Nestoríos

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Nestoríos (fæddur um 386, látinn um 451) eins og hann hét á grísku, Νεστόριος, er þekktari á Vesturlöndum sem Nestoríus, var patríark í Konstantínópel frá 10. apríl 428 til 22. júní 431. Hann var sennilega fæddur í Persíu en menntaðist í Antokkíu, einni aðalstöð kristinnar menningar á þeim tíma. Antiokkía er þar sem nú er borgin Antakya í Tyrklandi en sem þá var hluti af grískumælandi hluta Rómaveldis.

Nestoríos er álitinn upphafsmaður þeirra guðfræðikenninga sem kallaðar eru nestoríanismi. Upphaf þeirra eru efasemdir hans um notkun hugtaksins þeotokos (grísku Θεοτόκος) eða Guðsmóðir, Móðir Guðs, hugtak sem notað var um Maríu mey. Þessar skoðanir mættu mikilli andstöðu sérlega frá Kýrill biskupi og patríarka í Alexandríu (á grísku hét hann Kyrillos, Κύριλλος, og latínu Cyrillus). Fyrir utan guðfræðiþrætur flæktist inn í deilurnar valdabarátta milli stuðningsmanna patríarkanna í Alexandríu og Antiokkíu, deilur um hlutverk keisarans gagnvart patríarkanum í Konstantínópel og einnig valdafíkn páfans í Róm.

Guðfræðideilurnar snerust um eðli Jesú og guðleika. Að formi til var deilt um hugtökin „guðsmóðir“ (þeotokos / Θεοτόκος) sem lýsingu á hlutverki Maríu meyjar. Nestoríos vildi ekki nota það og valdi í þess stað í prédikunum sín að hota „Kristsmóðirin“ (Kristotokos/Χριστοτόκος/). Fyrra hugtakið afneitaði mannlegu eðli Jesú samkvæmt Nestoríosi og gerði hann einungis guðlegan. Haft er eftir Nestoríosi: „Guð getur ekki verið tveggja eða þriggja mánaða ungabarn“. Samkvæmt honum hafði María mey fætt hina mannlegu hlið Jesúsar en ekki þá guðlegu. Kýrill biskup andmælti og sagði Nestoríos með þessu afneita raunveruleika þess að Guð sendi eingetinn son sinn til manna með því að gera Jesús að tveimur persónum, mannlegri og guðlegri, í sama líkama.

Theodosius II, keisari, (401–450) kallaði saman kirkjuþing í Efesos árið 431 til að ræða málin. Keisarinn hafði stutt patríarkann í Konstantínópel gegn Kýrilli í Alexandríu og Selestínus I páfa í Róm. En á þinginu snérist honum hugur og eftir heiftarlegar deilur samþykkti þingið að kenningar Nestoríusar væru algjör villutrú og bannfærðu hann.

Keisarinn sendi Nestoríos nauðugan í klaustur í Egyptalandi, þar sem nú heitir al-Khargah, og var hann þar fangi Kýrills biskups það sem eftir var æfi. Bækur hans voru brenndar hvar sem þær fundust. Engar bækur eftir Nestoríos hafa varðveittst á ritmáli hans, grísku, en þó nokkuð í þýðingum á sýrísku.

Þetta leiddi til fyrsta alvarlega klofningi í kirkjunni þar sem Nestoríanskar kirkjur breiddust út í miðausturlöndum og um stóran hluta mið Asíu.

Nestorius er í miklum hávegum hafður af Assýrísku austurkirkjunni og er einn höfuðdýrlingur hennar, á sýrísku heitir heilagur Nestoríos Mar Nestorios.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • John Anthony McGuckin, St. Cyril of Alexandria: The Christological Controversy ISBN 0-88141-259-7 — rekur meðal annars sögu kirkjuþingsins í Efesos og úskýrir guðfræði Nestoríusar.
  • Kelly, J.N.D., Early Christian Doctrines, ISBN 0-87552-886-4

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]