Fara í innihald

Möðruvellir (Hörgárdal)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Möðruvallakirkja í dag.

Möðruvellir er sveitabær og kirkjustaður í Hörgárdal í Hörgársveit við Eyjafjörð. Möðruvellir hafa verið í byggð allt frá landnámsöld og er víða getið í fornsögum, þó helst Sturlungu. Möðruvellir tengjast mjög sögu Íslands og Danmerkur á margvíslegan hátt. Þar var lengi vel eitt helsta höfuðból Íslands og þar var rekinn Möðruvallaskóli. Möðruvallaklaustur var stofnað þar árið 1296. Þar hafa margir embættismenn á vegum Danakonunga búið og meðal annarra fæddist Hannes Hafstein, fyrsti ráðherra Íslands, þar árið 1861.

Ágústínusarregla er klausturregla, kennd við heilagan Ágústínus frá Hippó. Möðruvallaklaustur í Hörgárdal var eitt af fimm munkaklaustrum reglunnar á Íslandi fyrr á öldum. Það var starfrækt frá 1295 allt til siðaskipta um miðja 16. öld.

Árið 1296 var stofnað á Möðruvöllum munkaklaustur af Ágústínusarreglu. Jörundur Þorsteinsson Hólabiskup kom klaustrinu á fót þar sem Hólabiskup væri ábóti þess en príor stjórnaði klausturlifnaði og ráðsmaður annast fjármál. Hann lagði klaustrinu til mikið fé og lét byggja þar kirkju um 1302. Hún brann árið 1316 og klaustrið einnig, kirkjuskrúði og kirkjuklukkur.

Klaustur stóð með nokkrum hléum á Möðruvöllum allt til siðaskipta. Kirkja mun hafa verið á Möðruvöllum frá því á söguöld, og líklega staðið á sama stað allan tímann. Kirkjan er oft kennd við klaustrið, en staðurinn var eðlilega nefndur Möðruvallaklaustur og kirkjan Möðruvallaklausturskirkja.

Kirkja sú sem nú stendur á Möðruvöllum var reist á árunum 1865-1867 eftir kirkjubrunann 1865 og var hún þá stærsta timburkirkja landsins. Í kirkjunni er margt fagurra muna sem henni hafa verið gefnir.

Við kirkjunar eru tveir kirkjugarðar: Hinn eldri og nýi. Sá eldri afmarkast af snyrtilegum grjótgarði að sunnan og norðan, en timburgirðingu að austan og vestan. Að framanverðu er yfirbyggt sáluhlið sem setur mikinn svip á staðinn og í það er skorið og málað 7. vers úr 2. passíusálmi.

Hannes Þórður Hafstein skáld, sýslumaður og fyrsti ráðherra Íslands er fæddur á Möðruvöllum 4. desember 1861.

Í eldri kirkjugarðinum hvíla margir þjóðkunnir menn, sem setið hafa staðinn eða búið í sveitinni. Má nefna að í suðaustri frá kirkjunni er elsti legsteinninn, en undir honum hvílir klausturhaldarinn, Lárus Hansson Scheving og kona hans en hann lést árið 1722. Þarna eru einnig leiði þriggja amtmanna, þeirra Stefáns Þórarinssonar (d. 1823), Bjarna Thorarensen skálds (d. 1841) og Péturs Hafstein (d. 1875). Norðvestur af kirkjunni er leiði Gríms Jónssonar amtmanns (d. 1849) og norðan við kirkjuna er Ólafur Davíðsson náttúrufræðingur og þjóðsagnasafnari (d. 1903) grafinn ásamt foreldrum sínum. Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (d. 1964) hvílir við hlið foreldra sinna í norðaustri frá kirkjunni og við austurgafl kirkjunnar er kirkjusmiðurinn Þorsteinn Daníelsson frá Skipalóni (d. 1882) jarðsettur. Fyrir kirkjudyrum, lítið eitt norðanvið gangveginn er legsteinn séra Jóns Jónssonar lærða (d. 1846) merks prests sem kenndur var við Möðrufell en endaði prestþjónustu sína á Möðruvöllum.

Nýr kirkjugarður var tekinn í notkun árið 1951 og er hann suður af gamla kirkjugarðinum.

Stjórnmálasaga

[breyta | breyta frumkóða]

Möðruvellir tengjast stjórnmálasögu landsins í margar aldir. Fyrst bjuggu þar voldugir höfðingjar. Síðan var klaustrið mjög voldugt þar sem það átti gríðarlegar jarðeignir. Eftir að klaustrið var lagt niður tók við tími klausturhaldara, sem voru umsjónarmenn Danakonungs með eignum hans og þar með fulltrúar yfirvaldsins.

Á árunum 1783-1874 var á Möðruvöllum amtmannssetur og varð staðurinn af þeim sökum höfuðstaður Norðurlands í nærri heila öld. Auk þess sem amtmennirnir voru yfirvald yfir öllu Norður- og Austurlandi, þá voru þeir allir merkismenn, sem unnu á sinn sérstæða og persónubundna hátt að framförum og nýjungum í stjórnarháttum á þeim tímum sem Ísland var að vakna til meðvitundar um sjálfstæði.

Árið 1880 var stofnaður gagnfræðaskóli á Möðruvöllum, sem var undanfari Menntaskólans á Akureyri og eru afmæli M.A. miðuð við stofnun Möðruvallaskóla. Á tímum skólans bjuggu á Möðruvöllum margir merkismenn sem unnu mikilvægt brautryðjendastarf í skólamálum og á sviði náttúruvísinda.

Möðruvallaskóli var þó einungis starfræktur í 22 ár því þegar skólahúsið brann árið 1902, var skólinn fluttur til Akureyrar og hét fyrst Gagnfræðaskóli Akureyrar en varð seinna að menntaskóla, þeim fyrsta sem stofnaður var á eftir Menntaskólanum í Reykjavík. Einu sýnilegu minjar skólans sem eftir eru á Möðruvöllum er s.k. Leikhús sem nú hefur verið komið í upprunarlegt horf.

Náttúrufræðisaga

[breyta | breyta frumkóða]
Bjarni Vigfússon Thorarensen var amtmaður fyrir Norður- og Austuramt að Möðruvöllum í Hörgárdal. Bjarni var gott skáld og einn helsti boðberi rómantísku stefnunnar á Íslandi. Málverk af Bjarna frá 1839 eftir Auguste Meyer.

Á tímum Möðruvallaskóla störfuðu þar merkir náttúrufræðingar, m.a. Þorvaldur Thoroddsen sem efnaði þar í fyrstu Íslandslýsinguna, Stefán Stefánsson, sem skrifaði þar fyrstu Flóru Íslands og Ólafur Davíðsson, náttúrufræðingur og þjóðsagnasafnari. Hinn þjóðkunni alfræðingur og náttúrufræðingur, Steindór Steindórsson fæddist á Möðruvöllum 1902 en móðir hans starfaði þar sem ráðskona. Enn í dag er á Möðruvöllum unnið að náttúrufræðirannsóknum á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands en frá 1974 hefur verið rekin þar tilraunastöð í landbúnaði sem áður var til húsa á Akureyri. Upphaflega var tilraunastöðin stofnuð af Ræktunarfélagi Norðurlands árið 1904. Einn af aðalhvatamönnum og stofnendum Ræktunarfélagsins og tilraunastöðvarinnar var Stefán Stefánsson á Möðruvöllum.

Bókmenntasaga

[breyta | breyta frumkóða]

Möðruvellir tengjast bókmenntasögu Íslendinga á einstæðan hátt. Hér hafa bæði búið sum af ástsælustu skáldum þjóðarinnar og önnur tengst staðnum með óbeinum hætti. Fyrstan skal nefna Bjarna Thorarensen amtmann, sem lifir í hugum þjóðarinnar fyrst og fremst fyrir ljóð sín. Hannes Hafstein skáld og ráðherra er fæddur á Möðruvöllum og um svipað leyti sleit þar barnsskónum Jón Sveinsson (Nonni), sem enn dregur að marga Þjóðverja á hverju sumri. Jónas Hallgrímsson ólst upp í nágrenninu og móðir hans var búsett á Möðruvöllum í tíð Bjarna Thorarensens. Jón á Bægisá bjó ekki alls fjarri og auk þess ólst Skáld-Rósa upp í nágrenninu og orti alþekktar ástarvísur, að öllum líkindum til Páls Melsteð amtmannsskrifara á Möðruvöllum.

Bygginga- og brunasaga

[breyta | breyta frumkóða]

Brunasaga Möðruvalla er landsfræg. Vitað er um klausturbyggingu þó ummerki hennar séu nú hvergi sjáanleg, en fræg er sagan af klausturbrunanum 1316 er munkarnir áttu að hafa komið ölvaðir úr Gásakaupstað og farið óvarlega með eld. Davíð Stefánsson frá Fagraskógi gerði sér þetta að yrkisefni í leikritinu Munkarnir á Möðruvöllum. Árið 1712 brunnu til grunna öll hús staðarins nema kirkjan. Amtmannsstofan brann árið 1826 og var þá Baldvin Einarsson nær brunninn inni. Þá var byggt amtmannssetur úr dönskum tígulsteini sem var gjöf Friðriks 6. Danakonungs og var húsið því nefnt Friðriksgáfa en það brann síðan 1874 og lagðist þá amtmannssetur af á Möðruvöllum.

Svona er eldsvoðanum lýst: "Um nóttina milli hins 20. og 21. marz brann Friðriksgáfa, hús amtmannsins á Möðruvöllum, til kaldra kola. Allt fólk var í fasta svefni, og varð eigi vart við, fyr en eldurinn hafði læst sig um allt húsið; komst það þó út óskaddað með mestu naumindum, nema karl einn vitfirrtur, er inni brann. Þar brann húsbúnaður allur og margir fjemætir hlutir, sömuleiðis flest embættisskjöl, er amtinu til heyrðu; járnskápur sá, er peningar og pcningaskjöl amtsins voru geymd í, fannst í rústunum óskemmdur. Jarðskjálfti lítill hafði orðið um nóttina; ætla menn, að við hristinginn hafi skekkzt ofn í skrifstofunni, og glæður, er lifðu í honum, hafi fallið ofan á gólfið, og valdið eldinum." [1]

Af Friðriksgáfu hafa þó varðveist góðar teikningar þannig að vitað er hvernig hún leit út. Árið 1865 brann kirkjan og varð litlu bjargað, nema hvað Arngrímur Gíslason listmálari bjargaði altaristöflunni og mun hann hafa notað hana sem fyrirmynd að altaristöflum í aðrar kirkjur. Skólahúsið á Möðruvöllum, sem byggt var úr brunasteininum úr Friðriksgáfu, brann síðan árið 1902.

Leikhúsið, sem einnig var byggt á tímum Möðruvallaskóla sem leikfimihús og pakkhús, slapp við brunann og hefur nú verið fært í upprunalegt horf. Eftir brunann keypti Stefán Stefánsson skólameistari múrsteininn og notaði í fjósbyggingu sem enn er uppistandandi, svonefnt Stefánsfjós. En ekki er brunasögu staðarins lokið, því 1937 brennur á Nunnuhóli, koti ofarlega í Möðruvallatúni og síðar sama ár brann íbúðarhús staðarins.

Sjálfseignarfélag um Amtmannsetrið á Möðruvöllum

[breyta | breyta frumkóða]

Sjálfseignastofnunin Amtmannssetrið á Möðruvöllum var sett á fót 1. mars 2006. Megin tilgangur stofnunarinnar er að endurreisa merkar byggingar á Möðruvöllum í Hörgárdal og að koma á framfæri sögu staðarins á lifandi hátt með því að skapa aðlaðandi og frjótt umhverfi fyrir skóla, námsfólk og ferðamenn sem áhuga hafa á stjórnmála-, menningar- og kirkjusögu, náttúruvísindum og landbúnaði.

Nokkrar heimildir um sögu Möðruvalla

[breyta | breyta frumkóða]

Aðalsteinn Már Þorsteinsson, Kristján Pétur Guðmundsson og Örvar Erlendsson 1995. Möðruvellir í Hörgárdal. Menning og menntun. Greinargerð fyrir sögunámskeið. Kennaradeild Háskólans á Akureyri. (fjölrit) 19 s.

Ágúst Sigurðsson 1965. Drög að sögu Möðruvallaklausturs. Sérefnisritgerð við guðfræðideild Háskóla Íslands 1965. (fjölrit) 136 s.

Ágúst Sigurðsson 1967. Möðruvallaklausturskirkja. Sunnudagsblað Tímans 6 1111- 1114 1125-1126.

Benedikt Þórðarson 1891. Skapadægur: Stefán Þórarinsson amtmaður. Sögusafn Ísafoldar 4 219-223.

Bjarni E. Guðleifsson 1984. Stefán Þórarinsson amtmaður á Möðruvöllum. Heimaslóð 1 19-41.

Bjarni E. Guðleifsson 1997. Kirkjubruninn á Möðruvöllum 1865. Heimaslóð 13-15 95-104.

Bjarni E. Guðleifsson 1999. Möðruvallakirkja í Hörgárdal. (bæklingur) 8 s.

Bjarni E. Guðleifsson 2000. Fræðslubraut frá Gásum til Möðruvalla. Dagur 25. nóvember 10.

Bjarni E. Guðleifsson 2001. Aldarafmæli Flóru Íslands. Stefán Stefánsson grasafræðingur kennari og skólameistari. Náttúrufræðingurinn 70 119-126.

Bjarni Thorarensen 1940-1943. Endurminningar Bjarna Thorarensen um Grím Jónsson amtmann. Blanda 7 51-58.

Bjarni Thorarensen 1986. Bréf 1.-2 bindi. Jón Helgason bjó til prentunar. Hið íslenska fræðafélag. 315 og 461 s.

Bogi Th. Melsteð 1914. Norðurreið Skagfirðinga 1849. Leiðrétting við Landhagsýrslurnar. Óðinn 9 78-79.

Brynjólfur Sveinsson (ritstj.) 1943. Minningar frá Möðruvöllum. Árni Bjarnason, Akureyri. 290 s.

Davíð Stefánsson 1935. Um Ólaf Davíðsson. Lesbók Morgunblaðsins 27. október. 337-340.

Eggert P. Briem og Þorsteinn Jónsson 1990. Briemsætt. Niðjatal. Sögustenn. 352 s.

Eiríkur Þormóðsson 1966. Möðruvallaklaustur. Ritgerð til fyrra hluta prófs í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands. (fjölrit) 110 s.

Einar Björnsson 1961. Páskadagsnótt á Möðruvöllum 1902. Heima er bezt 11 109- 118, 161.

Eyþór Einarsson 1962. Ólafur Davíðsson. Náttúrufræðingurinn 32 97-101.

Gils Guðmundsson 1985. Söguleg deila um sálmabók. Gestur 2 109-134.

Gísli Brynjólfsson 1824. Minning Stepháns Þórarinssonar. Stutt Ævi- og útfararminning herra Stephans Þórarinssonar Conferanceráds og Riddara af Dannebroge, Amtmanns nordan og austan á Íslandi. Kaupmannahöfn.

Gísli Brynjólfsson 1884. Jörgen Pjetr Havstein. Heimdallur 1 128-132 146-150.

Gísli Brynjólfsson 1949. Stefán Þórarinsson. Merkir Íslendingar. Ævisögur og minningargreinar. III. Þorkell Jóhannesson bjó til prentunar. Bókfellsútgáfan 89-109.

Gísli Gestsson 1957. Minningarþáttur frá Möðruvöllum. Heima er bezt 7 367-368 380-382.

Gísli Helgason 1960. Síðustu dagar Möðruvallskóla og bruninn þar 22. mars 1902. Heima er bezt 10, 188-190, 225-228, 259-261, 263.

Grímur Jónsson 1951. Brot úr ævi Íslendings. Skírnir 44 176-181.

Grímur Thomsen 1948. Bjarni Thorarensen. Sigurjón Jónsson þýddi. Andvari 73 74- 86.

Grímur Thomsen 1983. Þrjú bréf til Gríms Jónssonar amtmanns. Aðalgeir Kristjánsson bjó til prentunar. Andvari 108 65-69.

Hallgrímur Hallgrímsson 1927. Jón A. Hjaltalín skólastjóri á Möðruvöllum. Iðunn nýr flokkur 11 1-17.

Haraldur Haraldsson 1988. Jón Sveinsson (Nonni). Nonni. Brot úr æskusögu Íslendings. 304-326.

Helgi Jónsson og Jón Þorkelsson 1922. Æviágrip Þorvaldar Thoroddsen. Skírnir 15 1-18.

Helgi Pjeturss 1904. Bjarni Thorarensen og Stephan G. Stephansson. Eimreiðin 10 32-34.

Helgi Pjeturss 1912. Bjarni og Jónas. Óðinn 7 53-55.

Hólmgeir Þorsteinsson 1967. Langlífur lítilmagni. Heima er bezt 17 200-205, 213.

Hulda Á Stefánsdóttir 1985. Minningar Huldu Á. Stefánsdóttur. I. Bernska. Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf. 218 s.

Indriði Einarsson 1921. Norðurreiðin 1849 og síðar. Andvari 46 14-39.

Ingibjörg Jónsdóttir 1946. Húsfreyjan á Bessastöðum. Bréf Ingibjargar Jónsdóttur til bróður síns Gríms amtmanns. Finnur Sigmundsson bjó til prentunar. Hlaðbúð. 246 s.

Ingvar Gíslason 1962. Möðruvellir í Hörgárdal, Klaustur – Amtmanssetur – Skóli – Vígslubiskupssetur. Sunnudagsblað Tímans 4. mars 1962 36-41.

Jakob F. Ásgeirsson 2003. Valtýr Stefánsson. Almenna Bókafélagið 589 s.

Jónas Guðlaugsson 1967. Möðruvallaklaustur. Sunnudagsblað Tímans 6 676-680, 687, 692-693.

Jón Helgason (ritstj.) 1984. Næturævintýri á Möðruvöllum. Íslenskt mannlíf 4 135- 155.

Jón Sveinsson (Nonni) 1948. Á Skipalóni. Ritsafn 1. 200 s.

Jón Sveinsson (Nonni) 1949. Sólskinsdagar. Ritsafn 3. 221 s.

Jón Sveinsson (Nonni) 1988. Brot úr æskusögu Íslendings. Eigin frásögn. Fjórða útgáfa. Almenna Bókafélagið. 328 s.

Jón Sveinsson 1964. Lýsing sr. Jóns Sveinssonar á Bjarna amtmanni Thorarensen. Heimdragi 1 18-20.

Jón Þórarinsson 1923. Foreldrar Hannesar Hafstein. Óðinn 19 12-14.

Jórunn Jónsdóttir 1988. Stúlka í Möðruvallaskóla. Gestur 5 72-79.

Kristján Albertsson 1961. Hannes Hafstein. Ævisaga 1. Almenna Bókafélagið. 360 s.

Kristmundur Bjarnason 1965. Kaflar úr ævisögu Gríms Jónssonar amtmanns. Andvari 90 54-68.

Kristmundur Bjarnason 1984. Svipmyndir úr lífi Gríms amtmanns Jónssonar fram um 1830. Heimaslóð 3 6-37.

Lýður Björnsson 1995. Spunastofa Stefáns amtmanns. Súlur 22 99-126.

Matthías Jóhannessen 1962. Með Valtý Stefánssyni á Möðruvöllum. Með Valtý Stefánssyni. Bókfellsútgáfan. 11-61.

Ólafur Davíðsson 1902. Möðruvallaskóli brunninn. Norðurland 1 105-106.

Ólafur Oddsson 1973. Norðurreið Skagfirðinga vorið 1849. Saga 11 5-73.

Ólafur Ólafsson 1946. Kristnir Leiðtogar. I. Síra Jón lærði í Möðrufelli. Frækorn I. Smáritaútgáfan. 9-52.

Óskar Guðmundsson 1997. Eldur í Eyjafirði – fyrsta fréttamyndin. Súlur 24 78-88.

Páll Eggert Ólason 1922. Þorvaldur Thoroddsen. Andvari 47 5-43.

Sigurður Guðmundsson 1946. Líðan og ljóðagerð Bjarna Thorarensen á Möðruvöllum. Samtíð og saga 3 59-137.

Sigurður Guðmundsson 1959. Norðlenski skólinn. Menningarsjóður. 523-533.

Sigurður Nordal 1944. Svipir. Bjarni Thorarensen. Áfangar 2 162-173.

Sigurður Skúlason 1935. Um Bjarna Thorarensen. Samtíðin 2 12-17.

Sigurður Stefánsson 1902. Norðlenskir skólar. Norðurland 15. 22. og 29. mars.

Sigurður Stefánsson 1957. Möðruvallakirkja í Hörgárdal 90 ára. Heima er bezt 7 388-390, 406.

Stefán Stefánsson 1902. Norðlenskir skólar. Norðurland 1 97, 101, 106, 115.

Steindór Steindórsson 1945. Ólafur Davíðsson. Æviágrip. Íslenskar Þjóðsögur 4 529-541.

Steindór Steindórsson 1955. Möðruvellir í Hörgárdal. Jólablað Alþýðublaðsins 1955. 2 4 og 9.

Steindór Steindórsson 1961. Á Möðruvöllum. Jólablað Alþýðumannsins 10-11.

Steindór Steindórsson 1963. Stefán Stefánsson skólameistari – aldarminning. Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands 60 1-128.

Steindór Steindórsson 1967. Ólafur Davíðsson. Merkir Íslendingar 6 131-155.

Steindór Steindórsson 1981. Íslenskir náttúrufræðingar. Menningarsjóður. 330 s.

Steingrímur J. Þorsteinsson 1969. Bjarni Thorarensen. Embættismaður og skáld. Afmælisrit Jóns Helgasonar 30. júní 1969. 170-189.

Sveinn Bergsveinsson 1973. Bjarni Thorarensen – vinur ríkisins. Skírnir 147 102- 110. Sveinn Þórarinsson 1846-1869. Dagbækur.

Torfi K. Hjaltalín Stefánsson 2001. Eldur á Möðruvöllum, saga Möðruvalla í Hörgárdal frá öndverðu til okkar tíma. 1-2 bindi. Flateyjarútgáfan. 925 s.

Tryggvi Gíslason 1981. Möðruvallaskólinn 1880-1902. Í: Saga Menntaskólans á Akureyri 1880-1980 (ritstj. Gísli Jónsson). I. bindi 1-142.

Valtýr Stefánsson 1932. Frá Möðruvöllum í Hörgárdal. Endurminningar og sögubrot frá “brunabælinu”. Lesbók Morgunblaðsins 7 397-402.

Þorsteinn Gíslason 1932. Bjarni Thorarensen. Fyrirlestur. Lögrétta 27 47-59.

Þorsteinn Þorsteinsson 1953. Smásögur um Bjarna Thorarensen. Sagnaþættir Fjallkonunnar 163-165.

Þórhallur Höskuldsson 1984. Merkisatburðir í sögu Möðruvallakirkju. Tíðindi presatélags hins forna Hólastiftis 5 115-118.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Fréttir frá Íslandi, 1. tölublað (01.01.1874), Blaðsíða 45