Ólafur Halldórsson (f. 1920)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ólafur Halldórsson (18. apríl 19204. apríl 2013) var íslenskur handritasérfræðingur og doktor í íslenskum fræðum.

Ólafur var fæddur að Króki í Gaulverjabæjarhreppi (nú Flóahreppi), sonur Halldórs Bjarnasonar og Lilju Ólafsdóttur, sem þar bjuggu. Hann lauk stúdentsprófi frá MA árið 1946 og cand. mag.-prófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands 1952. Hann hélt svo til Kaupmannahafnar þar sem hann sérmenntaði sig í handritalestri hjá Jóni Helgasyni prófessor og starfaði sem lektor við Kaupmannahafnarháskóla. Doktorsprófi lauk hann frá Háskóla Íslands 1980 og nefndist doktorsritgerð hans Grænland í miðaldaritum.

Ólafur fluttist til Íslands árið 1963 og starfaði við handritarannsóknir hjá Handritastofnun Íslands, frá 1969 Stofnun Árna Magnússonar, allt til sjötugs. Eftir það starfaði hann sjálfstætt og hafði lesaðstöðu hjá stofnuninni. Hann vann um áratugaskeið að rannsóknum á handritum, textum og útgáfum á fornsögum. Ólafur var kjörinn félagi í Vísindafélagi Íslendinga árið 1975, og árið 2010 var hann heiðraður á færeyskri menningarhátíð í Reykjavík fyrir starf sitt í þágu menningartengsla Færeyinga og Íslendinga. Sama ár hélt Stofnun Árna Magnússonar málþing honum til heiðurs.

Kona Ólafs var Aðalbjörg Vilfríður Karlsdóttir (29. ágúst 1925 – 3. mars 1998) frá Húsavík.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

  • „„Ólafur Halldórsson handritasérfræðingur.". Morgunblaðið, 8. apríl 2013.