Magnús Birgir Jónsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Magnús Birgir Jónsson (fæddur 24. ágúst 1942 í Vestmannaeyjum) er íslenskur prófessor og doktor í búfjárrækt. Þá er hann einnig landsráðunautur í nautgriparækt (í hlutastarfi á móti Gunnfríði E. Hreiðarsdóttur) hjá Bændasamtökum Íslands.

Nám og störf[breyta | breyta frumkóða]

Magnús lauk búfræðiprófi frá Bændaskólanum á Hvanneyri 1960 og B.Sc.-prófi (framhaldsdeild) þremur árum síðar. Lokaverkefnið nefndist „Hagkvæmni djúpvinnslu frá jarðfræðilegu sjónarmiði“. Magnús fór þá út til Noregs til frekara náms og lauk doktorsprófi í landbúnaðarfræðum frá Landbúnaðarháskólanum að Ási árið 1969. Doktorsritgerð hans hét „Variasjonsårsaker i melkeavdråtten hos Islandske kyr“. Þá var hann einnig í námsdvöl við Landbúnaðarháskólann í Edinborg 1980.

Magnús var skólastjóri Bændaskólans á Hvanneyri á árunum 1972 til 1984 og aftur frá 1992 til 1999. Þá var hann rektor Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri (forvera Landbúnaðarháskóla Íslands) frá stofnun hans 2001 til 2004. Hann var ráðunautur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands á árunum 1963 til 1964 og tilraunastjóri hjá sambandinu árin 1970 til 1972. Einnig starfaði hann sem sérfræðingur í kynbótum hjá Norges Pelsdyrlag (loðdýraræktarsamband Noregs). Á árunum 1990 til 1992 var hann forstöðumaður Hagþjónustu landbúnaðarins. Frá árinu 2005 hefur Magnús gengt stöðu prófessors við Landbúnaðarháskóla Íslands auk þess sem hann hefur starfað sem kennari um árabil, bæði í bænda- og framhaldsdeild. Frá sumrinu 2007 hefur hann einnig verið landsráðunautur í nautgriparækt í hlutastarfi.