Guðmundur Einarsson (f. 1816)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Guðmundur Einarsson (f. í Skáleyjum á Breiðafirði 25. mars 1816 – d. á Breiðabólstað á Skógarströnd 31. október 1882). Prestur, prófastur, alþingismaður.

Ævi[breyta | breyta frumkóða]

Foreldrar Guðmundar voru Einar Ólafsson (1770-1843) bóndi í Skáleyjum og meðhjálpari, og kona hans Ástríður Guðmundsdóttir (1771-1865) húsfreyja og ljósmóðir. Guðmundur var móðurbróðir Matthíasar Jochumssonar (1835-1920) prests og sálmaskálds. Lærði fyrst hjá séra Friðriki Jónssyni á Stað á Reykjanesi, síðan tvo vetur hjá Sveinbirni, síðar rektor, Egilssyni; tekinn í efri bekk Bessastaðaskóla 1835, stúdent 1838 með hæstu einkunn, fékk verðlaun á fæðingardegi konungs fyrir iðjusemi. Varð skrifari og kennari hjá Eiríki sýslumanni Sverrissyni. Vígðist 26. júní 1842 aðstoðarprestur séra Ólafs Sívertsen (1790-1860) í Flatey á Breiðafirði; bjó í Skáleyjum og gegndi Múlasókn á Skálmarnesi; fékk Kvennabrekku 1848, fluttist þangað 1849; fékk Breiðabólstað á Skógartrönd 18. ágúst 1868 og hélt til æviloka. Prófastur í Dalasýslu 1864-1869 . Var 1. þjóðfundarmaður Dalasýslu 1851, þingmaður Dalamanna 1853-1857, og 1869-1881. „Búhöldur mikill, gáfumaður, skáldmæltur. Ljúfmenni". (Texti að megni til úr Íslenzkum æviskrám).

Ritstörf[breyta | breyta frumkóða]

Um nautpeningsrækt, Rvk. 1859

Hugvekjusálmar, Kh. 1860

Um bráðapestina, Rvk. 1876

Undirstöðuatriði búfjárræktar, Rvk. 1877

Um sauðfénað, v. 1879

Í forstöðunefnd Gests Vestfirðings. Ritaði greinar og grafskriftir og erfiljóð í blöð, og átti Húskveðju í útfararminningu séra Jóns Matthíassonar, Rvk. 1860. Safnaði ýmsu um leiki, skemmtanir, gátur og þjóðsiði o. fl. (Þjóðsögur Jóns Árnasonar). Á 7 sálma í Sálmabókinni 1871.

Fjölskylda[breyta | breyta frumkóða]

Kona Guðmundar, 3. nóv. 1843, var Katrín Ólafsdóttir (1823-1903) húsfreyja, dóttir Ólafs Sívertsen (1790-1860) prófasts i Flatey, og Jóhönnu Friðriku Eyjólfsdóttur (1798-1865) húsfreyju og yfirsetukonu. Börn þeirra urðu 14 að tölu; upp komust, Ásthildur Jóhanna (1857-1938) húsfreyja, síðar kona Péturs J. Thorsteinsson (1845-1929); Ólafur Sívertsen (1861-1906) héraðslæknir að Stórólfshvoli, kvæntist Margréti Magnúsóttur Ólsen; Theodóra Friðrika (1863-1954) skáldkona, giftist Skúla Thoroddsen sýslumanni, ritstjóra og alþingismanni.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

Páll Eggert Ólason: Íslenzkar æviskrár, 1948-1976