Gramm (útgáfa)
Gramm (stytting á orðaleiknum „Gramm á fóninn“) eða Grammið í daglegu tali, var íslensk tónlistarútgáfa í Reykjavík sem einnig rak samnefnda tónlistarverslun í bakhúsi, fyrst við Vesturgötuna og síðan við Laugaveg.
Grammið var stofnað árið 1981 af Ásmundi Jónssyni og Einari Erni Benediktssyni og fyrsta hljómplatan sem þeir gáfu út var stuttskífan Tilf, með Purrki Pillnikk. Grammið gaf út margar af íslensku pönkhljómsveitunum á 9. áratug 20. aldar. Dæmi um hljómsveitir og tónlistarfólk sem Grammið gaf út eru Tappi Tíkarrass, Vonbrigði, Q4U, Jonee Jonee, Þeyr, KUKL, Íkarus, Psychic TV, Svarthvítur draumur, Megas og Bubbi Morthens.
1987 varð Grammið gjaldþrota. Ásmundur og Einar og nokkrir af þeim sem höfðu tekið þátt í KUKLinu stofnuðu þá tónlistarútgáfuna Smekkleysu sem meðal annars gaf út Sykurmolana.