Fara í innihald

Jónas Jónasson (frá Hrafnagili)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Séra Jónas Jónasson frá Hrafnagili (7. ágúst 18564. ágúst 1918) var prestur og kennari en er þekktastur fyrir bókina Íslenskir þjóðhættir sem hann tók saman og út kom að honum látnum árið 1934.

Foreldrar Jónasar

[breyta | breyta frumkóða]

Jónas fæddist að Úlfá í Hólasókn í Eyjafirði. Foreldrar hans voru Jónas bóndi Jónsson og kona hans Guðríður Jónasdóttir Guðmundssonar frá Halldórsstöðum í Eyjafirði. Jónas faðir séra Jónasar var greindur maður, lagtækur og bókhneigður. Hann lagði fyrir sig lækningar og heppnaðist vel og voru lækningar aðalstarf hans seinni hlut ævinnar. Hann drukknaði í Djúpadalsá í Eyjafirði á heimleið úr lækningaferð, einn á ferð í kvöldmyrkri. Faðir Jónasar var fróðleiksmaður og hafði góðan bókakost eftir því sem þá var títt. Jónas hagnýtti sér hann og fór snemma mikið orð af námfýsi hans og gáfum og þótti sýnt að hann mundi betur fallinn til lærdóms en bændavinnu.

Þegar Jónas var 16 ára fluttu foreldrar hans vorið 1872 vestur að Tunguhálsi í Skagafirði. Séra Hjörleifur Einarsson var þá prestur í Goðdölum. Hann vildi fá lækni í nánd við sig, og fékk því Jónas lækni til að flytja í sveit sína. Mun það ekki síst hafa dregið Jónas lækni til að fyltja, að þannig væri auðveldara að veita Jónasi unga að læra skólalærdóm, enda reyndist það svo. Séra Hjörleifur tók Jónas og bjó hann undir inntökupróf í latínuskólann ásamt Einari syni sínum. Fékk hann þar ágætan undirbúning undir skólanámið, því að síra Hjörleifur var latínumaður hinn besti — og þá var latínan enn þung á metunum í skólanum. Einar og Jónas innrituðust í skólann vorið 1875. Settist Jónas þá í 2. bekk. Skólanámið gekk honum hið besta og las hann þó mestu kynstur auk þess sem heimtað var, og ritaði allmikið. Var hann orðinn óvenjulega fjölfróður þegar hann fór úr skóla, gat hann þó ekki unnið með fullum kröftum því að vanheilsa sú er fylgdi honum jafnan síðan sótti hann þegar í skóla.

Prestur og kennari

[breyta | breyta frumkóða]

Veturinn eftir að hann útskrifaðist var hann heimiliskennari hjá Eggert Briem, sýslumanni á Reynistað. Haustið 1881 gekk hann í prestaskólann og útskrifaðist þaðan eftir tvö ár mjög vel að sér í þeim fræðum sem þar voru kennd og með góðum vitnisburði. Sama haustið sem hann útskrifaðist var honum veitt Stóruvallaprestakall í Rangárvallasýslu og flutti þá þangað. Vorið 1884 kvæntist hann ekkju, Þórunni Stefánsdóttur. Um haustið 1884 voru honum veitt Grundarþing í Eyjafirði, og flutti hann þangað vorið eftir. Þjónaði hann því brauði í 25 ár eða frá 1885 til 1910. Prófastur var hann í Eyjafjarðar-prófastsdæmi 18971908.

Árið 1905 varð hann tímakennari við gagnfræðaskólann á Akureyri og var kennari þar við skólann tólf ár, fjögur fyrstu árin sem tímakennari en 8 síðari árin sem fastur kennari. Vorið 1917 kvaddi hann skólann við skólauppsögn en hann treysti sér þá ekki til að halda lengur kennaraembætti fyrir vanheilsu sakir. Jafnframt kennarastarfinu þjónaði hann Grundarþingum þangað til hann fékk fasta veitingu fyrir kennaraembættinu við gagnfræðaskólann 1910. Haustið 1917 fluttu þau hjón að Útskálum til séra Friðriks sonar síns. Dvöldu þau þar frameftir vetrinum og lá séra Jónas rúmfastur mestan tímann. Síðari hluta vetrar fluttu þau hjónin til Reykjavíkur, ef vera mætti að hann gæti fengið þar lækningu. Virtist um tíma að svo mundi verða en brátt sótti aftur í sama farið og elnaði sóttina því meir sem lengur leið þar til hann andaðist á heimili mágs síns, Guðmundar Stefánssonar, þar sem þau hjónin höfðu dvalið.

  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.