Moll

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Í tónfræði er moll (moll, komið úr latínu, mollis sem þýðir "mjúkur" eða "blíður") önnur tegund tónstiga og tóntegunda í dúr og moll kerfinu. Það eru til þrjár tegundir af moll tónstigum sem innihalda hver um sig sjö tóna flesta sameiginlega en í heildina inniheldur moll tóntegund 9 tóna. Þessar þrjár molltegundir eru hreinn moll, laghæfur moll og hljómhæfur moll.

Tóntegundir í moll eru merktar með litlum bókstöfum á móti tóntegundum í dúr sem eru merktar í stórum bókstöfum.

Talað er um að tónlist í moll hljómi döpur en tónlist í Dúr hljómi glöð.

Uppbygging moll[breyta | breyta frumkóða]

Hreinn moll[breyta | breyta frumkóða]

Hreinn moll er sama tóntegund og Eólíska kirkjutóntegundin.

  Tónbil hreins molls:
 1   2   3   4   5   6   7  (8)
   1 - ½ - 1 - 1 - ½ - 1 - 1 
 
1 merkir Heiltónsbil
½ merkir Hálftónsbil

Hljómhæfur moll[breyta | breyta frumkóða]

Hljómhæfur moll hefur hækkaðan sjöundatón sem þýðir að sjöundi tónn tónstigans eða tóntegundarinnar er hækkaður um hálftón. Þetta gerir það að verkum að það myndast eitt og hálft bil eða stækkuð tvíund milli sjötta og sjöunda tóns.

  Tónbil hljómhæfs molls:
 1   2   3   4   5   6    7  (8)
   1 - ½ - 1 - 1 - ½ - 1½ - ½ 
 
1 merkir Heiltónsbil
½ merkir Hálftónsbil
1½ merkir Heiltónsbil + Hálftónsbil eða stækkuð tvíund.

Fyrir dúr og moll kerfið þegar kirkjutóntegundir voru notaðar var sjöundi tónn þeirra tóntegunda sem var heiltónsbili frá grunntóni tóntegundarinnar oft hækkaður til að mynda svokallaðan leiðsögutón tóntegundarinnar. Með því að hafa stóra sjöund hljómar eins og sjöundi tónninn leiti upp á fyrsta tón tóntegundarinnar og með því varð hann leiðsögutónn. Eólíska tóntegundin var ein af þeim tóntegundum þar sem sjöundi tóninn var oft hækkaður og þannig myndaðist hljómhæfur moll.

Laghæfur moll[breyta | breyta frumkóða]

Í laghæfum moll eru sjötti og sjöundi tónninn hækkaðir. Það gerir það að verkum að það verða engin tónbil stærri en heiltónsbil en samt hefur hún leiðsögutón sem gerir þetta að „laghæfustu“ moll tóntegundinni. Ólíkt hinum tóntegundunum er laghæfur moll mismunandi eftir því hvort farið er upp eða niður tónstigan.

Laghæfur moll er í raun hreinn moll á leiðinni niður.

   Tónbil laghæfs molls:
 1   2   3   4   5   6   7  (8)  7   6   5   4   3   2   1
   1 - ½ - 1 - 1 - 1 - 1 - ½ - 1 - 1 - ½ - 1 - 1 - ½ - 1
 
1 merkir Heiltónsbil
½ merkir Hálftónsbil

Ástæðan fyrir því að tónarnir eru einungis hækkaðir á leiðinni upp er sú að leiðsögutónninn leitar upp á fyrsta tón tóntegundarinnar og eru tónarnir því bara hækkaðir ef verið er að fara upp á fyrsta tón tóntegundarinnar.

Djass moll[breyta | breyta frumkóða]

Djass moll er eins og laghæfurmoll nema að hann breytist ekki á leiðinni niður. Hann má finna víða í djasstónlist og er mikið notaður við snarstefjun.

Formerki molla[breyta | breyta frumkóða]

Hækkuðu tónarnir í hljómhæfum og laghæfum moll eru merktir með lausum formerkjum á meðan tóntegundin er skilgreind með föstum formerkjum. Í a-moll eru engin formerki og var a-moll upprunalega eólíska kirkjutóntegundin áður en hægt var að tónflytja þær.

Sjá fimmundahringinn fyrir uppröðun fastra formerkja í moll.

Sjá nánar[breyta | breyta frumkóða]