Fara í innihald

Flokkunarkerfi Blooms

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Flokkunarkerfi Blooms.

Flokkunarkerfi Blooms er flokkunarkerfi fyrir námsmarkmið sem er kennt við bandaríska uppeldisfræðinginn Benjamin S. Bloom. Bloom setti fyrst fram flokkunarkerfið í bókinni Taxonomy of Educational Objectives. The Classification of Educational Goals. Handbook I: Cognitive Domain árið 1956. Með kerfinu reynir hann að sýna fram á hvernig markmið í kennslu þurfi að ná til allra þeirra sviða sem kennarar vilja leggja áherslu á, svo sem rökhugsunar, sköpunarhæfileika, þekkingar, skilnings og viðhorfa. Megintilgangurinn með flokkuninni er að efla skilning á gerð og eðli markmiða og auðvelda kennurum að setja markmið í kennslu.

Hugmynd Blooms gekk út frá því að mannlegir hæfileikar skiptust í þrjú meginsvið: þekkingarsvið (e. cognitive domain), viðhorfa- og tilfinningasvið (e. affective domain) og leiknisvið (e. psychomotor domain). Á hverju sviði eru þrepamarkmið, raðað frá einfaldari til flóknari markmiða. Síðustu markmiðin í hverju þrepi gera mestar kröfur til gildismats hugsunar, færni eða annars andlegs og líkamlegs þroska.

Þekkingarsvið

[breyta | breyta frumkóða]

Markmið á þekkingarsviði miða að því að þjálfa andlega hæfileika nemenda, hugsun þeirra og rökleikni. Samkvæmt hugmyndum Blooms um þekkingarsvið skiptist það í sex þrep:

  1. Minni: Markmiðið er að muna orð, tákn, staðreyndir, skilgreiningar, hugtök, reglur, hugmyndir, aðferðir, kenningar, atburðarás og önnur minnisatriði.
  2. Skilningur: Markmiðið er að nemendur leggi merkingu í þá þekkingu sem þeir hafa tileinkað sér, að þeir skilji það sem þeir sjá, lesa eða heyra.
  3. Beiting: Lögð áhersla á að nemendur geti beitt hugtökum, þekkingu, dæmum, reglum, aðferðum eða kenningu við bæði þekktar og óþekktar aðstæður.
  4. Greining: Á þessu þrepi eiga nemendur að beita bæði jákvæðri og neikvæðri gagnrýninni hugsun á fyrirbæri, heimildir, hugmyndir og gögn. Í því felst að nemendur geti brotið atriðin til mergjar og gert sér grein fyrir því hvernig þau tengjast sín á milli. Þá þarf að færa rök fyrir máli sínu, draga ályktanir, styðja mál sitt með heimildum og setja fram tilgátur.
  5. Nýmyndun / nýsköpun: Með nýsköpun nýta nemendur þá þekkingu sem þeir hafa við að setja fram hugmyndir, tillögur og lausnir. Hér á nemandi að geta bent á nýjar leiðir, tengt saman misjafnar hugmyndir og byggja á þeim nýjar. Með nýsköpun eiga nemendur einnig að hanna, þróa og semja.
  6. Mat: Þegar kemur að mati eiga nemendur að leggja rökstutt mat á upplýsingar, viðhorf, skoðanir eða gildismat. Hér á nemandi að geta útskýrt mismunandi viðhorf og borið þau saman, metið þau og tekið afstöðu.

Viðhorfa- og tilfinningasvið

[breyta | breyta frumkóða]

Markmið á viðhorfa- og tilfinningasviði er að þroska nemendur tilfinningalega og stuðla að áhuga og jákvæðum viðhorfum. Markmiðunum er skipt í fimm þrep:

  1. Athygli/eftirtekt: Nemendur fygjast með og taka eftir. Lykilorð í þessum flokki eru orð eins og hlusta, skoða, lýsa, greina, veita athygli.
  2. Svörun/þátttaka: Nemendur beita virkri hlustun, bregðast við og sýna áhuga.
  3. Alúð/rækt: Nemendur sýna stöðugan áhuga, leggja sig fram í verkum sínum, deila með öðrum og sýna frumkvæði.
  4. Heildarsýn/ábyrgð: Nemendur tilbúnir að taka ábyrgð og sýna ábyrga afstöðu.
  5. Heildstætt gildismat: Nemendur eru samkvæmir sjálfum sér í skoðunum sínum og verkum. Auk þess hafa þeir myndað með sér tiltekin grundvallarviðhorf. Þeir sýna frumkvæði og láta sig varða.

Bloom taldi að í skólastarfi væri of lítil áhersla á markmið viðhorfa- og tilfinningasviðs. Skýring á því gæti verið sú að þau markmið er erfitt að meta. Þau verða í það minnsta ekki metin á sama hátt og markmið á þekkingarsviðinu.

Leiknisvið

[breyta | breyta frumkóða]

Leiknisviðið lýtur að hvers konar færni til dæmis færni sem tengist skrift, vélritun, munnlegri tjáningu, leikrænni tjáningu, líkamsrækt, dansi, notkun áhalda og tækja og fleira. Simpsons skiptir sviðinu í sjö þrep:

  1. Skynjun: Nemendur veita athygli þeim boðum sem gefa til kynna hvaða viðbrögð eru æskileg.
  2. Viðleitni: Nemendur gera sig klára og sýna áhuga á að framkvæma það sem sett er fyrir.
  3. Svörun/eftirlíking: Nemendur geta hermt eftir hegðun eða leikni sem sýnd var.
  4. Vélræn leikni: Nemendur hafa náð tökum á viðfangsefninu en ekkert meira en það.
  5. Flókin færni: Nemendur hafa náð góðri færni í viðfangsefninu og sýna örugg tök á notkun þess.
  6. Aðlögun: Eftir að hafa náð góðri færni í aðferðum og vinnubrögðum þróa nemendur þau og laga að nýjum viðfangsefnum.
  7. Skapandi tjáning: Nemendur hafa þróað sín eigin vinnubrögð og aðferðir. Þetta er hið skapandi stig.

Hugmyndir Blooms og samstarfsmanna hans hafa haft mikil áhrif á námskrár- og námsefnisgerð, sérstaklega greiningu þeirra á þekkingarsviðinu, en hin sviðin hafa haft minni áhrif. Líklegt er að það sé vegna þeirrar áherslu sem er lögð á bóknám í skólastarfi og hversu mikið kynning á öðrum sviðum hefur reynst torskilin á meðan kennara og kennslufræðinga.

  • Bloom, Benjamin, Max D. Engelhart, Edward J. Furst, Walker H. Hill og David, R. Krathwohl, Taxonomy of Educational Objectives. The Classification of Educational Goals. Handbook 1. Cognitive Domain. (New York: David McKay Company, Inc, 1956).
  • Eisner, Elliot W. og Benjamin Bloom. Í Victor Ordonez og Ruper Maclean (ritstjórar), Prospects: the quarterly review of comparative education vol. XXX (Paris: UNESCO: International Bureau of Education, 2000).
  • Ingvar Sigurgeirsson, Að mörgu er að hyggja (Reykjavík: Æskan, 1999).