Fara í innihald

Gullkóngakrabbi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gullkóngakrabbi

Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýr (Animalia)
Fylking: Liðdýr (Arthropoda)
Undirfylking: Krabbadýr (Crustacea)
Flokkur: Stórkrabbar (Malacostraca)
Ættbálkur: Skjaldkrabbar (Decapoda)
Innættbálkur: Anomura
Yfirætt: Lithodoidea
Ætt: Kóngakrabbar (Lithodidae)
Ættkvísl: Lithodes
Tegund:
L. aequispinus

Tvínefni
Lithodes aequispinus

Gullkóngakrabbi (fræðiheiti: Lithodes aequispinus) er tegund af kóngakrabbaætt sem finnst aðallega í kringum Aleut-eyjar.[1][2] Krabbinn er einn af þremur helstu kóngakrabbategundum sem veiddar eru og seldar til manneldis og finnast við Alaska.[1] Hinar Kóngakrabbategundirnar eru rauði og blái kóngakrabbinn.

Gullkóngakrabbinn er minnsta tegundin af þeim þremur. Meðal krabbinn vegur um 2,2-3,6 kíló.[2] Krabbinn er gull-appelsínugulur á lit og er alsettur göddum svipað og gaddakrabbinn (fræðiheiti: Lithodes aequispinus) sem er náskyldur honum og finnst við Ísland.[2] Gullkóngakrabbinn hefur fimm pör leggja. Fremsta parið eru klær, sem eru misstórar en sú hægri er stærri, sem hann notar þegar hann étur. Svo hefur hann þrenn pör sem eru fætur og svo eitt annað lítið fótapar sem krabbinn notar í mökunarferlinu og notar karldýrið þá leggina til að dreifa sviljunum yfir kynfæri kvendýrsins.

Gullkóngakrabbinn er hlutfallslega kjötminni en þessar helstu kóngakrabbategundir og er kjöt hans ekki eins verðmætt og kjöt bláa og rauða kóngakrabbans.[3]

Lífshættir

[breyta | breyta frumkóða]
Útbreiðsla Gullkóngakrabbans
Lífsferill Gullkóngakrabbans

Gullkóngakrabbinn finnst fyrst og fremst í kring um Aleut-eyjar og er mest veiddur þar þó hann dreifi sér alveg að Suð-Austur Alaska.

Gullkóngakrabbinn er langlífur krabbi sem verður kynþroska 8 ára. Hann fer í gegnum æxlunarferli sitt á 20 mánuðum.[4] Lirfurnar dvelja á miklu dýpi. Fullvaxta kvendýr fara í gegnum hamskipti á eins og hálfs til tveggja ára fresti áður en þau hrygna á meðan karldýrin gera það á 10-33 mánaða fresti.[4] Krabbinn finnst frá 100 metra dýpi alveg niður á 1000 metra dýpi. Kvenkyns Gullkóngakrabbi hrygnir töluvert færri eggjum en aðrar tegundir kóngakrabba eða á bilinu 10-30 þúsund eggjum. Æxlun Gullkóngakrabbans er ekki háð neinu tímabili og getur gerst hvenær sem er allt árið um kring. Krabbinn er í lirfustigi í um það bil 25 daga.

Sökum þess hversu lengi þeir eru að verða kynþroska eru þeir í mikilli hættu á að verða ofveiddir. Árið 2015 var krabbinn þó talinn í góðu ástandi við Aleut-eyjar og er veiddur á skynsamlegu stigi samkvæmt Seafood Watch. Þó svo að hann sé í góðum málum við Aleut-eyjar er hann í mikilli hættu við Rússlandsstrendur sökum ofveiða og hafa Rússar verið ámynntir á að ef það breytist ekki gætu krabbastofnar þeirra hrunið.

Sökum veiðistjórnunar sem segir að krabbinn þurfi að vera ákveðið stór til að mega vera veiddur þá er krabbinn í hættu á að þróast í þá áttina að framtíðarkrabbar verði minni sökum þess að þeir sem stækka hraðar verða fyrr lögveiddir og gætu lent í því að fjölga sér ekki áður en þeir verði veiddir og ef stærð er arfgeng getur þessi veiðistjórnun haft þau áhrif að afkvæmi framtíðarinnar verði smærri og seinna kynþroska. Dæmi um þessa þróun má sjá í öðrum tegundum eins og Kyrrahafs-laxinum.

Gullkóngakrabbinn er alæta og er líklegur til þess að éta allskyns dýr á sveimi í sjónum í kringum þá eins og slöngustjörnur, ígulker, snigla, krossfiska, burstaorma, sandpeninga og samlokuskeldýr.

Rándýr sem Gullkóngakrabbanum stafar ógn af eru Kyrrahafsþorskur, Lúða, Kyrrahafsskarkoli, stærri kóngakrabbar, sæotur og Nemertea ormar.[2]

Veiðar á Gullkóngakrabbanum

Í Norður-Kyrrahafi má einungis veiða karlkyns krabba og einnig eru strangar reglur um lágmarksstærð krabba sem má veiða.[1] Þessi lágmarksstærð er sett til að gefa öllum karlkröbbum að minnsta kosti eitt tækifæri á að fjölga sér áður en hann er veiddur og einnig til að koma í veg fyrir ofveiði. Gull kóngakrabbinn er mikilvæg markaðsafurð við Aleut-eyjar, Austur-Beringshaf og Suð-Austur-Alaska og varð það sérstaklega eftir hrun annarra krabbategunda eins og Rauða kóngakrabbans og Norður-Kyrrahafskrabbans á svæðinu snemma á níunda áratugnum.

Veiðum á Gullkóngakrabbanum er helst stjórnað með stærðar-, kyns- og árstíðarhöftum en einnig eru takmörk fyrir því hversu margir fá að veiða hann, kvóti fer eftir svæðum og jafnvel svæðalokunum ef stofninn er talinn í hættu. Stærð sem miðað er við er 177,8 millimetrar.[4] Veiðitímabilið er venjulega frá febrúar til maí eða þangað til hvert svæði fyrir sig hefur klárað sinn kvóta. Hann er nær eingöngu veiddur í gildrur þó svo að það gerist af og til að hann komi sem meðafli í net.

Veiðum á krabbanum er skipt í tvö megin svæði, fyrir austan og vestan 174°W lengdargráðu. Heildarkvótinn sem gefinn var út af Alaska Board of Fisheries var 1501 tonn fyrir austan og 1013 tonn fyrir vestan 174°W árið 2017/2018 sem er á svipuðu róli og það hefur verið undanfarin ár, þó að það hafi aðeins lækkað á vesturhliðinni árið 2015 þegar kvótinn var 1351 tonn.

Samkvæmt upplýsingum frá FAO námu veiðar á gullkóngakrabbanum árið 2015 upp á 3256 tonn og var eingöngu veiddur af Rússum en þeir eiga margar af eyjum Aleut-eyjaklasans.

Undanfarin ár hafa vinsældir Gullkóngakrabbans aukist til muna en það má tengja það við ofveiði á Rauða og Bláa kóngakrabbanum sem gerir það að verkum að mun meira er til af Gullkóngakrabbanum og kvótinn á honum meiri. Kjötið á krabbanum er talið sætara en á hinum tveimur. Það hve lítill krabbinn er og hvernig hann lítur út, er hann ekki talinn eins flottur og Bláu og Rauðu kóngakrabbarnir, en hann er ódýrari en hinir krabbarnir. Krabbinn er orðinn vinsæll hjá kokkum í Bandaríkjunum sem vilja selja ferskar Gullkóngakrabbafætur beint frá Alaska. Einnig er krabbinn vinsæll á mörkuðum í Kína.

Sökum ofveiði Rússa á Gullkóngakrabbanum er fólki bent á að forðast það að kaupa hann frá þeim en það hefur einnig gert það að verkum að Rússar hafa ranglega merkt vörurnar sínar sem Alaska Gullkóngakrabbar á Bandaríkjamarkaði.

Sjá einnig

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 „Golden King Crab - Fact Sheet“ (PDF).
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 „Golden King Crab“.
  3. „King Crab 101“.
  4. 4,0 4,1 4,2 „SPATIAL VARIABILITY IN SIZE AT MATURITY AND REPRODUCTIVE TIMING OF GOLDEN KING CRAB“.