Justin Trudeau

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Justin Trudeau
Forsætisráðherra Kanada
Núverandi
Tók við embætti
4. nóvember 2015
ÞjóðhöfðingiElísabet 2.
Karl 3.
LandstjóriDavid Johnston
Julie Payette
Mary Simon
ForveriStephen Harper
Persónulegar upplýsingar
Fæddur25. desember 1971 (1971-12-25) (52 ára)
Ottawa, Kanada
ÞjóðerniKanadískur
StjórnmálaflokkurFrjálslyndi flokkurinn
MakiSophie Grégoire (g. 2005; sk. 2023)
Börn3
ForeldrarPierre Trudeau og Margaret Sinclair
BústaðurRideau Cottage, Ottawa, Ontario, Kanada
HáskóliMcGill-háskóli
Háskólinn í bresku Kólumbíu
Háskólinn í Montréal
StarfKennari, stjórnmálamaður
Undirskrift
Justin Trudeau á Vancouver LGBTQ Pride árið 2015.

Justin Trudeau (f. 25. desember 1971) er núverandi forsætisráðherra Kanada. Hann er meðlimur Frjálslynda flokksins í Kanada og er elsti sonur fyrrum forsætisráðherra Kanada, Pierre Trudeau.

Skoðanir[breyta | breyta frumkóða]

Meðal áherslumála Trudeau eru bætt samskipti við Sameinuðu þjóðirnar. Hann fagnar kjarnorkusamningi stórvelda við Íran og íhugar að taka upp stjórnmálasamband við landið. Trudeau hefur tilkynnt að Kanadamenn ætli að hætta þátttöku í lofthernaðinum gegn Íslamska ríkinu í Írak og Sýrlandi og hefur boðað að allt að 25.000 sýrlenskum flóttamönnum verði veitt hæli í Kanada árið 2015. [1]

Baráttan gegn loftslagsbreytingum er áherslumál Trudeau.

Trudeau vill að konur hafi frjálst val um fóstureyðingu og afglæpavæða kannabis. Ríkisstjórn Trudeau fékk því framgengt árið 2018 að neysla kannabisefna var gerð lögleg.[2] Hann vill auka réttindi innfæddra í Kanada og koma af stað rannsókn á fjölgun morða innfæddra kvenna.[3] Hann skilgreinir sig sem feminista.[4]

Forsætisráðherra Kanada (2015–)[breyta | breyta frumkóða]

Vinsældir Trudeau báðu hnekki í Kanada í kjölfar hins svokallaða SNC-Laval­in-hneykslismáls árið 2019. Trudeau var sakaður um að hafa beitt Jody Wil­son-Ray­bould, þáverandi dóms­málaráðherra og rík­is­sak­sókn­ara landsins, óeðlilegum þrýstingi til að fá hana til að fella niður ákæru gegn verktakafyrirtækinu SNC-Lavalin, sem sakað var um að greiða mútufé til yfirvalda Líbíu á stjórnartíð einræðisherrans Muammar Gaddafi. Í ágúst 2019 úrskurðaði siðanefnd að Trudeau hefði brotið siðareglur með afskiptum sínum af málinu. Trudeau sagðist sætta sig við niðurstöðuna þótt hann væri henni ekki sammála og viðurkenndi að hann og ráðgjafar hans hefðu haft áhyggjur af mögulegum afleiðingum sem dómur gegn SNC-Lavalin gæti haft fyrir efnahag Kanada.[5][6][7]

Í þingkosningum sem fóru fram 21. október 2019 tapaði Frjálslyndi flokkurinn þingmeirihluta sínum en var þó áfram stærsti flokkurinn á kanadíska þinginu. Trudeau varð áfram forsætisráðherra eftir kosningarnar en leiddi minnihlutastjórn á öðru kjörtímabili sínu.[8]

Trudeau lét rjúfa þing á undan áætlun í ágúst 2021 og boðaði til nýrra kosninga mánuðinn eftir. Hann réttlætti ákvörðun sína með því móti að þjóðin yrði að geta sagt hug sinn um það hvernig ljúka skyldi baráttunni gegn kórónaveirufaraldrinum. Andstæðingar Trudeau sökuðu hann um tækifærismennsku fyrir að boða til nýrra kosninga á tíma heimsfaraldurs.[9] Í kosningunum, sem voru haldnar 20. september 2021, mistókst Frjálslynda flokknum að endurheimta meirihluta á þingi en flokkurinn hlaut aftur flest þingsæti og Trudeau hefur því áfram farið fyrir minnihlutastjórn eftir kosningarnar.[10]

Í febrúar 2022 virkjaði Trudeau neyðarlög til þess að bregðast við mótmælum vörubílstjóra og fleiri gegn bólusetningaskyldu og sóttvarnareglum í Kanada.[11] Neyðarheimildirnar sem fylgja lögunum ganga meðal annars út á að frysta bankainnistæður þeirra sem tengjast mótmælunum án dómsúrskurðar og gera farartæki þeirra upptæk. Lögin voru virkjuð í kjölfar langra mótmæla í höfuðborginni Ottawa og vikulangrar tálmunar mótmælenda á Ambassador-brúnni í Windsor við bandarísku landamærin sem höfðu komið í veg fyrir vöruflutning milli Kanada og Bandaríkjanna.[12]

Störf og einkalíf[breyta | breyta frumkóða]

Trudeau hefur starfað sem kennari, leikari, þjálfari og verkfræðingur. Hann er með húðflúr af hrafni á vinstri handlegg sem er innblásið af menningu frumbyggja á Haida Gwaii-eyjum.

Trudeau var kvæntur Sophie Grégoire og saman eiga þau þrjú börn. Þau skildu árið 2023 eftir átján ára hjónaband.[13]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Kristján Róbert Kristjánsson (9. nóvember 2015). „Breyttar áherslur í Ottawa“. RÚV. Sótt 17. október 2018.
  2. Þórgnýr Einar Albertsson (16. október 2018). „Kannabis löglegt í Kanada á morgun“. Fréttablaðið. Sótt 17. október 2018.
  3. Samúel Karl Ólason (21. október 2015). „Hver er Justin Trudeau?“. Vísir. Sótt 17. október 2018.
  4. Justin Trudeau [@JustinTrudeau] (21. september 2015). I am a feminist. I'm proud to be a feminist. (Tweet) (enska). Sótt 11. júlí 2021 – gegnum Twitter.
  5. Pálmi Jónasson (25. ágúst 2019). „Spillingarmál skaðar ímynd Trudeau“. RÚV. Sótt 1. september 2019.
  6. „Trudeau braut siðaregl­ur“. mbl.is. 15. ágúst 2019. Sótt 1. september 2019.
  7. Arn­ar Þór Ing­ólfs­son (7. mars 2019). „Trudeau viður­kenn­ir að hafa gert mis­tök“. mbl.is. Sótt 1. september 2019.
  8. Ævar Örn Jósepsson (22. október 2019). „Trudeau tapar fylgi en sigrar þó“. RÚV. Sótt 22. október 2019.
  9. Kjartan Kjartansson (16. ágúst 2021). „Trudeau boðar til kosninga á undan áætlun“. Vísir. Sótt 22. ágúst 2021.
  10. Markús Þ. Þórhallsson (21. september 2021). „Frjálslyndi flokkur Trudeaus hafði betur í Kanada“. RÚV. Sótt 21. september 2021.
  11. Markús Þ. Þórhallsson (15. febrúar 2022). „Kanadastjórn grípur til neyðarúrræða vegna mótmæla“. RÚV. Sótt 15. febrúar 2022.
  12. Atli Ísleifsson (15. febrúar 2022). „Munu geta fryst banka­reikninga mót­mælenda“. Vísir. Sótt 15. febrúar 2022.
  13. Máni Snær Þorláksson (2. ágúst 2023). „Trudeau-hjónin skilja“. Vísir. Sótt 3. ágúst 2023.


Fyrirrennari:
Stephen Harper
Forsætisráðherra Kanada
(4. nóvember 2015 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti


  Þetta æviágrip sem tengist stjórnmálum er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.