Laugarbrekka

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Laugarbrekka er eyðibýli í Breiðuvíkurhreppi, upp frá Hellnum og vestan undir Laugarholti, þar sem er Bárðarlaug. Byggð lagðist af í Laugarbrekku 1887, en þar var gamalt kirkjusetur og kirkja frá 1563, eða allt þar til hún var færð að Hellnum þar skammt frá árið 1881. Í Bárðar sögu Snæfellsáss segir svo frá, að Bárður hafi búið að Laugabrekku á meðan hann dvaldi meðal manna.

Hin víðförla Guðríður Þorbjarnardóttir fæddist á Laugarbrekku árið 980 og fluttist árið 1000 til Grænlands með foreldrum sínum. Þar kynntist hún og giftist Þorsteini, syni Eiríks rauða landnámsmanns í Grænlandi og saman freistuðu þau þess að sigla til Vínlands. Sú för heppnaðist ekki og dó Þorsteinn í þeirri ferð. Komin aftur í Brattahlíð kynntist Guðríður Þorfinni Karlsefni, giftist honum og sigldi með honum til Vínlands. Þar fæddist sonur þeirra Snorri og varð Guðríður þá móðir fyrsta Evrópumannsins sem vitað er til að hafi fæðst á meginlandi Norður-Ameríku.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Þorsteinn Jósepsson, Steindór Steindórsson og Páll Líndal (1982). Landið þitt Ísland, L-R. Örn og Örlygur.
  • Björn Hróarsson (1994). Á ferð um landið, Snæfellsnes. Mál og menning. ISBN 9979-3-0853-2.
  Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.