeins fólk sem hafði fé milli handanna bjargast þar.[10] Frásögnin í Hotel Rwanda, þar sem Rusesabagina var sýndur í hetjulegu ljósi, var sér í lagi gagnrýnd í bókinni Hotel Rwanda ou le génocide des tutsis vu par Hollywood árið 2008. Sú bók hefur sjálf þó einnig sætt gagnrýni.[11]

Rusesabagina hefur í seinni tíð verið yfirlýstur andstæðingur ríkisstjórnar Pauls Kagame, forseta Rúanda. Hann bauð stjórnarandstöðunni aðstoð með fjármagni og tengslaneti sínu en var fljótt sakaður um að veita vopnuðum uppreisnarhópum fjárhagsaðstoð, þar á meðal hershöfðingjanum Kayumba Nyamwasa, fyrrum bandamanni Kagame. Kayumba, sem dvelur í útlegð í Suður-Afríku og stýrir þaðan uppreisnarhreyfingum í Úganda, Suður-Kivu og Búrúndí, hefur nokkrum sinnum orðið fyrir banatilræðum.[12]

Í ágúst 2020 var Paul Rusesabagina handtekinn af rúöndsku lögreglunni undir vafasömum kringumstæðum.[13] Hann var sakaður um að vera stofnandi og fjárhagslegur bakhjarl vopnaðrar uppreisnarhreyfingar (Mouvement rwandais pour le changement démocratique - MCRD og PDR Ihumure)[12] og því var gefin út alþjóðleg handtökuskipun gegn honum. Handtökuskipunin var meðal annars réttlætt með vísan til „íkveikju, launmorða og hryðjuverka gegn óbreyttum borgurum“. Talsmaður rúöndsku rannsóknarlögreglunnar, Thierry Murangira, neitaði að taka fram hvaða lönd hefðu fallist á handtöku Rusesabagina og sagði aðeins að hún hefði farið fram með „alþjóðlegu samstarfi“.[14] Rannsóknarlögreglan staðfesti síðar handtökuna á Twitter-reikningi sínum.[15][16]

Í september 2021 var Rusesabagina dæmdur í 25 ára fangelsi fyrir hryðjuverkastarfsemi.[17] Hann var hins vegar látinn laus í mars 2023 eftir milligöngu Katara og Bandaríkjamanna.[18]

Ítarefni[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „À Bruxelles, des mouvements rwandais d'opposition étendent leur union“ (franska). RFI. 19. júní 2019. Sótt 23. september 2021.
  2. Radostitz 2005.
  3. 3,0 3,1 Hagler 2005.
  4. Van Renterghem 2015.
  5. Laporte 2006.
  6. Lo. 2005.
  7. Evers et al. 2012a.
  8. Evers et al. 2012b.
  9. Lepidi & Van Renterghem 2019.
  10. Birta Björnsdóttir (4. október 2021). „Hetjan sem var dæmd fyrir hryðjuverkastarfsemi“. RÚV. Sótt 5. október 2021.
  11. Viviane Azarian (1. júlí 2009). „Alfred Ndahiro, Privat Rutazibwa, Hôtel Rwanda ou le génocide des Tutsis vu par Hollywood. Paris, Éd. L'Harmattan, 2008“. Questions de communication (franska) (15): 396–398. ISSN 1633-5961. Sótt 22. ágúst 2021.
  12. 12,0 12,1 „le carnet de Colette Braeckman“. le carnet de Colette Braeckman. Sótt 23. september 2021.
  13. Simon Allison (17/09/2020). „Rwanda. La disgrâce du héros d'"Hôtel Rwanda"“. Courrier International (1559).
  14. „http://blog.lesoir.be/colette-braeckman/“.
  15. RFI 2020.
  16. Malagardis 2020.
  17. Þorvarður Pálsson (20. september 2021). „Sögu­hetja Hotel Rwanda dæmdur fyrir hryðju­verk“. Fréttablaðið. Sótt 23. september 2021.
  18. Markús Þ. Þórhallsson (25. mars 2023). „Hetja Hótel Rúanda laus úr fangelsi“. RÚV. Sótt 27. mars 2023.