Freysteinn Sigurðsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Freysteinn Sigurðsson jarðfræðingur (4. júní 194129. desember 2008) var einn helsti forystumaður íslenskra náttúrufræðinga um árabil og í fararbroddi í félagsmálum þeirra. Foreldrar hans voru Sigurður Ásgeirsson bóndi á Reykjum í Lundarreykjadal og kona hans Valgerður Magnúsdóttir kennari.

Námsferill[breyta | breyta frumkóða]

Freysteinn lauk stúdentsprófi frá Laugarvatni 1959, þá nýorðinn 18 ára. Þá um haustið hélt hann til Þýskalands og hóf nám í jarðeðlisfræði við háskólann í Mainz (Johannes Gutenberg Universität). Þar var hann með hléum til 1963, því árið 1961 lenti hann í slysi sem setti umtalsvert strik í námsferilinn. Á árunum 1965-1975 lagði hann svo stund á jarðvísindi við háskólann í Kiel (Christian Albrechts Universität) og lauk þaðan diploma-prófi.

Störf[breyta | breyta frumkóða]

Freysteinn Sigurðsson starfaði hjá Raforkumálastjóra og á Orkustofnun í áratugi. Strax árið 1958 var hann ráðinn sem aðstoðarmaður við mælingar og þar mun áhugi hans á jarðfræðum hafi kviknað. Á háskólaárunum var hann áfram sumarmaður við jarðhitarannsóknir og mælingar ár eftir. Að námi loknu 1975 varð hann fastráðinn starfsmaður á Orkustofnun. Viðfangsefni hans voru einkum tengd vatnajarðfræði, vatnafari, grunnvatni og neysluvatnsmálum. Fyrstu rannsóknarskýrslur Freysteins eru frá 1964.

Í maí 1982 var hann ráðinn deildarstjóri á Vatnsorkudeild (síðar Rannsóknarsvið) Orkustofnunar yfir jarðfræðikortlagningu. Þann 1. febrúar 1999 fór hann síðan á Auðlindadeild Orkustofnunar. Þar var ábyrgðarsvið hans hagnýt jarðefni.

Freysteinn lagði mikla stund á íslenska vatnajarðfræði. Um það skrifaði hann ótal skýrslur og greinargerðir og einnig fræðilegar ritgerðir í vísindarit. Einnig er hann höfundur að mörgum jarðfræði- og vatnafarskortum sem gefin voru út á vegum Orkustofnunar og fleiri Sérsvið hans var grunnvatn og lindir, uppruni vatnsins, rennslisleiðir neðanjarðar, rennslismagn og efnainnihald. Á seinni hluta starfsferils síns vann hann mikið að vatnsverndarmálum og lagði gjörva hönd á lagabálka um vatn og vatnsvernd. Hann íslenskaði fjölmörg heiti og hugtök í fræðum sínum, grunnhugtök vatnsverndarinnar, brunnsvæði, grannsvæði og fjarsvæði, eru t.d. frá honum runnin.

Freysteinn var sérstaklega heiðraður á norrænni ráðstefnu um neysluvatn á vegum Norðurlanda-deildar IWA (International Water Association), sem haldin var í Reykjavík sumarið 2006. Þá hlotnuðust honum verðlaunin „Pump Handle Award“ ársins 2006, sem veitt eru fyrir einstakt framlag í þágu betra og heilnæmara neysluvatns.

Freysteinn ritaði Árbók FÍ 2004, Borgarfjarðarhérað.

Félagsmál[breyta | breyta frumkóða]

Freysteinn var baráttumaður fyrir hag og kjörum náttúrufræðinga sem og náttúruvernd. Hann var formaður Félags íslenskra náttúrufræðinga (FÍN) 1986-1988 og efldi félagið verulega í sinni tíð. Hann var formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags (HÍN) 1990-2001, og var kjörinn heiðursfélagi þess 2005. Freysteinn var einn af stofnendum Oddafélagsins og stjórnarmaður þar frá upphafi, stjórnarmaður í Landvernd til dauðadags. Einnig var hann stofnfélagi og driffjöður í Gildi heilagrar Barböru á Íslandi en hún er verndardýrlingur jarðfræðinga.

Einkahagir[breyta | breyta frumkóða]

Freysteinn kvæntist Ingibjörgu Sveinsdóttur lyfjafræðingi þann 29. september 1962. Þau bjuggu lengst af á Kársnesbraut í Kópavogi.

Börn þeirra:

  • Sigurður, eðlisfræðinemi (1966-1997)
  • Gunnar, skógfræðingur (1970-1998)
  • Ragnhildur, landfræðingur (1975)