Friðrik Erlingsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Friðrik Erlingsson (f. 4. mars 1962) er íslenskur tónlistarmaður og rithöfundur. Í tónlist var hann meðal annars lagahöfundur og gítarleikari í hljómsveitunum Purrki Pillnikk frá 1981 – 1983 og Sykurmolunum frá 1986 – 1988, á plötunum Einn moli’ á mann, 1986, og Life’s too good, 1988. Auk þess var hann einn af stofnendum Smekkleysu.

Ritstörf[breyta | breyta frumkóða]

Á ferli sínum sem rit- og handritshöfundur hefur Friðrik bæði komið víða við og unnið til fjölda verðlauna. Fyrsta skáldsaga Friðriks, Benjamín dúfa, hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin 1992 og Verðlaun Skólamálaráðs Reykjavíkurborgar 1994. Bókin hefur verið gefin út víða erlendis, meðal annars á Norðurlöndum, Ítalíu, Bandaríkjunum og Bretlandi. Upp úr bókinni skrifaði hann handrit að samnefndri kvikmynd sem frumsýnd var 1995 og hlaut verðlaun víða um heim. 2017 var einnig gerð kvikmynd í Bandaríkjunum byggð á bókinni, Benji the Dove, í leikstjórn Kevin Arbouet.

Á ferli sínum hefur Friðrik skrifað handrit að ýmsum sjónvarpsþáttum og sjónvarps- og kvikmyndum. Meðal annars handrit að gamanmyndinni Stuttur Frakki árið 1998 og árin 1991-1994 var hann handritshöfundur með Spaugstofumönnum þegar þeir fluttu sig frá sjónvarpinu yfir á Stöð 2 og nefndu sig Gysbræður í þættinum Imbakassinn.

Friðrik fékk sérstök verðlaun Evrópskrar dómnefndar (EBU Prix Géneve Europe / Special Prix de Jury) fyrir handrit að sjónvarpsmyndinni Góða ferð, Sveinn Ólafsson, sem var útgefin 1998 sem skáldsaga með sama nafni. Sú bók var gefin út í Bretlandi árið 2006 undir titlinum Fish in the Sky, af Meadowside Children’s books, sem einnig gaf út skáldsögu Friðriks Bróðir Lúsifer, undir titlinum Boy on the Edge. Candlewick Press hefur gefið báðar bækurnar út í Bandaríkjunum. IBBY tilnefndi Friðrik á heiðurslista sinn árið 2012 fyrir þýðingu hans á Fish in the Sky.

Upp úr unglingasögu Friðriks, Þór í Heljargreipum, sem kom út árið 2008 og byggð var á norrænni goðafræði, framleiddi teiknimyndagerðin Caoz teiknimynd í fullri lengd, Þór-Hetjur Valhallar, eftir handriti hann sjálfs sem frumsýndi var árið 2010. Var hann tilnefndur til Eddu verðlaunanna 2011 fyrir besta handritið fyrir teiknimyndina. Sjálfstætt framhald sögunnar Þór, leyndarmál guðanna, var gefin út af bókaforlaginu Veröld árið 2010.

Friðrik hefur einnig fengist við þýðingar og fyrir þýðingu sína á barnabókinni Tsatsiki og Mútta, árið 2001, eftir sænska rithöfundinn Moni Nilsson-Brannström, hlaut hann Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur.

Eftir hann liggur jafnframt handrit og libretto að óperunni Ragnheiður, sem tilnefnd var til Grímuverðlaunanna 2014 í flokknum Leikrit ársins. Konsertflutningur óperunnar í Skálholti 2013 fékk einnig Íslensku tónlistarverðlaunin 2013 sem Tónlistarviðburður ársins. Í uppfærslu Íslensku óperunnar 2014, hlaut Ragnheiður Grímuna 2014 í flokkunum, Söngvari ársins, sem var Elmar Gilbertsson, Tónlist ársins, sem Gunnar Þórðarson samdi og einnig Sýning ársins.

Auk þess var Friðrik tilnefndur til Norrænu barnabókaverðlaunanna árin 1992 og 1995.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]