Luc Besson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Luc Besson árið 2016.

Luc Besson er franskur kvikmyndaleikstjóri, kvikmyndaframleiðandi og handritshöfundur, fæddur 18. mars 1959 í 15. hverfi Parísar.

Hann kom fyrst fram á 9. áratugnum með myndunum Síðasta orrustan (Le Dernier Combat) 1983 og Subway 1985. Hann náði fyrst almennum vinsældum með kvikmyndinni Hafið bláa hafið 1988. Hann naut samt lítilla vinsælda meðal gagnrýnenda þar sem hann þótti setja sjónræna fagurfræði ofar söguþræði mynda sinna. Hann var meðal þeirra leikstjóra sem voru kenndir við stefnuna cinéma du look á 9. áratugnum. Hann fylgdi vinsældum Hafið bláa hafið eftir með myndunum Nikita 1990, Léon 1994, Fimmta frumefnið 1997 og Jóhanna af Örk 1999.

Hann stofnaði framleiðslufyrirtækið EuropaCorp árið 2000 til að reyna að keppa við bandarískar kvikmyndir á alþjóðamarkaði með franskri kvikmyndaframleiðslu mynda á ensku með alþjóðlegu leikaravali. Fyrirtækið framleiddi nokkrar vinsælar kvikmyndaraðir, sem oft byggðust á hans hugmyndum, eins og Taxi, Taken og Sendillinn. Myndirnar nutu alþjóðlegra vinsælda og gengu vel í kvikmyndahúsum. Hann kom sér upp eigin kvikmyndaveri, Cité du cinéma, og stofnaði kvikmyndaskóla sem býður upp á ókeypis menntun fyrir ungt fólk í handritsgerð og leikstjórn.

Eftir nokkrar tilraunir náði hann aftur alþjóðlegum vinsældum með kvikmyndinni Lucy árið 2014 sem varð vinsælasta franska kvikmynd sögunnar á alþjóðavettvangi. Eftir það réðist hann í gerð stórmyndarinnar Valerian and the City of a Thousand Planets sem náði ekki þeim vinsældum sem vonast var til. Eftir næstu mynd, Anna, árið 2019, lenti EuropaCorp í fjárhagsvandræðum.

Hann hefur hlotið César-verðlaunin fyrir bestu leikstjórn fyrir Fimmta frumefnið 1998 og á 40. afmælishátíð verðlaunanna hlaut hann heiðursverðlaun fyrir framlag sitt til franskrar kvikmyndagerðar.[1].

Árið 2018 sakaði hollenska leikkonan Sand Van Roy Besson um nauðgun.[2] Fleiri konur hafa sett fram ásakanir á hendur honum, en kosið að koma ekki fram undir nafni.[3] Hann hefur hafnað öllum ásökunum af þessum toga. Árin 2019 og 2021 voru mál gegn honum felld niður vegna skorts á sönnunargögnum.[4][5]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Sarah Louaguef fyrir AFP, « Luc Besson honoré par les César » sur Paris Match, 20. janúar 2015
  2. Bredoux, Lénaïg; Turchi, Marine; Le Guilcher, Geoffrey (9. júlí 2018). „Violences sexuelles: plusieurs femmes accusent Luc Besson“. Mediapart (franska). Sótt 6. ágúst 2018.
  3. „Luc Besson: French film director accused of rape“. BBC News. 19. maí 2018.
  4. Wiseman, Andreas (25. febrúar 2019). „French Prosecutors Drop Rape Case Against Luc Besson, Cite Lack of Evidence – Update“. Deadline Hollywood. Sótt 26. maí 2021.
  5. Roxborough, Scott (9. desember 2021). „French Judge Dismisses Rape Allegations Against Luc Besson Following Investigation“. The Hollywood Reporter. Sótt 9. desember 2021.