Fara í innihald

Lokinhamrar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lokinhamradalur.

Lokinhamrar er eyðijörð í Lokinhamradal yst í norðanverðum Arnarfirði. Beggja vegna dalsins eru há fjöll og sæbrattar hlíðar.

Vegur kom ekki til Lokinhamra fyrr en árið 1974 og sveitasími var þar í notkun allt til ársins 1989. Áður en vegurinn Kjaransbraut kom frá Dýrafirði voru forvaðar beggja vegna dalsins á leið í kaupstað og varð á vetrum að sæta sjávarföllum til að komast til Stapadals sem er næsti bær innar í Arnarfirði. Um langt skeið voru eingöngu tveir bæir í Lokinhamradal í byggð en það voru Lokinhamrar og Hrafnabjörg.

Guðmundur G. Hagalín fæddist og ólst upp á Lokinhömrum og er umhverfi Lokinhamra sögusvið í mörgum ritum hans. Heimildarmyndin Síðasti bóndinn í dalnum frá 2001 fjallar um síðasta ábúanda að Lokinhömrum Sigurjón Jónasson sem brá búi árið 1999 og er honum fylgt eftir um tveggja ára skeið.

Kvikmyndin Á ferð með mömmu (2022) var tekin upp að hluta til við Lokinhamra. Í myndinni er sagt frá bónda sem býr við bæinn árið 1975.