Klement Gottwald

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Klement Gottwald
Klement Gottwald árið 1948.
Forseti Tékkóslóvakíu
Í embætti
14. júní 1948 – 14. mars 1953
ForsætisráðherraAntonín Zápotocký
ForveriEdvard Beneš
EftirmaðurAntonín Zápotocký
Forsætisráðherra Tékkóslóvakíu
Í embætti
2. júlí 1946 – 15. júní 1948
ForsetiEdvard Beneš
ForveriZdenek Fierlinger
EftirmaðurAntonín Zápotocký
Persónulegar upplýsingar
Fæddur23. nóvember 1896
Vyškov, Austurríki-Ungverjalandi (nú Tékklandi)
Látinn14. mars 1953 (56 ára) Prag, Tékkóslóvakíu (nú Tékklandi)
StjórnmálaflokkurKommúnistaflokkur Tékkóslóvakíu
MakiMarta Gottwaldová
StarfSkápasmiður, blaðamaður, stjórnmálamaður
Undirskrift

Klement Gottwald (fæddur þann 23. nóvember 1896 í Dědice (Vyškov) í Suður-Mæri í Austurríki-Ungverjalandi, nú Tékklandi, og lést þann 14. mars 1953) var tékkneskur stjórnmálamaður og kommúnisti sem var leiðtogi Kommúnistaflokks Tékkóslóvakíu (KSČ), og forsætisráðherra og forseti Tékkóslóvakíu.

Gottwald vann fyrir sér sem húsgagnasmiður í byrjun. Þegar KSČ var stofnaður árið 1921 var hann einn af stofnfélögunum. 1921-1926 ritstýrði hann blaði og starfaði fyrir flokkinn í Slóvakíu. Hann var í miðnefnd KSČ frá 1925 og 1926-1929 var hann formaður Áróðurs- og stjórnmálamiðnefndar miðnefndar KSČ, þingmaður flokksins 1929-1948 og aðalritari flokksins frá 1929-1945. 1935-1943 var hann ritari hjá Komintern og á stríðsárunum, 1939-1945, var hann í Moskvu og var einn af nokkrum leiðtogum sem þaðan stýrðu andspyrnuhreyfingu tékkneskra kommúnista gegn nasistum. Frá 1945-1953 var Gottwald formaður KSČ. Frá 1945-1946 var hann varaforsætisráðherra og frá 1946-1948 forsætisráðherra í ríkisstjórn Tékkóslóvakíu. Frá 1948-1953 var hann forseti landsins.

Í mars 1945 samþykkti Edvard Beneš, kjörinn forseti Tékkóslóvakíu, sem hafði verið leiðtogi útlagastjórnar Tékka í London frá 1941, að mynda þjóðstjórn með Gottwald og KSČ. Gottwald var þá varaforsætisráðherra, en eftir fyrstu kosningar í landinu eftir stríðið, árið eftir, varð hann forsætisráðherra. Þann 9. maí 1948 frömdu kommúnistar valdarán og létu þingið samþykkja nýja stjórnarskrá. Beneš forseti neitaði að undirrita nýju lögin og sagði af sér þann 2. júní (og dó þrem mánuðum seinna). Þann 14. júní kaus þjóðþingið Klement Gottwald sem nýjan forseta Tékkóslóvakíu.

Gottwald var trúr fylgismaður Stalíns. Hann þjóðnýtti iðnað landsins og samyrkjuvæddi landbúnaðinn. Vaxandi áhrif Rússa í landinu mættu töluverðri mótspyrnu, og Gottwald framdi því nokkrar hreinsanir. Fyrst hreinsaði hann flesta þá úr valdastöðum, sem ekki voru kommúnistar, og síðan nokkurn fjölda kommúnista líka. Í hópi málsmetandi kommúnista sem voru ákærðir í Pragréttarhöldunum voru aðalritari flokksins Rudolf Slánský, utanríkisráðherrann Vladimir Clementis og Gustáv Husák fylkisstjóri í Slóvakíu. Þeir voru allir reknir og gefið að sök að aðhyllast borgaralega þjóðernisstefnu. Clementis var tekinn af lífi í desember 1952 og hundruð annarra fyrrverandi embættismanna voru fangelsaðir. Husák fékk uppreist æru á sjöunda áratugnum og varð forseti Tékkóslóvakíu 1975.

Gottwald andaðist 1953, aðeins níu dögum eftir að hann kom heim úr útför Stalíns. Því hefur verið haldið fram, meðal annars af Enver Hoxha þáverandi forseta Albaníu, að hann hafi verið myrtur með eitri. Arftaki Gottwalds var Antonín Zápotocký, sem hafði verið forsætisráðherra frá 1948-1953.

Borgin Zlín í Mæri, þá í Tékkóslóvakíu en nú í lýðveldinu Tékklandi, hét Gottwaldov, í höfuðið á honum, frá 1949-1990.


Fyrirrennari:
Edvard Beneš
Forseti Tékkóslóvakíu
(1948 – 1953)
Eftirmaður:
Antonín Zápotocký
Fyrirrennari:
Zdeněk Fierlinger
Forsætisráðherra Tékkóslóvakíu
(1946 – 1948)
Eftirmaður:
Antonín Zápotocký