Fara í innihald

Oddi Helgason

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Oddi Helgason, kallaður Stjörnu-Oddi, var íslenskur stjörnufræðingur sem talinn er hafa verið uppi á fyrri hluta 12. aldar.

Frá Odda segir í Íslendingaþættinum Stjörnu-Odda draumur. Oddi átti heima í Múla í Aðaldal og var á vist með Þórði bónda þar en ekki er ljóst hvort hann var vinnumaður eða e.t.v. ættingi Þórðar. Hugsanlegt er að Styrkár Oddason lögsögumaður hafi verið sonur hans en sonur Styrkárs bjó einmitt í Múla á síðari hluta 12. aldar. Honum er einnig lýst sem vitrum og fróðum manni, fátækum og litlum verkmanni. Þátturinn snýst þó afar lítið um Odda, meginefnið er draumur hans sem er saga af konungum og skáldum á Gautlandi og vísur sem fylgja sögunni.

Oddi var mikill stjörnufræðingur, sagður „rímkænn maður svo að engi maður var hans maki honum samtíða á öllu Íslandi“ og mikill spekingur á mörgum sviðum en tekið er fram að hann hafi ekki verið skáld. Hann er sagður hafa verið afar ráðvandur og tryggur og laug aldrei ef hann vissi satt að segja. Ekki þótti hann mikill verkmaður, enda fékkst hann jafnan við stjörnuathuganir og reikningslist og gekk út um nætur og skoðaði stjörnur, gerði merkar athuganir á sólarhæð og dögun og dagsetri. Hann dvaldi einnig í Flatey á Skjálfanda og er talinn hafa stundað stjörnuathuganir þar.

Odda tala, sem álitin er verk Odda og kennd við hann, er talin eitt merkasta framlag Íslendinga til raunvísinda á miðöldum. Hún er varðveitt í Rímbeglu og fleiri handritum. Efni hennar skiptist í þrennt, fyrsti hlutinn fjallar um hvenær sólstöður verða á sumri og vetri, annar hlutinn um sólargang og sá þriðji um hvernig stefna til dögunar og dagseturs breytist yfir árið. Útreikningar og niðurstöður eru með þeim hætti að víst er að um frumathuganir á Íslandi er að ræða en ekki uppskriftir úr erlendum ritum og margt í þeim þykir býsna frumlegt og bera vitni um sjálfstæð vinnubrögð og hugsun.

Oddagata í Reykjavík dregur nafn sitt af Stjörnu-Odda.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.