Lyfjaþol

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Lyfjaþol vísar til þess þegar áhrifamáttur lyfs fer minnkandi vegna endurtekinnar notkunar. Þetta þol verður til vegna þess að líkaminn reynir ávallt að halda stöðugu ástandi. Lyf raska þessu jafnvægi og því fer líkaminn að berjast á móti lyfinu með svokallaðri uppbótarsvörun. Uppbótarsvörun (e. Compensatory response) er viðbragð sem er andstætt áhrifum lyfsins. Þegar lyfjaþol myndast þarf að auka skammt lyfsins til þess að mæta þessari uppbótarsvörun og ná fram sömu áhrifum og upprunalega.[1]

Fráhvarfseinkenni geta komið fram eftir að lyfjaþol hefur myndast og inntöku lyfja er hætt. Þau lýsa sér yfirleitt sem sterk áhrif andstæð áhrifum lyfsins. Fráhvörf verða vegna þess að uppbótarsvörun líkamans kemur fram án þess að lyfið sé tekið inn. Þegar lyfið er ekki til staðar til þess að mæta þessari svörun þá koma fráhvarfseinkennin fram. Uppbótarsvörun getur því ýtt undir notkun lyfja þar sem neytendur reyna að losna undan fráhvarfseinkennum. Við þetta getur myndast vítahringur þar sem einstaklingur hættir neyslu lyfs, fær fráhvarfseinkenni og finnur þá þörf fyrir að draga úr einkennunum með hjálp lyfsins. Þetta getur leitt til lyfjaávana.[1]

  1. 1,0 1,1 Psychology: The science of mind and behaviour.