Fallegasta bók í heimi
Fallegasta bók í heimi er heiti á umdeildu listaverki, sem unnið var sérstaklega af sýningarstjórn sýningarinnar KODDU og hún skrifuð fyrir því undir heitinu Koddu. Sýningarstjórnina skipuðu myndlistarmennirnir Hannes Lárusson og Ásmundur Ásmundsson ásamt Tinnu Grétarsdóttur, mannfræðingi, en sýningin var haldin á tveimur stöðum í Reykjavík, í Nýlistasafninu og Alliance-húsinu.[1]
Verkið notaðist að hluta til við bókina Flora Islandica, eftir þá Eggert Pétursson og Ágúst H. Bjarnason, sem gefin var út af útgáfufélaginu Crymogea. Útgáfustjórinn, Kristján B. Jónasson, taldi listaverkið brjóta á sæmdarrétti höfunda og óskaði eftir því að það yrði fjarlægt af sýningunni. Stjórn Nýlistasafnsins féllst á rök útgáfustjórans og fjarlægði verkið við kröftug mótmæli sýningarstjórana þriggja.[2] Listaverkið var aftur tekið til sýningar í Alliance-húsinu 26. apríl 2011 [3]. Eggert Pétursson sagði „níðingsverk“ hafa verið unnið á bók sinni Flora Islandica með verkinu.[4] Í fréttatilkynningu frá Nýlistasafninu er tilurð verksins lýst svo:
Tilurð verksins er eftirfarandi, þríeykið verður sér úti um eintak af bókinni Flora Islandica og lætur smíða undir það sérstakan stöpul, setur íslensk matvæli inná milli blaðsíðna hennar og stillir henni upp í svartmáluðu innra sýningarými Nýló undir lýsingu sem gerð er úr húð af nautspungum og gefur verkinu titilinn „Fallegasta bók í heimi“. Það er ekki nýlunda í listasögunni að listamenn taki verk eftir aðra listamenn og breyti í sitt eigið, stroki út o.s.f.r.v. eins og þeir sem þekkja listasöguna vita og allir geta kynnt sér. | ||
— Fréttatilkynning Nýló 20. apríl 2011 kl. 13:07
|
Í sömu fréttatilkynningu segir enn fremur:
Stjórn Nýlistasafnsins vill að lokum koma því á framfæri að hún sýnir málsstað allra hlutaðeigandi fullan skilning og virðingu, bæði sýningarstjórn Koddu og málsvarsaðila höfundarrétthafa bókarinnar Flora Islandica, sem er útgáfufélagið Crymogea. Nýlistasafnið hefur s.k.v. langri hefð þá stefnu að gefa listamönnum sem þar sýna frítt spil í listsköpun. Enda hefur Nýlistasafnið í gegnum þrjátíu og þriggja ára sögu sína verið vettvangur tilraunakenndra lista. Sami háttur var hafður á í samstarfi safnsins við þríeykið og alla þá listamenn sem í sýningunni sýna. | ||
— Fréttatilkynning Nýló 20. apríl 2011 kl. 13:07
|
Að lokum sagði stjórn Nýló:
Nýlistasafnið fagnar allri málefnalegri umræðu um þolmörk listsköpunar, enda er það stöðug krafa samfélagsins að listir séu greinandi og gagnrýnið afl í samfélaginu. En á meðan það getur á nokkurn hátt talist vafaatriði hvort lög landsins hafa verið brotin, mun Nýlistasafnið ekki hafa verkið „Fallegasta bók í heimi“ til sýnis í safnrými sínu. Sýningin stendur að öðru leyti óhreyfð, hvað Nýlistasafnið varðar, svo fremi sem einstaka verk brjóta ekki í bága við lög. Stjórn Nýlistasafnsins hvetur einnig alla málsaðeigandi til að fá formlegt sjáfstætt mat á því hvort sæmdarréttur höfundarrétthafa hafi hér verið brotinn, skv fyrsta mati sem Stjórn hefur látið gera lítur út fyrir að það sé tifellið í þessu verki og hefur því fjarlægt verkið af sýningunni. | ||
— Fréttatilkynning Nýló 20. apríl 2011 kl. 13:07
|
Miðvikudaginn 27. apríl barst síðan krafa frá útgáfustóra Crymogea um að verkið yrði fjarlægt og því eytt:
Bókaútgáfan Crymogea ehf. fyrir hönd höfunda, Ágústs H. Bjarnasonar og Eggerts Péturssonar, fer þess á leit við sýningarstjóra að verkið „Fallegasta bók í heimi“ verði fjarlægt af sýningunni og því eytt í viðurvist fulltrúa útgáfunnar. |
Ekki var orðið við beiðni Crymogea og málið látið niður falla án nokkurs eftirmála.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Endurspeglar gífurlegan ótta í samfélaginu Geymt 24 apríl 2011 í Wayback Machine Dagblaðið Vísir
- ↑ Fallegasta bókin fjarlægð Ríkisútvarpið
- ↑ Fallegasta bók í heimi til sýnis
- ↑ Segir níðingsverk hafa verið unnið á bók
- ↑ 5,0 5,1 5,2 Fréttatilkynning frá Nýlistasafninu Geymt 23 apríl 2011 í Wayback Machine Pressan.is
- ↑ „Listaverk læst inni“. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. maí 2011. Sótt 1. maí 2011.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Marktækasta listaverk Íslands Hermann Stefánsson, smugan.is, 26.04.2011 (skoðað 14.02.2113)
- TORTÍMANDINN Kristinn E. Hrafnsson, smugan.is, 23.04.2011 (skoðað 14.02.2113)
- Enn ein lygasagan Jón B. K. Ransu, smugan.is, 23.04.2011 (skoðað 14.02.2113)
- Flora Islandican Geymt 3 maí 2011 í Wayback Machine Um bókina Flora Islandica og viðtal við Eggert Pétursson (skoðað 14.02.2113)