Jón Austfirðingur og nokkur smákvæði
Jón Austfirðingur og nokkur smákvæði er ljóðabók eftir vesturíslenska skáldið Guttorm J. Guttormsson. Bókin kom fyrst út í Winnipeg 1909. Í bókinni er sagnaljóð og hörmungasaga um íslenskan landnema, Jón Austfirðing sem tekur sig upp frá góðu búi i Fljótsdal fyrir fortölur skrumara og skjallara sem hvetur hann til vesturfarar og til að hefja landnám á vesturströnd Winnipegvatns í Nýja Íslandi. Jón fer í hópi sem kemur allslaus og illa undirbúinn þangað að hausti til. Landnemunum tekst að koma yfir sig vetrarskjóli en þá gengur yfir bólusótt. Jón er kvæntur, á þrjá sonu og eina dóttur barna. Drengirnir deyja allir úr drepsóttinni. Næst flæðir yfir vatnið og hey Jóns og hinna landnemanna verða ónýt en Jón lætur ekki hugfallast. Síðar gengur skógareldur yfir nýlenduna og allt sem hann átti brann. Guðrún dóttir Jóns trúlofast enskum manni ungum og fjörugum sem hún elskar en hann er drykkfeldur og kenndur við aðra óreglu, hún vinnur fyrir þeim báðum en hann sóar og svallar þeim út i drykkjuslarki og fjárglæfraspilum og svo strýkur þessi náungi frá henni en hún deyr og á þá lítinn dreng. Jón Austfirðingur fer og sækir drenginn og tekur hann í fóstur og hefur nú komið sér upp góðu húsi í stað þess sem brann.
Fyrstu þrjú erindin í kaflanum Heima eru þessi:
- Jón bóndi var garplegur, gildur og knár,
- svo gerður af einbeittum vilja,
- á svip var hann norrænn og bjartur um brár,
- á brúnina dökkur og jarpur á hár,
- þrjár álnir frá hvirfli til ilja.
- Hann aðhylltist fólkið, sem ungt var og hraust
- en aumingjann taldi sinn bróður.
- Og sannfæring hans var sem sungin við raust.
- Hann sagði ekki neitt, sem var þýðingarlaust,
- var hugsandi oftast og hljóður.
- Í Fljótsdal á jörðinni bestu hann bjó.
- Þar blöstu við augum hans fjöllin
- í skósíðum grænkyrtlum skautfölduð snjó,
- skjólinu friður var kóngurinn, ró
- var drottningin, dalurinn höllin.
- Í kaflanum Nýja heimilið er lýst heimili landnemans. Þar eru þessi erindi:
- Þar ekkert gull var innanstokks
- og enginn sparikjóll,
- en alt frá prjónum upp til rokks
- - og eldavél og stóll.
- Þar yfir flet var brekán breitt,
- og borð við gluggann stóð,
- og hreint og frítt var alt og eitt
- á alíslenzkan móð.
- Mót þjóðasiðum þessa lands
- hann þæfði hvern sinn sokk.
- Hún kunni að prjóna konan hans
- og kemba' og spinna' á rokk. —
- Svo fór hann oft á fótaþóf
- og forna rímu kvað,
- og fróðleiks tal um tóskap hóf
- við tækifæri það.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Jón Austfirðingur og nokkur kvæði, eftir Guttorm J. Guttormsson, Lögberg, 1909
- Jón Austfirðingur (Bragi.info)[óvirkur tengill]