Orlof

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Orlof er tími sem þar sem tekið er frí frá vinnu eða námi og sem einstaklingurinn notar til eigin hugðarefna, ferðalaga, hvíldar eða hverrar þeirrar iðju sem viðkomandi kýs. Orlof er yfirleitt notað um frí þegar það stendur í marga daga og eru því frídagar um helgar yfirleitt ekki kallaðir orlof.

Yfirleitt er orðið „orlof“ ekki notað um hina eiginlegu frítöku heldur er talað um sumarfrí, vetrarfrí, páskafrí og jólafrí, (sjá þó húsmæðraorlof).

Orðið „orlof“ hefur breytt um merkingu en fyrr á öldum gat það þýtt „leyfi“ sbr. „eingi þeirra manna sem sigi ero j logriettu nefnder skulu innan uebanda sitia utan orlof“.[1] Á síðari árum hefur orðið tekið merkinguna "frí" eða lausn frá daglegu starfi og tíma sem ætlaður er til hvíldar eða dægrastyttingar umfram þá daga sem sameiginlegir eru öllum sem frídagar, þ.e. lögbundnir frídagar.

Orlofsréttur á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Allt launafólk[2] á Íslandi á rétt til orlofs að lágmarki 24 daga á ári miðað við að viðkomandi vinni fullan vinnudag. Með orlofi er átt við að viðkomandi eigi þennan tíma til að hvíla sig, sinna hugðarefnum sínum og fjölskyldu - þrátt að fyrir að orlof sé oft notað til að sinna annarri vinnu eða aukavinnu.

Auk réttar til orlofstöku fjalla lög um orlof [3]um rétt til orlofslauna, að lágmarki 10,17% allra greiddra launa. Orlofslaun skulu greidd næsta virka daga fyrir töku orlofs eða með hefðbundnum launagreiðslum. Þá er og heimilt með samkomulagi við viðkomandi stéttarfélag að launagreiðandi leggi orlofslaun inn á sérstakan orlofsreikning í nafni launamanns og eru þá orlofslaun greidd út um miðjan maí með vöxtum.

Algengt er að launagreiðendur greiði sjálfir dagvinnuhluta orlofs starfsmanna en leggi orlof af yfirvinnu og öðrum breytilegum tekjum inn á orlofsreikninga. Áunnið orlof er greitt er að launagreiðanda skal umreikna í dagvinnustundir og þegar það kemur til greiðslu, greiðist það með þeim dagvinnulaunum sem þá gilda.

Svo sem fram kemur í lögunum fjalla þau annars vegar um rétt launamanns til leyfis frá störfum og hins vegar um rétt hans til greiðslu orlofslauna þann tíma sem hann er frá störfum. Oftast fer þetta tvennt saman en þarf þó ekki að gera það. Þannig getur starfsmaður, sem nýlega hefur hafið störf, átt rétt til leyfis án þess að eiga rétt á greiðslum í leyfinu frá núverandi atvinnurekanda. Hann hefur þá áður fengið uppgerð orlofslaun frá fyrri atvinnurekanda. (Vinnuréttur - vefur ASÍ)

Samkvæmt orlofslögum er orlofstímabilið frá 2. maí til 15. september(í sumum kjarasamningum er ákvæði um 30. september.) Í almennum kjarasamningi SGS við SA er ákvæði um að sumarorlof, þ.e. orlof tekið á orlofstímabilinu, sé að lágmarki 20 dagar. Fái starfsmaður ekki 20 daga sumarorlof skal hann fá álag, 25%, á það sem á vantar af 20 daga orlofi, til viðbótar við þá orlofsdaga sem hann tekur utan þess tímabils.

Orlofsárið er 1. maí til 30. apríl, þ.e. réttur til orlofs og orlofslauna reiknast á þessu tímabili.

Orlofsuppbót er árleg eingreiðsla sem greidd er til launafólks 15. júní og er ætluð til að auðvelda launafólki töku orlofs. Upphæð orlofsuppbótar er mismunandi eftir kjarasamningum en er 2008 24.300 kr. í almennum kjarasamningum en yfir 100.000 kr. í einstaka sérkjarasamningum, t.d. vinnustaðasamningi AFLs Starfsgreinafélags og ALCOA Fjarðaáls.

Saga orlofsréttar á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1942 öðlaðist allt íslenskt launafólk rétt til orlofs, samkvæmt lögum. Áður en til lagasetningarinnar kom, hafði þó verið gert samkomulag við atvinnurekendur um að koma á rétti til orlofs. Lögin gerðu því ekki annað en að staðfesta það sem verkalýðshreyfingin hafði náð fram í samningum gagnvart atvinnurekendum. Málið hafði um nokkurt skeið legið fyrir þingi, en fékkst ekki afgreitt fyrir en orlofsrétturinn var orðinn að veruleika.

Aðdragandi þessa máls var nokkur. Árið 1939 höfðu verið sett lög á Alþingi sem takmörkuðu verðlagsbætur á grunnlaun, þó verðhækkanir væru miklar. Síðan skall stríðið á og eftir að landið var hernumið þurfti setuliðið á miklu vinnuafli að halda, þannig að skortur varð á verkafólki. Við þessar aðstæður var mjög erfitt fyrir íslenska atvinnurekendur að keppa um vinnuafl, ekki síst vegna þess að þeim var óheimilt að bjóða hærri laun.

Lögin um takmörkun á verðlagsuppbótum voru numin úr gildi um áramótin 1941/42, en þá höfðu ýmis verkalýðsfélög boðað til verkfalla. Ríkisstjórnin setti bráðabirgðalög, þar sem settur var gerðardómur í kaupgjaldsmálum og verðlagsmálum, en grunnkaupshækkanir bannaðar. Jafnframt voru verkföll og verkbönn óheimil. Verkalýðsfélögin aflýstu verkföllum en fólk mætti samt sem áður ekki til vinnu. Þessar aðgerðir verkafólks gengu undir nafninu Skæruhernaðurinn og stóðu hæst sumarið 1942. Aðgerðirnar höfðu mikil áhrif á framgang verkefna sem mörg töfðust eða stöðvuðust. Ýmsir atvinnurekendur ákváðu því að hækka laun til að fá fólk til vinnu, jafnvel þó í því fælust lögbrot. Lögin voru þar með ekki annað en orðin tóm og voru skömmu síðar numin úr gildi.

Eftir þennan mikilvæga sigur launafólks voru gerðir almennir kjarasamningar, þar sem náðust margir mikilvægir áfangar í kjarabaráttu launafólks. Samningurinn fól m.a. í sér ákvæði um átta stunda vinnudag, réttinn til orlofs, hækkun yfirvinnutaxta, auk næstum 40% launahækkunar.

Orlofsrétturinn skiptist annars vegar í rétt til leyfis frá störfum og hins vegar í rétt til launa á þeim tíma. Með samningunum 1942 fékkst 12 daga sumarleyfi og atvinnurekendur samþykktu að greiða 4% í orlofssjóð. Þetta hlutfall hækkaði í 5% árið 1952 og hefur hækkað nokkrum sinnum síðan.

Samkvæmt núgildandi kjarasamningum skal orlof vera að lágmarki 24 virkir dagar, tveir dagar fyrir hvern unninn mánuð og orlofslaun skulu vera 10,17% af öllu kaupi, hvort sem um er að ræða dagvinnu eða yfirvinnu. Þetta hlutfall hækkar síðan með auknum starfsaldri og orlofsdögum fjölgar. Nánar er kveðið á um orlofsrétt og orlofslaun í kjarasamningum mismunandi starfsstétta.

Orlofshús[breyta | breyta frumkóða]

Verkalýðshreyfingin lét þó ekki þar við sitja. Það var ekki nóg að eiga lögbundið frí á launum. Til að tryggja að launafólk hefði aðstæður til að nýta orlofið, hófu mörg þeirra byggingu orlofshúsa. Þannig eru nú víða um land orlofsbyggðar verkalýðsfélaga, sem félagsmönnum gefst tækifæri á að leigja á sanngjörnu verði til lengri eða skemmri tíma. Á síðustu árum hefur það færst í vöxt að félög hafa byggt eða keypt orlofshús í útlöndum, til útleigu fyrir félagsmenn. Þessi kaup eru fjármögnuð af svokölluðum orlofs- eða orlofshúsasjóðum, sem og ýmislegt fleira sem viðkemur orlofi félagsmanna. Samkvæmt flestum kjarasamningum er framlag atvinnurekenda til orlofssjóða 0,25% af útborguðu kaupi.


Neðanmálsgreinar[breyta | breyta frumkóða]

  1. [1] Geymt 7 mars 2016 í Wayback Machine Orðabók Háskóla Íslands - vitnað í Alþingisbækur 1561 - 1565
  2. Ath. einnig Húsmæðraorlof en í lögum nr. 53 /1972 [2] um húsmæðraorlof eru gerðar ráðstafanir til orlofs fyrir konur sem ekki þiggja laun fyrir heimilisumsjón :„Sérhver kona, sem veitir eða hefur veitt heimili forstöðu, án launagreiðslu fyrir það starf, á rétt á að sækja um orlof“ (6.gr. laganna)
  3. Lög nr. 30/1987 § 7