Hafnarfjarðargangan (1985)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hafnarfjarðargangan var mótmælaganga sem var haldin af Samtökum herstöðvaandstæðinga þann 10. ágúst árið 1985. Henni má ekki rugla saman við samnefnda aðgerð árið 1972. Gangan var lokahnykkur í vikulöngum friðaraðgerðum, þar sem slegið var upp friðarbúðum í Keflavík. Áherslan á baráttu gegn kjarnorkuvopnakapphlaupi risaveldanna var áberandi sem og vísanir til kjarnorkuárásanna á Hiroshima og Nagasaki sem voru 40 ára um þessar mundir.

Aðdragandi og skipulag[breyta | breyta frumkóða]

Safnast var saman á Thorsplani í Hafnarfirði kl. 14, þar sem Eggert Lárusson flutti ávarp. Fyrsti áningarstaður var á Borgarholti í Kópavogi þar sem Ingibjörg Hafstað flutti ræðu. Við Suðurlandsbraut töluðu þau Unnur Jónsdóttir og Ragnar Þórsson. Útifundur var loks haldinn á Lækjartorgi með ávarpi Thors Vilhjálmssonar og Atla Gíslasonar, auk gesta frá Hiroshima.

Margháttaður ljóðalestur og tónlistarflutningur var á öllum stöðum. Rokktónleikum var slegið upp að útifundi loknum með hljómsveitunum: Kukl, og Með nöktum. Voru fundargestir áætlaðir um 1.000 talsins.