Fara í innihald

Margrét Pála Ólafsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Margrét Pála Ólafsdóttir (fædd 13.Október 1957) [1]fóstra er höfundur Hjallastefnunnar.

Margrét Pála Ólafsdóttir hefur um árabil flutt fyrirlestra um ýmsa þætti uppeldisstarfs. Margrét Pála er höfundur Hjallastefnunnar þar sem unnið er að jafnrétti kynjanna með kynjaskiptu skólastarfi. Í fyrirlestrum sínum fjallar Margrét Pála um ástæður kynjaskiptingarinnar og segir frá ólíkum áherslum í stúlkna- og drengjauppeldi Hjallastefnunnar. Margrét Pála er leikskólakennari að mennt en hún útskrifaðist frá Fósturskóla Íslands árið 1981, lauk framhaldsnámi í stjórnun frá sama skóla árið 1996 og árið 2000 lauk hún meistaragráðu í uppeldis og menntafræði frá Kennaraháskóla Íslands. Margrét Pála stofnaði árið 2000 fyrirtækið Hjallastefnuna ehf. sem rekur nú 12 leik- og grunnskóla á grunni þjónustusamninga við sveitarfélög. Margrét Pála hlaut árið 1997 Jafnréttisverðlaun Jafnréttisráðs og ráðherra jafnréttismála fyrir Hjallastefnunna og hefur síðan hlotið fjölda viðurkenninga fyrir frumkvöðlastarf sitt í skólamálum. [2]

Hún er uppalin á Hólsfjöllum og síðar á Akureyri. Foreldrar hennar voru Kristín Gunnlaugsdóttir Oddsen húsmóðir og Ólafur Þorsteinn Stefánsson, bóndi og verkamaður. Margrét útskrifaðist frá Fósturskóla Íslands árið 1981 en hafði þá um tíma starfað á leikskóla sem ófagmenntaður starfsmaður auk þess að hafa haft afskipti af stjórnmálum. Nýútskrifuð tók hún til starfa á Hagaborg en 1982 gerðist hún leikskólastjóri í Steinahlíð þar sem grunnatriði þeirrar uppeldisstefnu sem síðar varð Hjallastefnan tóku að þróast. Eftir að Margrét hætti störfum í Steinahlíð árið 1987 starfaði hún um eins árs bil við Dagvistarráðgjöfina sem var sjálfstætt rekið ráðgjafarfyrirtæki. Árið 1989 var Margrét ráðin leikskólastjóri á nýjan leikskóla í Hafnarfirði, Garðavelli, sem fljótlega fékk gælunafnið Hjalli. Á Hjalla tók Margrét ásamt starfsfólki til við að móta nýstárlega starfshætti s.s. að skipta börnum á deildir eftir kyni, að nota náttúrulegt leikefni í stað hefðbundinna leikfanga og að leggja áherslu á aga og jákvæðni í samskiptum. Þóttu þessir nýju starfshættir ögrandi og stóð talsverður styrr um leikskólann fyrsta starfsárið en hin síðari ár hefur Hjallastefnan verið að ryðja sér æ meir til rúms bæði á Íslandi og í öðrum löndum og eru nú 14 leik- og grunnskólar hér á landi sem nota Hjallastefnuna að hluta til eða í heild. Árið 1996 útskrifaðist Margrét Pála frá framhaldsdeild Fósturskóla Íslands með B.Ed.-gráðu í stjórnun, árið 2000 lauk hún meistaragráðu í uppeldis- og menntafræði frá Kennaraháskóla Íslands og árið 2011 lauk hún MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Margrét Pála stofnaði árið 2000 fyrirtækið Hjallastefnuna ehf. sem rekur nú þrettán leik- og grunnskóla á grunni þjónustusamninga við sveitarfélög. Margrét Pála hlaut árið 1997 Jafnréttisverðlaun jafnréttisráðs og ráðherra jafnréttismála fyrir Hjallastefnunna. Hún hefur síðan hlotið fjölda viðurkenninga fyrir frumkvöðlastarf sitt í skólamálum meðal annars hina íslensku fálkaorðu.

Árið 1992 ritaði Margrét Pála bókina Æfingin skapar meistarann sem er lifandi og persónuleg frásögn af þróun og upphafsdögum Hjallastefnunnar. Mál og menning gaf bókina út en hún er nú uppseld og ófáanleg nema á bókasöfnum.[3]

Í samtalsbókinni Ég skal vera Grýla eftir Þórunni Hrefnu Sigurjónsdóttur sem kom út árið 2008, segir Margrét Pála Ólafsdóttir frá uppvexti sínum á einum afskekktasta bæ landsins, stormasömum æskuárum, afdrifaríkri ákvörðun um að verða fóstra, ástinni stóru, baráttunni við brennivínið, skrautlegum afskiptum af stjórnmálum og síðast en ekki síst hvernig Hjallastefnan varð til og hvað hún felur í sér.[4]

Ritverkalisti

[breyta | breyta frumkóða]

2011. Uppeldi er ævintýri. Margrét Pála Ólafsdóttir. 2008. Ég skal vera Grýla. Þórunni Hrefnu Sigurjónsdóttur. 2002. Æfingin skapar meistarann. Margrét Pála Ólafsdóttir. Mál og menning

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Íslendingabók“. www.islendingabok.is. Sótt 25. október 2020.
  2. http://www.jafnrettiiskolum.is/jis/?D10cID=page&ID=70[óvirkur tengill]
  3. Margrét Pála Ólafsdóttir (1992). Æfingin skapar meistarann. Reykjavík: Mál og menning.
  4. Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir (2008). Ég skal vera Grýla. Reykjavík: Mál og menning.