Dagný Kristjánsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Dagný Kristjánsdóttir (f. 1949) er prófessor emeritus í íslenskum nútímabókmenntum við Háskóla Íslands.[1]

Dagný fæddist á Ísafirði 19. maí 1949. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1970,[2] BA prófi í íslensku og almennri bókmenntasögu 1975 og 1977, MA prófi í íslenskum bókmenntum frá Heimspekideild Háskóla Íslands 1979 og varði doktorsritgerð sína Kona verður til. Um skáldsögur Ragnheiðar Jónsdóttur fyrir fullorðna við Háskóla Íslands 1997.[3] Hún var þriðja konan frá upphafi til að verja doktorsritgerð við Háskóla Íslands á eftir Selmu Jónsdóttur (1960) og Hugrúnu Friðriksdóttur (1997)[4] og fyrst til að verja doktorsritgerð um íslenskar kvennabókmenntir.[5][6]

Ýmis störf og verkefni[breyta | breyta frumkóða]

Dagný var virk í Rauðsokkahreyfingunni frá 1976-1981 og sat í miðstöð hennar um tíma. Hún kenndi við Menntaskólann á Egilsstöðum 1979-1981 og var sendikennari við Háskólann í Osló árin 1982-1990.[7]

Hún kenndi í rúm tíu ár í Skor íslensku fyrir erlenda stúdenta við Háskóla Íslands (nú Íslensku sem annað mál[8]) og varð prófessor við Háskóla Íslands í íslenskum bókmenntum árið 2001. Dagný hefur einnig kennt námskeið um íslenskar bókmenntir í Færeyjum, Noregi, Danmörku og Finnlandi og verið Fulbright-gestafræðimaður í UC Santa Barbara (1999-2000), gestafræðimaður við Humboldt Universität,[9] Berlín (2006-2007) og Háskólann í Edinborg (2017).[6]

Auk kennslu og rannsókna hefur Dagný gegnt ýmsum stjórnunar og trúnaðarstörfum. Á árunum 1996-1999 var hún forstöðumaður Bókmenntafræðistofnunar Háskóla Íslands.[10] Hún var forstöðumaður námsbrautar í kynjafræðum 1998-1999, í stjórn Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum frá 2000 og formaður 2003-2005. Þá sat hún í stjórn Nordisk Institutt for kvinne- og kjönnsforskning[11] 2004-2006, í útgáfustjórn Noru[12] 1997-1999 og í stjórn Félags prófessora[13] 2003-2006, en hún var varaformaður félagsins 2004-2006. Hún var jafnframt í stjórn BIN (Barn og ungdomskultur i Norden) 2003-2011, formaður Félags íslenskra fræða 2002-2004 og deildarforseti Íslensku- og menningardeildar 2010-2012.[6]

Dagný hefur setið og stýrt ýmsum dómnefndum. Þar má nefnda dómnefndir um akademískar stöður og framgang á Íslandi, Danmörku, Noregi og Færeyjum. Oft var hún formaður þessara nefnda. Hún hefur einnig setið - dómnefnd um íslensku bókmenntaverðlaunin, norrænu bókmenntaverðlaunin, norrænu barna- og unglingabókaverðlaunin og vest-norrænu barnabókaverðlaunin.[6]

Viðurkenningar[breyta | breyta frumkóða]

  • 1996 - Tilnefning til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðibóka fyrir Kona verður til.[14]
  • 2000 - Fulbright fræðimaður við Háskólann í Santa Barbara, Californiu.[15]
  • 2015 - Tilnefning til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðibóka fyrir Bókabörn.[14]
  • 2018 - Viðurkenning Samtaka móðurmálskennara fyrir framlag Dagnýjar til rannsókna, kennslu og fræðastarfa í þágu barna- og unglingabókmennta, heima og á alþjóðlegum vettvangi.[16]
  • 2021 - Riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir kennslu og rann­sókn­ir á bók­mennt­um ís­lenskra kvenna og barna­bók­mennt­um.[17]

Rannsóknir og helstu ritverk[breyta | breyta frumkóða]

Rannsóknarsvið Dagnýjar eru íslenskar bókmenntir og bókmenntasaga. Bókmenntarannsóknir hennar má kenna við sálgreiningu, femínísma og læknahugvísindi en börn og menning þeirra hefur einnig verið sérstakt áhugaefni hjá henni.[1] Hún hefur flutt fjölda fyrirlestra á ráðstefnum og málþingum bæði hérlendis og erlendis.[6]

Helstu rit Dagnýjar[breyta | breyta frumkóða]

Dagný hefur ritstýrt bókunum Literature and Visual Culture (2005), Heimi ljóðsins Geymt 2 febrúar 2012 í Wayback Machine með Ástráði Eysteinssyni og Sveini Yngva Egilssyni (2005) og Í Guðrúnarhúsi. Greinasafn um bækur Guðrúnar Helgadóttur Geymt 7 ágúst 2020 í Wayback Machine með Brynhildi Þórarinsdóttur (2005).

Dagný Kristjánsdóttir hefur birt fjölda greina og bókarkafla um fræðasvið. Þar má nefna tug greina í Nordisk kvindelitteraturhistorie (1993-1998)[18] þar sem hún ritstýrði íslenska hluta bókmenntasögunnar frá öðru til fimmta bindis ásamt því að skrifa kaflann „Árin eftir seinna stríð“ (bls. 419-663 og 507-519) í Íslensk bókmenntasaga IV (2006).[6]

Dagný hefur unnið með Bryndísi Benediktsdóttur, lækni, Ásdísi Egilsdóttur, prófessor emeritus í íslenskum miðaldabókmenntum, auk Bergljótar Kristjánsdóttur, prófessors í íslenskum nútímabókmenntum og Guðrúnar Steinþórsdóttur, doktorsnema að því að flétta bókmenntir inn í læknanámið og tengja þannig hug- og læknisvísindi.[19] Dagný vinnur nú að bók um þetta efni. Læknahugvísindin tengist vaxandi efasemdum um skörp skil hug- og raunvísinda. Sömuleiðis taka menn skörp skil milli menningar og náttúru ekki lengur fyrir gefið og það endurspegast í fræðasviðinu „vistrýni“ sem kann að vera eitt brýnasta viðfangsefni hugvísinda í dag. Þar hefur Dagný tekið upp erlent samstarf um vistrýni og viðhorf til náttúrunnar í barna- og unglingabókum samtímans.

Einkalíf[breyta | breyta frumkóða]

Foreldrar Dagnýjar eru Þórunn Jónsdóttir, kennari, og Kristján Jónsson, borgardómari. Dagný er gift Kristjáni Jóhanni Jónssyni, prófessor emeritus (f. 1949)[20][21] og eiga þau tvo syni.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 „Hásskóli Íslands. (2019). Emeriti. Dagný Kristjánsdóttir, prófessor emeritus“. Sótt 7. september 2019.
  2. Menntaskólinn á Akureyri. Stúdentar 1970 Geymt 24 júní 2021 í Wayback Machine. Sótt 7. september 2019.
  3. Mbl.is. (1997, 13. febrúar). FÓLK Ver doktorsritgerð við heimspekideild. Sótt 7. september 2019
  4. Hákóli Íslands. Doktorsvarnir frá upphafi til ársins 2000.
  5. Mbl.is. (1997, 23. ágúst). Þá var listakonum skipað að þegja eftir Guðrúnu Egilsson. Dr. Dagný Kristjánsdóttir er trú þeirri íslensku hefð að rita um. Sótt 7. september 2019.
  6. 6,0 6,1 6,2 6,3 6,4 6,5 „Vísindavefurinn. (2018). Hvaða rannsóknir hefur Dagný Kristjánsdóttir stundað?“. Sótt 7. september 2019.
  7. Dansað við Úlfar. Nokkur spor stigin til heiðurs Úlfari Bragasyni sjötugum 22. apríl 2019. Reykjavík: Rauðhetta, útgáfufélag. Sótt 7. september 2019.
  8. Háskóli Íslands. Íslenska sem annað mál. Sótt 7. september 2019.
  9. Humboldt Universität zu Berlin. Sótt 7. september 2019.
  10. Háskólaútgáfan. Bókmenntafræðistofnun Geymt 4 apríl 2018 í Wayback Machine. Sótt 7. september 2019.
  11. NIKK. Nordisk Institutt for kvinne- og kjönnsforskning. Sótt 7. september 2019.
  12. NORA - Nordic Journal of Feminist and Gender Research. Sótt 7. september 2019.
  13. Félag prófessora við ríkisháskóla Geymt 30 nóvember 2018 í Wayback Machine. Sótt 7. september 2019.
  14. 14,0 14,1 „Reykjavík. Bókmenntaborg UNESCO. Íslensku bókmenntaverðlaunin“. Sótt 7. september 2019.
  15. Mbl.is. (1999, 22. maí). Fullbrightstyrkir afhentir. Sótt 7. september 2019.
  16. Háskóli Íslands. (2018). Dagný fær viðurkenningu Samtaka móðurmálskennara. Sótt 7. september 2019.
  17. Visir.is, „Fyrrverandi seðlabankastjóri meðal 14 fálkaorðuhafa“ (skoðað 18. júní 2021)
  18. The history of Nordic women's literature. Sótt 7. september 2019.
  19. Háskóli Íslands. Læknis- og bókmenntafræði hönd í hönd. Sótt 7. september 2019.
  20. Vísindavefurinn. (2018). Hvaða rannsóknir hefur Kristján Jóhann Jónsson stundað?.
  21. Mbl.is. (2019, 10. maí). Kristján Jóhann Jónsson. Sótt 7. september 2019.