Fara í innihald

Sykur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Matarsykur)
Stækkuð mynd af sykurkristöllum.

Sykur (líka kallað matarsykur eða strásykur) er sætt efni úr súkrósa sem er unninn úr sykurrófum eða sykurreyr og fleiri jurtum til neyslu. Sykur er hvítleit kristölluð tvísykra sem er notuð sem sætuefni í mat og drykki og til geymslu á matvælum. Sykur er til í ýmsum myndum en algengastur er hvítur sykur, flórsykur, púðursykur og hrásykur. Molasykur er sykur sem hefur verið pressaður og mótaður eða sagaður í teninga.

Sykur er oft notaður í ýmiss konar bakstur og margvíslega rétti, ekki síst ábætisrétti, sæta drykki, sælgæti og annað slíkt en einnig til að bragðbæta rétti af ýmsu tagi, enda þykir flestum sætt bragð gott. Raunar er sykur í einhverju formi í mjög mörgum unnum matvælum af öllu tagi. Sykur er orkuríkur, en of mikill sykur þykir ekki hollur, auk þess getur hann valdið tannskemmdum.

Talið er að sykurreyr sé uppruninn í Suður- eða Suðaustur-Asíu, e.t.v. bæði á Indlandi og Nýju Gíneu. Um 200 f.Kr. byrjuðu Kínverjar að rækta sykurreyr. Nearkos, einn af herforingjum Alexanders mikla sagði að sykur væri: „reyr sem gefur af sér hunang án býflugna“. Það var þó ekki fyrr en Arabar gerðu sykurvinnslu að iðnaði á miðöldum sem sykur fór að flytast til Evrópu í einhverju magni. Á 16. og 17. öld barst sykurreyr til Brasilíu og síðar Karíbahafseyja, sem urðu brátt helsta sykurræktarsvæði heimsins og voru þrælar helsta vinnuaflið á plantekrunum. Eftir því sem sykurplantekrunum fjölgaði féll sykur í verði og hætti að vera rándýr munaðarvara en það var þó ekki fyrr en farið var að vinna sykur úr sykurrófum ræktuðum í Norður-Evrópu snemma á 19. öld sem hann varð ódýr. Nú eru um 30% af sykurframleiðslu heimsins unnin úr sykurrófum.

Reyrsykur er sykur sem er unninn úr sykurreyr, plöntu af ættkvíslinni Saccharum í grasaætt.

  Þessi matar eða drykkjargrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.