Heinabergsvötn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Heinabergsvötn voru jökulfljót á Mýrum í Hornafirði. Komu þau undan Heinabergsjökli, ásamt ánni Kolgrímu, og féllu um aura til sjávar. Heinabergsvötn voru fyrr á tíðum mikið vatnsfall og oft komu í þau jökulhlaup þegar svonefndur Vatnsdalur fylltist af vatni. Gerðu þau þá mikinn usla á Mýrum og flæmdust um alla aurana.

Árið 1947 var ákveðið að brúa vötnin og var 38 m löng stálgrindarbrú byggð sem lokið var við árið eftir. Haustið 1948, skömmu eftir vígslu brúarinnar, færðu vötnin sig yfir í farveg Kolgrímu og eftir það stendur brúin á þurru. Þjóðvegurinn liggur nú nokkuð fyrir sunnan brúna og aurar vatnanna hafa verið græddir upp.