J. J. A. Worsaae

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
J. J. A. Worsaae

J. J. A. Worsaae – (eða Jens Jacob Asmussen Worsaae) – (14. mars 182115. ágúst 1885), danskur fornleifafræðingur, sagnfræðingur og safnamaður. Einn af fremstu fornleifafræðingum Dana.

Æviágrip (brot)[breyta | breyta frumkóða]

Hann fæddist í Vejle á Jótlandi, og fékk strax á ungaaldri áhuga á sögu og fornleifafræði.

Worsaae vann mikinn vísindalegan sigur þegar hann, 23 ára, gekk á hólm við Finn Magnússon, einn þekktasta fornfræðing eldri kynslóðarinnar, og sýndi fram á að túlkun hans á „rúnum“, sem kenndar voru við Rúnamó í Blekinge í Svíþjóð, ætti ekki við rök að styðjast. „Risturnar“ í Rúnamó höfðu oft verið rannsakaðar, án árangurs. Loks hafði Finni Magnússyni tekist að lesa úr þeim vísu undir fornyrðislagi, og byggði hann verk sitt á teikningu sem jarðfræðingurinn Johan Georg Forchhammer hafði gert. Um þetta birti Finnur mikið rit: Runamo og runerne (1841), sem fjallar reyndar um margt fleira en Rúnamó.

Worsaae fór nokkrar rannsóknarferðir á staðinn og lét gera nákvæmar teikningar af ristunum, sem voru gjörólíkar teikningunum sem Finnur hafði farið eftir. Þar með var ljóst að forsendan fyrir túlkun Finns var brostin, og risturnar augljós náttúrusmíð. Worsaae birti þessar niðurstöður í ritinu Runamo og Braavalleslaget (1844), sem er mjög læsilegt. Þrátt fyrir hina hörðu fræðilegu gagnrýni, tókst Worsaae að setja efnið fram með fullri virðingu fyrir hinum velmetnu fræðimönnum sem hann réðist á, auk þess sem efnið var svo vel fram sett að hann vann flesta strax á sitt band.

Árið 2006 kom út aðgengilegt rit um þetta efni eftir Rud Kjems: Runamo. Skriften der kom og gik.

Hinn 22. desember 1847, þegar Worsaae var aðeins 26 ára, var honum falin umsjón með þjóðminjavörslunni í Danmörku. Þetta var ný staða við hliðina á Christian Jürgensen Thomsen, sem var forstöðumaður Oldnordisk Museum. Worsaae var einnig skipaður í Fornminjanefndina, sem var reyndar lögð niður 1849, og eftir það höfðu þeir Thomsen og Worsaae umsjón með öllum fornminjum í Danmörku.

Worsaae ritaði fjölda bóka og greina um fræði sín. Meðal þeirra má nefna:

  • Minder om de Danske og Nordmændene i England, Skotland og Irland (1851)
  • Den danske Erobring af England og Normandiet (1863)

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Danska Wikipedian, 30. desember 2007.
  • J.J.A. Worsaae, Af en Oldgranskers Breve. 1848-1885, útgefandi Victor Hermansen, København 1938
  • J.J.A. Worsaae, Breve. 1840-1885, útgefandi Ad. Clement, København 1930
  • J.J.A. Worsaae, En Oldgranskers Erindringer 1821-1847, útgefandi Victor Hermansen, København 1934
  • Petersen, Carl S., Stenalder – Bronzealder – Jernalder: Bidrag til nordisk Arkæologis Litterærhistorie 1776-1865 (1938)