Húðkrabbamein

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Húðkrabbamein er tegund krabbameins sem á upptök sín í húðinni. Algengustu tegundir húðkrabbameins eru: grunnfrumukrabbamein (carcinoma basocellulare), sortuæxli (melanoma malignum) og flöguþekjukrabbamein (carcinoma squamocellulare) en tegund krabbameins fer eftir því hvaða frumur myndast í meininu. Húðkrabbamein vex hægt og ætti því að vekja upp grunsemdir.

Einkenni[breyta | breyta frumkóða]

Húðkrabbamein eru oftast brún eða svört á litinn, en geta stundum verið rauð, húðlituð eða jafnvel hvít. Þau geta myndast út frá fæðingarblettum eða myndast á húð þar sem áður var enginn blettur.

Meðal fjöldi fæðingarbletta á hverjum einstaklingi eru um 30 blettir. Sumir hafa óvenjulega bletti sem óreglulegir í laginu. Sumir þessara bletta eru líklegri til að þróa með sér krabbamein en þarf þó ekki að vera algilt. Það er því mikilvægt að láta skoða slíka bletti til að útiloka að svo sé.

Orsök[breyta | breyta frumkóða]

Þekktasta orsök húðkrabbameina er útfjólublá geislun. Mikil útfjólublá geislun í skamman tíma í einu sem orsakar bruna eykur hættu á sortuæxli og auknum líkum á grunnfrumukrabbameini. Jöfn og stöðug geislun yfir langan tíma orsakar flöguþekjukrabbamein.

Húðkrabbamein eru algengustu tegundir krabbameina en jafnframt hvað læknanlegust ef þau greinast snemma. Sortuæxli eru langalgengustu krabbamein hjá konum, frá kynþroskaaldri til 35 ára aldurs. Húðkrabbamein getur myndast út um allan líkama, jafnvel á svæðum þar sem sólin nær ekki til eins og til dæmis á kynfærasvæðum. Einnig geta þau myndast á nöglum, augum og munni. Algengast er að karlmenn fái þá á bakið en konur á fæturna

Einstaklingar sem hafa sólbrunnið illa undir 20 ára aldri er frekar hætt við að fá sortuæxli síðar á ævinni. Geislaskemmdirnar safnast saman yfir æviskeið hvers og eins, allt frá barnsaldri og eiga því mikinn þátt í myndun sortuæxla. Þeir sem hafa óreglulega fæðingarbletti, sérstaklega ef um sortuæxli eru í ættinni, fá fremur sortuæxli en aðrir.

Greining[breyta | breyta frumkóða]

Greiningin byggist fyrst og fremst á læknisskoðun sem er staðfest með sýnatöku og vefjarannsókn. Því er mikilvægt að fara til læknis ef fram koma breytingar á húð eins og:

  • Blettir sem stækka
  • Blettir sem eru mjög dökkir
  • Blettir sem hafa óreglulega liti eða breyta um lit
  • Sár sem ekki gróa

Meðferð[breyta | breyta frumkóða]

Ef grunur leikur á að um húðkrabbamein sé að ræða eru blettirnir fjarlægðir. Oftast er notuð skurðaðgerð þar sem bletturinn er tekinn. Þótt óreglulegir fæðingablettir séu líklegri en venjulegir til að breytast í sortuæxli er það ekki algengt. Það er því óþarfi að fjarlægja alla óreglulega bletti, heldur aðeins þá sem líkjast sortuæxlum. Ef krabbameinið hefur náð niður fyrir fitulag taka við aðrar meðferðir eins og lyfja- og geislameðferðir. En það fer eftir hverju tilfelli fyrir sig.

Húðkrabbamein eru sem betur fer frekar auðsjáanleg. Lækningatíðni grunnfrumukrabbameina og flöguþekjukrabbameina er um 95% þegar rétt er að farið og þau greinast snemma. Ef sortuæxli er fjarlægt þegar það er á byrjunarstigi, og það hefur vaxið grunnt niður í húðina, eru horfurnar svipaðar. Hinsvegar, ef það er ekki fjarlægt nógu snemma og nær að vaxa dýpra í húðina eða jafnvel niður í fitu þá er mun meiri hætta á að það dreifi sér í önnur líffæri og valdið lífshættulegum veikindum og jafnvel dauða!

Forvarnir[breyta | breyta frumkóða]

Forvörnin felst aðallega í að minnka geislunaráhrif sólar og útfjólublárra geislagjafa eins og ljósabekkja. Í sólskini er þetta gert með því að nota sólarvörn sem er að minnsta kosti nr. 15 með UVB og UVA vörn, nota hatt eða skyggni og bol. Góð vörn gegn húðkrabbameini er að skoða reglulega alla bletti á líkama sínum og fara til læknis ef viðkomandi verður var við einhverja óvenjulega bletti eða breytingar á blettum.

Ef þú verður var/vör við slíkar breytingar er rétt að leita til læknis sem fyrst svo að meðferð geti hafist ef um húðkrabbamein er að ræða.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]