Axlar-Björn
Björn Pétursson, kallaður Axlar-Björn (d. 1596), bjó að Öxl í Breiðavík á Snæfellsnesi seint á 16. öld og er eini raðmorðingi Íslands, þótt heimildum beri ekki saman um hve marga hann myrti.
Glæpir og aftaka
[breyta | breyta frumkóða]Miklar þjóðsögur hafa gengið um Björn og illvirki hans og er sú þekktasta skráð af séra Sveini Níelssyni sem einnig er heimildarmaður frásagnarinnar í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Margt er þar þó með miklum ólíkindablæ og ekkert er víst um Björn og glæpi hans nema það sem segir í tveimur Alþingisdómum frá 1596 og 1597, auk þess sem gera má ráð fyrir að það sem Björn Jónsson segir í Skarðsárannál sé ívið nær lagi en sagnir sem skráðar voru 250-300 árum eftir aftöku Axlar-Bjarnar, en Björn annálaritari var rúmlega tvítugur þegar nafni hans var tekinn af lífi. Hann segir að Björn hafi myrt níu manns en þjóðsögurnar segja að þeir hafi verið fjórtán eða átján. Þetta voru aðallega ferðamenn sem áttu leið hjá bæ hans og voru þeir rændir aleigu sinni og síðan drepnir, en suma drap Björn að sögn til að fela illvirki sín. Björn á Skarðsá segir að Axlar-Björn hafi grafið líkin í heygarði eða fjósi en þjóðsögur segja að hann hafi komið líkunum fyrir í tjörn einni skammt frá bænum.
Björn var handtekinn 1596 og dæmdur og tekinn af lífi á Laugarbrekkuþingi þá um vorið. Samkvæmt Skarðsárannál og þjóðsögnunum var hann marinn á útlimum með sleggjum fyrir aftökuna og þegar búið var að hálshöggva hann var líkið höggvið sundur og stykkin fest upp á stengur. Slíkt var þó í ósamræmi við íslensk lög á þeim tíma og í Alþingisdómnum sama ár er sagt að hann hafi verið réttaður eftir lögmáli, svo óvíst er að nokkrar pyntingar hafi verið viðhafðar.
Kona og afkomendur
[breyta | breyta frumkóða]Eiginkona Axlar-Bjarnar hét Þórdís Ólafsdóttir og Alþingisdómarnir tveir sem fyrr var getið snúast að mestu um örlög hennar; hún var grunuð um hlutdeild í glæpum manns síns eða að minnsta kosti vitorð. Samkvæmt dómnum frá 1597 var Kastian Bock sýslumanni falið að kanna „hvort hún væri nokkuð sökuð í þessum málum eður ei enn af nýju, og ef svo er, að nokkuð bevísist, að hún hafi sig í þeim vandræðum vafið ..., þá dæmum vér henni refsing og straff eftir því prófi. En bevísist ekki upp á hana öðruvísi en nú hefir fram fyrir oss komið, þá kunnum vér henni ekki refsing að dæma." Líklega hefur ekkert sannast upp á Þórdísi því engar heimildir eru um að hún hafi verið tekin af lífi eða hlotið aðra refsingu.
Sonur þeirra Björns var Sveinn „skotti“ og samkvæmt þjóðsögunum fæddist hann ekki fyrr en eftir aftöku föður síns. Hann var kunnur landshornaflakkari og var hengdur árið 1648 fyrir að gera tilraun til að nauðga húsfreyju í Rauðsdal á Barðaströnd. Sonur hans hét Gísli og var kallaður hrókur. Hann var hengdur rétt eins og faðir hans, samkvæmt annálum.
Saga Björns hefur orðið ýmsum yrkisefni. Úlfar Þormóðsson skrifaði um hann sögulega skáldsögu, Þrjár sólir svartar, árið 1988. Megas skrifaði skáldsögu sem hét Björn og Sveinn eða Makleg málagjöld þar sem þeir feðgar ferðast um undirheima Reykjavíkur nútímans. Hún kom út 1994. Og árið 2012 setti leikhópurinn Vesturport upp sýninguna Axlar-Björn, sem byggð er á þjóðsögunum um Björn og konu hans.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- „Hver var Axlar-Björn?“. Vísindavefurinn.
- „Hverrar ættar var Axlar-Björn og hver var kona hans?“. Vísindavefurinn.
- „„Arfsagnir og munnmæli". Blanda, 23.-26. hefti 1940“.
- Axlar-Björn; grein eftir Svavar Hávarðsson af Nat.is Geymt 28 mars 2013 í Wayback Machine
- Uppvíst verður um Björn í Öxl; grein í Morgunblaðinu 1980
- Sagan af Axlar-Birni og Sveini skotta; grein í Morgunblaðinu 1971