Notandi:Diveexplorer/sandbox

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Póstskipið PhØnix


Phönix var byggt í Skotlandi árið 1861. Það var gufuskip, 60 metra langt og 7 metrar á breidd. 628 tonn á þyngd. Það var byggt sem flutningaskip, byrðingur þess var úr stáli, tvímastrað. Það var á einni hæð en bætt var við það brú og var vélin gerð upp árið 1878. (sjá mynd) Skriflegar heimildir segja að skipið hafi verið traust og skrautlegt og gufuvélin hafi verið sérstaklega vönduð og dýr. Phönix sinnti póstflutningum milli Danmerkur, Færeyja og Íslands. Phönix var fyrsta póstgufuskipið sem sinnti miðsvetrarferðum til Íslands. Voru það ákveðin tímamót. Phönix var í eigu “sameinaða gufuskipafélagsins”, DFDS.


Saga skipsins & strandið

15. janúar 1881 lagði póstskipið Phönix frá Kaupmannahöfn, ferðinni var heitið til Íslands, með viðkomu í Skotlandi og Færeyjum. Á þessum árum voru gufuskipaferðir til Íslands ekki algengari en það að hingað gekk aðeins eitt skip - Póstskipið - og kom það til Reykjavíkur síðustu ferð ársins í nóvember. Síðan kom ekkert skip fyrr en seint í janúar, miðvetrarskipið, og eftir það var aðeins farin ein ferð í mánuði. Þessi janúar mánuður 1881 hefur verið kallaður Þorrabylurinn en hann var einn mesti frosta og harðindavetur sem gengið hefur yfir Ísland. Faxaflói að innanverðu hafi allur verið ísilagður, ein hella.

Er Phönix sigldi fyrir Reykjanes hreppti það aftaka norðanveður með hörkufrosti og blindhríð. Skipið var allt yfirísað og erfiðlega gekk að stýra skipinu, auk þess vissu menn ekki nákvæmlega hvar þeir voru staddir. Eftir tveggja sólarhringa baráttu við veðuröflin og þrotlausa vinnu við að brjóta ísinn af skipinu voru menn að niðurlotum komnir. Er skipið var statt útaf Löngufjörum, Snæfellsnesi, tók það niður á blindskeri þannig að leki kom. Áhöfnin, alls 24 manns, höfðu engan tíma til að bjarga farmi skipsins, aðeins það að sjósetja björgunarbáta. Það var til happs að skipið hafði strandað stutt frá landi, þannig að allir komust í land. Aftakabylur var og mikill kuldi -10° til -20° frost. Þegar menn náðu til byggða eftir marga klukkutíma barning í veðrahaminum voru margir þeirra illa á sig komnir. Þannig fór að einn úr áhöfninni lést nokkrum dögum síðar, sökum kalsára. Þá varð læknir að fjarlægja útlimi nokkurra skipsbrotsmanna. Sá látni hét Alexius Bech, þrítugur að aldri, en hann var kokkur um borð í skipinu. Alexius var jarðsettur í Miklholtskirkjugarði, 16. febrúar 1881.

Næstu daga var reynt að bjarga einhverju af farmi skipsins en það reyndist miklum erfiðleikum bundið. Margir misstu mikið við strand þetta enda mikið af nauðsynjavörum var um borð. Nokkrar ferðir voru farnar um borð í skipið þar sem það hékk á skerinu en lestin var full af sjó og því ógerlegt að bjarga póstpokum skipsins þar sem hann var allur geymdur í skuti skipsins. Töluverður reki varð úr flakinu og náði rekasvæðið alla leið frá strandstað að Búðum á Snæfellsnesi. Sagt var að rekasvæðið hafi verið allt að 10 mílur. Uppboð á rekamunum voru haldin af sýslumanni og gat fólk boðið í þá hluti sem ekki voru merktir einhverjum ákveðnum eiganda.

Þess ber að geta að árið áður en skipið fórst eða 4. maí 1880 voru jarðneskar leifar Jóns Sigurðssonar og konu hans, frú Ingibjargar flutt með Phönix frá Danmörku til Íslands. Til heiðra minningu þeirra voru listamenn og myndhöggvarar fengnir til að koma með hugmyndir, gera teikningar og kostnaðaráætlanir að gerð minnismerkis, sem setja átti upp á Íslandi við leiði þeirra hjóna. Þessar tillögur og teikningar voru sendar með Phönix í þessari örlagaríku ferð. Einnig eru heimildir fyrir því að marmaraplata sem setja átti á leiði skáldsins Kristjáns Jónssonar, Fjallaskálds, hafi verið með í skipinu. Er þetta aðeins hluti af þeim munum og skjölum sem fóru niður með skipinu.

Póstskipið, SS Phønix, var byggt í Skotlandi árið 1861. Phønix var 60 metra langt gufu og seglskip, 628 tonn á þyngd. Skipið var í eigu “Det forenede Dampskibsselskab” (DFDS) í Danmörku sem gerði skipið út til Íslands.

Fyrsta ferð Phønix til Íslands var 7. júni 1864 og var það á áætlunum til landsins allt til þess tíma er það fórst. Phønix var fyrsta gufuskipið sem sinnti svokölluðum miðsvetrarferðum til Íslands. Á þessum tíma skipti það Íslendinga miklu máli að fá ýmsar vörur og halda uppi samgöngum á milli Íslands og Evrópu yfir vetrartímann. Friðlýsingin á flakinu.


Leitin að skipsflaki Phønix

Leitin að flaki Phønix hófst í janúar 2006. Arnar Þór Egilsson, kafari, hóf undirbúningsvinnu, gerð áætlana og sá um að setja saman leiðangra til þess að freista þess að reyna að finna flakið. Ýmsar ástæður voru fyrir því hvers vegna var farið út í leit að þessu flaki en ekki einhverju öðru. Leitað var upplýsinga og gagna á mörgum stöðum. Tvö ár liðu, þar til framkvæmdar voru kafanir á líklegasta leitarsvæðinu. Var það gert með aðstoð kafarahóps Ríkislögreglustjórans.

Trausti Skúlason og Guðríður Kristjánsdóttir, landeigendur á Syðra-Skógarnesi, voru í samráði og veittu þau leyfi sitt svo leiðangurshópurinn fengi að fara um jörð þeirra og athafna sig.

Það var svo þann 16. apríl 2009 að flakið fannst eftir ítarlega leit. Leiðangursmenn voru Arnar Þór Egilsson, Eggert Magnússon og Eiríkur Ó. Jónsson.

Í kjölfarið af fundinum var haft samband við Fornleifavernd Ríkisins og þeim kynnt málið.


Friðlýsing á flakinu


Það var nokkuð ljóst þegar flakið fannst að eitthvað yrði að gera til að vernda það. Þarna var að finna áhugaverða og merkilega sögu og var flakið algjörlega óhreift af mannanna völdum frá því að skipið sökk. Ákveðið var að óska eftir sérstakri friðlýsingu á flakinu.

Helstu ástæður fyrir því að friðlýsa flakið voru tvíþættar. a) Samkvæmt Þjóðminjalögum þá eru flök eldri en 100 ára sjálfkrafa friðuð eða vernduð. En bæta þyrfti um betur. b) Þarna var fundið skipsflak sem hafði strandað og sokkið, og samkvæmt heimildum með allan farm og póst landsmanna með því. Því væri það nauðsynlegt að gera ítarlega rannsókn á flakinu og kanna hvað skildi leynast í því.

Flakið af Póstskipinu Phønix var friðlýst þann 20. október 2010 af Fornleifavernd Ríkisins að beiðni finnanda flaksins, Arnars Þórs Egilssonar. Friðlýsingin felur í sér köfunarbann yfir flakinu og í 20 metra radíus í kringum það.


Neðansjávarrannsókn á flaki Phønix


Meginn markmið rannsóknarinnar

Nákvæm skráning og uppmæling á flakinu.

Sýnataka til að varpa ljósi á varðveislugildi minjastaðarins.

Sunnanvert Snæfellsnes er kjörinn staður til að þróa aðferðafræði í íslenskri neðansjávarfornleifafræði þar sem að mörg skip frá öllum tímum hafa farist á þessu svæði. Póstskipið Phønix er ákjósanlegur æfinga- og þjálfunarstaður fyrir kafara í fornleifafræði þar sem skipið liggur grunnt og aðgengi tiltölulega auðvelt.

Þessi rannsókn mun umbreyta skilningi okkar á minjum neðansjávar og gera okkur kleift að þróa aðferðafræði neðansjávarfornleifafræði við íslenskar aðstæður.

Að því sem best er vitað er rannsóknin fyrst til að:

1) Þjálfa kafara til fornleifarannsókna neðansjávar við íslenskar aðstæður. 2) Taka sýni til að kanna varðveislugildi og ástand neðansjávarminja við Snæfellsnes. 3) Heildarrannsókn á ákveðnu flaki við Ísland

Rannsóknin mun vera gríðarleg viðbót við þekkingu okkar í íslenskri fornleifafræði og marka upphaf aðferðafræðilegrar þróunar í íslenskri neðansjávarfornleifafræði.

Mikilvægt er að þróa aðferðafræði í neðansjávarfornleifafræði við íslenskar aðstæður. Verkefnið miðar að því að þau gögn og reynsla sem safnast við rannsóknina á póstskipun Phønix munu nýtast við frekari rannsóknir á minjum neðansjávar.

Fjölmargir einstaklingar á Íslandi eru með sportskafararéttindi en nær engir eru þjálfaðir til að stunda fornleifarannsóknir neðansjávar. Mikilvægt er að til verði í landinu hópur fólks, bæði áhugamanna og vísindamanna sem getur stundað neðansjávarrannsóknir. Verkefnið stefnir að því að hefja þjálfun einstaklinga við fornleifarannsóknir neðansjávar.


Um rannsóknina


Árið 2011 hófst rannsókn á póstskipinu Phønix sem fórst við Syðra Skógarnes á Snæfellsnesi (Ragnar Edvardsson og Arnar Þór Egilsson 2012). Allar þessar rannsóknir hafa sýnt að neðansjávarrannsóknir hafa alla burði til að auka skilning okkar á fortíðinni, samfélagsþróun og efnahagssögu þjóðarinnar.

Á seinni hluta 19. aldarinnar urðu miklar breytingar í verslunar- og farþegasiglingum til og frá Íslandi með tilkomu gufuskipa. Gufuskip komu fyrst fram á sjónarsviðið um aldamótin 1800 en þegar komið var fram á seinni hluta aldarinnar höfðu þau að mestu leiti tekið við af seglskipum sem farþega og flutningaskip. Í lok 18. aldar hófust reglulegar áætlunarferðir milli Íslands og Danmerkur með svonefndum póstskipum. Í fyrstu voru aðeins farnar 1 – 2 ferðir á ári en á seinni hluta 19. aldarinnar voru ferðir póstskipanna allt að 6 á ári. Árið 1858 hóf fyrsta gufuskipið, „Arcturus“, ferðir milli Íslands og Danmerkur og árið 1861 hóf Phønix reglulegar áætlunarferðir til Íslands. Frekari fjölgun varð í gufuskipaflota póstskipanna á árið 1882 bættist gufuskipið „Laura“ við og á tímabilinu milli 1882 – 1900 sigldu fjölmörg póstskip milli Kaupmannahafnar og Reykjavíkur (Heimir Þorleifsson 2004).

Síðari hluti 19. aldarinnar var mikilvægur í sögu íslensku þjóðarinnar og þá sérstaklega í ljósi sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Í apríl 1880 flutti póstskipið Phønix lík Jóns Sigurðssonar forseta og konu hans Ingibjargar Einarsdóttur til landsins og var útför þeirra gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík (Þórir Stephenssen 1996). Tæpu ári síðar, í janúar 1881, þegar Phønix sigldi aftur til Íslands voru um borð bæði nauðsynjavörur og persónulegir munir áhafnarinnar. Samkvæmt farmsskrá skipsins voru einnig um borð persónulegir munir ýmissa einstaklinga sem sendir höfðu verið til Íslands. eðal þessara gripa var marmaraplata sem átti að nota á minnisvarða Kristjáns Jónssonar fjallaskálds. Ljóst er að skipið og farmur þess hefur talsvert sögulegt gildi og mun vera mikilvæg viðbót við sögu Íslendinga á síðari hluta 19. aldar (Ísafold jan. 1881, Þjóðólfur 12.feb. 1881).

Við fornleifarannsóknina á Phønix 2011 kom í ljós talverður fjöldi gripa, bæði úr farmi og persónulegir munir áhafnarinnar. Við forkönnun á svæðinu austan megin við flakið sáust ýmsir gripir á botninum. Á því svæði er sandbotn og því líklegt að talsvert mun fleiri leynist undir sandinum. Við flakið voru skráðir nokkrir gripir og þá sérstaklega vert að nefna heillega keramík gripi, diska og súpuskálar. Nánari athugun á keramík gripunum leiddi í ljós að uppruni þeirra var frá Englandi (Ragnar Edvardsson og Arnar Þór Egilsson 2012).

Mikilvægt er að halda áfram skrásetningu á þeim munum sem liggja á víð og dreif við flakið til að fá betri hugmynd um farm skipsins og þá muni sem tilheyrðu áhöfn þess. Í framtíðarrannsóknum á póstskipinu Phønix er mikilvægt að gripir verði skrásettir og síðan fjarlægðir til forvörslu og er það sérstaklega vegna þeirrar hefðar sem skapast hefur á meðal sportkafara að taka minjagripi úr flökum sem þeir kafa niður á. Staðreyndin er sú að flest þau þekktu flök á grunnsævi við Íslandsstrendur hafa verið rænd að meira eða minna leiti og þannig hafa glatast mikilvægar fornleifafræðilegar upplýsingar. Enn sem komið er hefur tekist að halda staðsetningu skipsins leyndri en reynslan hefur kennt að slíkt er ekki mögulegt í langan tíma.

Forrannsóknin á póstskipinu Phønix sýnir að fornleifarannsóknir neðansjávar við Ísland eru vel framkvæmanlegar og geta aukið skilning okkar á fortíðinni til muna. Íslendingar hafa í gegnum aldirnar byggt afkomu sína á því sem hafið gaf. Auk þess sem samskipti við önnur lönd, innflutningur og útflutningur voru að mestu yfir hafið. Því geta neðansjávarrannsóknir á sokknum skipum, verslunarstöðvum, hvalveiðistöðvum, ofl. hjálpað okkur að skilja betur hvernig verslun og viðskiptum var háttað fyrr á tímum og þannig aukið þekkingu okkar á samskiptum íslendinga við önnur lönd. Rannsóknin á póstskipinu Phønix hefur þegar opnað nýjan kafla í íslenskri fornleifafræði sem fræðigrein og gefa greininni fleiri möguleika á að túlka fortíðina og skilning á sögu íslensku þjóðarinnar.


Afrakstur og ávinningur verkefnisins


Rannsóknarverkefnið “Póstskipið Phønix” markar tímamót í íslenskri fornleifafræði og margfalda þær upplýsingar sem við eigum um neðansjávarminjar. Staðsetning flaksins af Phønix var óþekkt þar til í árið 2009 þegar það fannst og því er hér fundið markvert minningarmark um einstakan atburð sem átti sér stað árið 1881.

Niðurstöður þessarar rannsóknar munu hafa áhrif á kenningar og aðferðafræði í íslenskri fornleifafræði.. Að auki mun rannsóknin gefa tækifæri á nýrri nálgun í rannsóknum í fornleifa- og sagnfræði.


Meðal mælanlegs ávinnings má nefna:

  • Birting rannsóknarniðurstaðna í ritrýndum tímaritum.
  • Skilningur á þeim umhverfisþáttum sem hafa áhrif á niðurbroti minjastaða neðansjávar.
  • Upplýsingar um eðli og umfang neðansjávarrannsókna og áhrif á kafara.
  • Þróun aðferðafræði í neðansjávarrannsóknum.
  • Grunnrannsókn fyrir frekari rannsóknir á neðansjávarminjum


Fréttagreinar

http://www.visir.is/fjarsjod-fornminja-ad-finna-a-hafsbotni/article/2012703229857

http://www.mbl.is/greinasafn/innskraning/?redirect=%2Fgreinasafn%2Fgrein%2F1379931%2F%3Ft%3D613419054&page_name=article&grein_id=1379931

http://www.skessuhorn.is/frettir/nr/135987/


Heimildir

Facebook síða um verkefnið Phönix

Fönix, félag um neðansjávarfornleifafræði

Heimasíða um Phönix

http://vest.hi.is/póstskipið_phönix