Grímur geitskör

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Grímur geitskör var fóstbróðir Úlfljóts, fyrsta lögsögumanns Íslands, sem fór til Noregs í því skyni að finna löggjöf sem gæti hentað Íslandi.

Í Íslendingabók Ara fróða segir um Grím: „En svá er sagt, at Grímr geitskör væri fóstbróðir hans, sá er kannaði Ísland allt at ráði hans, áðr alþingi væri átt. En honum fekk hverr maðr penning til á landi hér, en hann gaf fé þat síðan til hofa.“

Áður voru orð Ara túlkuð þannig að Grímur hefði farið um landið til að leita að heppilegum þingstað og loks fundið hann þar sem nú eru Þingvellir við Öxará. Nú er talið að hann hafi aðallega farið um til að afla lögunum og hinni nýju stjórnskipan fylgis, en Kjalarnesþingmenn hafi líklega verið búnir að ákveða hinn nýja þingstað á Þingvöllum, enda var Alþingi að nokkru arftaki Kjalarnesþings. Sagt er frá því í Íslendingabók að landið sem lagt var undir Alþingi hafi þá þegar verið komið í almenningseign. Á Þingvöllum kom Alþingi saman í fyrsta sinn sumarið 930.