Hvíti túnfiskur
Hvíti túnfiskur | ||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Ástand stofns | ||||||||||||||
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||||
| ||||||||||||||
Tvínefni | ||||||||||||||
Thunnus alalunga (Bonnaterre, 1788) |
Hvíti túnfiskur (fræðiheiti: Thunnus alalunga) er einn af minni tegundum túnfiska, hraðskeyttur og sífellt á hreyfingu, hann líkist randa- og guluggatúnfiskum að mörgu leyti en hefur þó ólíka lífssögu. Hvíti túnfiskur hvílist aldrei þ.e. hann þarf að vera stanslaust á ferðinni til þess að fá nægt súrefni. Hvíti túnfiskur hefur vanþróaðan sundmaga sem finnst ekki í smáum fiskum af túnfiskaætt og auk þess er hreistur þessarar tegundar mjög fíngert.
Hvíti túnfiskur vex og þroskast hægt og leggur tiltölulega litla orku í kynkirtlaframleiðslu. Hængarnir og hrygnurnar eru mjög líkir fram að fjögurra ára aldri en þá fara hængarnir að vaxa hraðar og verða stærri en hrygnurnar. Lengd hvíta túnfisks er frá 40-120 cm og getur hann orðið allt að 40 kg. Stærsti hvíti túnfiskur sem fundist hefur var 140 cm að lengd og 60,3 kg.[1]
Útlit
[breyta | breyta frumkóða]Útlit hvíta túnfisksins er ekki frábrugðið hinum tegundum túnfiska sem þekktar eru, hliðarnar og kviðurinn eru ljósblá eða einhvers konar silfraðar á litinn en bakið er dökkblátt. Eftir hlið hvíta túnfisks liggur ljósblá lína.
Hvíti túnfiskur hefur tvo kviðugga, tvo bakugga, og smáugga sem liggja frá sporði að aftari bak- og kviðugga. Kviðuggarnir eru ljósgulir og smáuggarnir dökklitir. Fremri bakugginn er gulur en aftari ljósgulur. Hvíti túnfiskur hefur mjög smátt hreistur sem þekur allan búkinn hans en helsta einkenni hans eru eyruggarnir, þeir eru verulega langir og oddhvassir einnig er hvíti túnfiskur breiðari en aðrir túnfiskar rétt fyrir aftan miðju.[1]
Þroski og útlit
[breyta | breyta frumkóða]Meðalaldur tegundarinnar er í kringum 13 ár í Atlantshafi en einungis níu ár í Miðjarðarhafi. Kynþroskaaldur hvíta túnfisks er frekar hár, en hann verður kynþroska í kringum fimm ára aldur eða við 90 cm lengd. Um og eftir kynþroska hvíta túnfisk vaxa karlfiskarnir hraðar en kvenfiskarnir, það gerist vegna mismunandi vaxtarhraða kynjanna.[1]
Skynjun
[breyta | breyta frumkóða]Lítið er vitað um hvernig hvíti túnfiskur skynjar umhverfið sitt og eða hefur samskipti við aðra fiska. Þó er talið að þeir hafi sama hátt á sínum samskiptum og skynjunum eins og flestir aðrir fiskar gera, með skynfærunum m.a. sjóninni, heyrninni og með áþreifanlegum hætti.[1]
Hrygningartími
[breyta | breyta frumkóða]Hrygningartími hvíta túnfisks fer eftir því á hvaða svæði stofnarnir lifa á, þeir eru í sex mismunandi stofnum. Hvíti túnfiskur hrygnir a.m.k. tvisvar sinnum á ári. Fulltíða hvítir túnfiskar flykkjast oft í átt að suðrænum sjó yfir sumartímann og geta þeir hrygnt þar. Hrygningartími þeirra eru mismunandi eftir staðsetningum þ.e. hvenær þeir hrygna, þeir stofnar sem lifa á norðurhveli jarðar hrygna frá júlí til september en þeir sem lifa á suðurhveli jarðar hrygna milli október og mars. 20 kg hrygna getur hrygnt allt að 2 – 3 milljónum eggja í tveim lotum.[1] Stærð hrygnu skiptir ekki máli hvað varðar magni hrogna, því gefa stærri hrygnur ekki frá sér fleiri hrogn en smærri hrygnur. Hvíti túnfiskur gengur í hitabeltissjó þegar tími er kominn til að hrygna. [2] Hrygning þeirra fer fram með ytri frjóvgun, þar sem hrygnan dreifir eggjum sínum um hafið og hængurinn spýttir svili sínu yfir eggin sem þá frjóvgast.
Samkvæmt þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið, þá eru karlfiskar í miklum meirihluta í flokki hvíta túnfisks, á sumum svæðum eru jafnvel engin kvendýr, ætla má að þetta megi rekja til mismunandi vaxtar, affalla svo sem dánartíðni og veiða. Við kynþroska fer prósentuhluti hrygna á hverja stærð snarminnkandi og útbreiðsla hænga verður mun meiri þegar kemur að stærri fiskum í stofnunum, fiskar sem eru stærri en 85 cm eru karldýr í meirihluta.[1]
Matarvenjur
[breyta | breyta frumkóða]Hvítir túnfiskar eru tækifærissinnuð rándýr og er fæðuval þeirra mismunandi, það fer alfarið eftir staðsetningu þeirra hver fæða þeirra er hverju sinni. Aðalfæða hvíta túnfisks eru aðrir fiskar, þá helst smáar fisktegundir. Loðna, norræn og japönsk ansjósa, smokkfiskar og krabbadýr. Rannsóknir sýna að við skoðun á magainnihaldi er 96% af fæðu hvíta túnfisks er yfirleitt ansjósa. Túnfiskar flykkjast saman í torfur í leit að æti og umkringja bráðina.[1]
Hegðun
[breyta | breyta frumkóða]Hvíti túnfiskur er flökkufiskur og gengur með straumstefnum við árstíðabundnar fæðu og hrygningargöngur. Í Kyrrahafinu ganga hvítir túnfiskar að svipaðri stærð í torfum sem geta verið nokkra mílna breiðar. Við upphaf göngunnar eru þeir í frekar lausum, litlum og dreifðum hópum, ekki í eins stórum torfum og þekkjast hjá öðrum tegundum túnfiska eins og hjá gula túnfisk og randartúnfisk. Þegar líður á gönguna þéttast torfurnar og fleiri tegundir blandast við þær. Þrátt fyrir að stundum sjáist aðrar tegundir fljóta með í torfunum, þá er það ekki eins algengt að aðrar tegundir fljóti með hvíta túnfisknum og tíðkast í torfum hjá suðrænum túnfiskum. Hvíti túnfiskur getur lifað við mismunandi dýpi, allt frá 200m dýpi að 600 m. Talið er að Atlantshafsfiskur lifi á dýpt við 600m, en þeir sem lifa í Kyrrahafinu séu á um 200m dýpi.[1]
Túnfiskar lifa í frekar heitum sjó. Þeim er skipt í tvær tegundir, tegundir sem lifa við temprað hitastig eða hitabeltistegundir. Hvíti túnfiskur er dæmi um tegund sem lifir við temprað hitastig, þ.e. hitastig í sem er um eða yfir 10°C ásamt glyrnutúnfisk og bláuggum, þó er kjörhitastig sem hvíti túnfiskur lifir við á milli 15,6°C og 19,4°C, stórir fiskar tegundarinnar hafa fundist í sjó þar sem hitastigið er 13°C til 25°C.[2]
Útbreiðsla
[breyta | breyta frumkóða]Sex mismunandi stofnar eru þekktir á heimsvísu, í Atlantshafi, Indlandshafi, Kyrrahafi og Miðjarðarhafi. Stofnarnir skiptast þannig að þeir eru einn í Norður-Kyrrahafi, einn í Suður-Kyrrahafi, einn í Indlandshafi tveir í Norður-og Suður-Atlandshafi og einn í Miðjarðahafi. Á veturna er hvíti túnfiskur aðallega í djúpum sjó, við mitt Atlandshaf lifa bæði ungviði og fiskar í fullri stærð. Þegar hlýna tekur fer að vora fer hvíti túnfiskurinn að ganga meira inn á Atlandshafið þá aðallega í norðausturhluta þess í fæðuleit. Yfir sumartímann gengur hvíti túnfiskurinn inn á flóa Norður-Spánar og heldur sér meðfram Írlandi. Á haustin fer hann aftur að ganga inn á mitt Atlantshafið nálægt Asóreyjum, eyjaklasa sem tilheyrir Portúgal.[2]
Staða stofns, markaðir og afurðir
[breyta | breyta frumkóða]Tegundin er efnahagslega mjög mikilvæg verslun og atvinnu. Hún er mikilvæg þar sem hvíti túnfiskur og randatúnfiskur eru einu tvær tegundirnar sem hægt er að selja sem hvítur túnfiskur á mörkuðum. Hvíti túnfiskur er í kringum 4% af veiddum afla af túnfiski í dag,[2] en túnfiskveiðar hafa aukist verulega frá árinu 1950. Á árunum 1950-60 var ársveiði í kringum 100.000 tonn en á árunum eftir það varð mikil aukning og hefur heildarafli verið í kringum 200.000 tonn hvert ár og veiði haldist stöðug til dagsins í dag.[3]
Veiði á hvítum túnfiski er helst í suðaustur- og norðausturhluta Atlantshafsins. Mest er hann veiddur í troll, á línu, langlínu og eitthvað hefur verið um veiði á hvíta túnfiski í nót, þá hafa stangveiðiskip verið að veiða talsvert magn af honum.[4]
Aflahæsta þjóð við veiðar á hvítum túnfisk er Spánn, á eftir þeim koma Tævan, Frakkland, Japan og Suður-Afríka. Síðustu árin hefur Japan verið að dragast aftur úr í veiðum á hvítum túnfisk en Írar hafa í staðinn komið sterkir inn og veiða hvítan túnfisk í miklu magni.[2] Helstu markaðir fyrir hvíta túnfisk eru í Bandaríkjunum, Kanada, Japan og Spánn.
Hvítur túnfiskur er að mestu seldur niðursoðinn í dósum, ferskur eða frystur og seldur frosinn.[4] Hvíti túnfiskur er eina tegundin sem hefur verið hægt að markaðssetja sem túnfiskur sem hefur hvítt kjöt. Niðursuðuiðnaðurinn notar nafnið hvítur túnfiskur til að aðgreina hann frá öðrum tegundum túnfiska sem er niðursoðinn.[5]
Áhyggjur hafa verið að ofveiði á tegundinni og hefur Alþjóðaviðskiptastofnun náttúruverndar haft auga með stofnum um allan heim og telur hann vera í hættu varðandi ofveiði. Skv. nánari skoðun á stofnunum virðast Kyrrahafsstofnarnir vera stöðugir en báðir Atlantshafsstofnarnir fara minnkandi. Staða Indlands- og Miðjarðahafsstofnanna eru minna ljósir, en bráðabirgðaskýrslur benda til þess að þeir minnki einnig.
Líklegt er að Íslendingar geti farið að hefja veiði á honum innan nokkurra ára vegna hlýnun sjávar, hann er þegar farinn að ganga nálægt Íslandi.[1]
Heimildaskrá
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 1,7 1,8 Hwang, M. (2005). Animal Diversity Web. Thunnus alalunga. Sótt af http://animaldiversity.org/accounts/Thunnus_alalunga/
- ↑ 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 Gunnar Þór Halldórsson. (2016). Eru tækifæri fyrir Íslendinga að veiða túnfisk, annan en bláugga? (Lokaverkefni í sjávarútvegsfræði). Sótt af https://skemman.is/bitstream/1946/24970/1/LOKgunnar.pdf
- ↑ FAO. (e.d.). Sótt af http://www.fao.org/fishery/species/2496/en
- ↑ 4,0 4,1 Atuna. (e.d.) Tuna species guide. Sótt af http://www.atuna.com/index.php/en/tuna-info/tuna-species-guide#northern
- ↑ Bill Fox. (e.d.). Why they matter. Sótt af https://www.worldwildlife.org/species/albacore-tuna