A-vítamín

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Karótín)

A-vítamín er vítamín sem við innbyrðum að mestu í gegnum fæðu. A-vítamín getur komið fram sem retínól, karótín og beta-karótín.[1] Það er fituleysanlegt vítamín sem er að finna í grænmeti, svo sem gulrótum, spínati, gulum baunum og kartöflum.[2] Vítamínið er einnig að finna í fituríkum dýraafurðum svo sem nýmjólk, smjöri, fiskiolíu, hákarlaolíu, eggjum og lúðu.[2][3] Í fiskilifur, lýsi, smjöri, eggjum og mjólk er að finna A-vítamín í forminu retínól.[4] Retínól er annað form A vítamíns[1] sem við fáum úr dýraríkinu, en karótín og beta-karótín (próvítamín A) fáum við úr jurtaríkinu.[4] Beta-karótín er litarefni sem finnst t.d. í gulrótum og er það djúp appelsínugult að lit. Mikil neysla kemur stundum fram í húðlit einstaklings en venjulega kemur liturinn helst fram í lófum og á iljum.[5] Grænmeti sem er mjög litsterkt eins og t.d. gulrætur, spergilkál, paprika og apríkósur innihalda þetta efni sem mannslíkaminn breytir síðan í A-vítamín eftir þörfum.[6] Þegar líkaminn innbyrðir A vítamín á þessu formi eru mun minni líkur á að uppsöfnun vítamínsins A verði óæskilega mikil í líkama einstaklingsins.[6]

Fituleysanleg efni eins og A vítamín skolast ekki út heldur safnast þau saman í lifur og fituvefnum ef umfram magn er af því í líkamanum[1] 80 - 90% af því sem að líkaminn innbyrðir af A vítamíni geymir hann í lifrinni. Vegna þess að þau skolast ekki út þá getur líkaminn gripið í að nýta sér þann forða sem hann á þegar A vítamín vantar.[1]

Kostir A vítamíns[breyta | breyta frumkóða]

A vítamín er nauðsynlegt vítamín fyrir líkamsstarfsemi manna og hefur marga kosti. Það styður, ásamt andoxunarefnum, starfsemi ónæmiskerfisins og hjálpar til við að halda sýkingum og sjúkdómum í skefjum.[7] A vítamín er nauðsynlegt til að viðhalda sjón, frjósemi, ónæmiskerfi, slímhúð í meltingarvegi, kynfærum og öndunarvegi meðal annars.[8] A vítamín stuðlar að nýmyndun glýkópróteina og er nauðsynlegt fyrir stöðugleika lýsósóm sameinda.[9]

A vítamín hjálpar til við vöxt vefja í líkamanum, hjálpar til við að halda eðlilegri starfsemi kirtla og þekjuvefs[2] og ver okkur einnig gegn sumu þekjuvefskrabbameini.[10] Það er einnig nauðsynlegt til að slímhúð viðhaldist eðilega, aðallega á framanverðu auganu, í meltingarvegi og öndunarvegi, og hjálpar til við viðhald hárs, endurnýjun húðarinnar og verndun hennar.[2][11] A vítamín hjálpar til við endurnýjun á sjónpurpura, sem er efnið í sjónhimnunni, sem hjálpar okkur við að sjá í daufu ljósi.[12] Það styður beinvöxt barna[2] og rannsóknir sýna að inntaka A vítamíns, hjá börnum frá sex mánaða aldri til fimm ára, minnkar líkurnar á sjúkdómum og dauða.[13] A vítamín hefur einnig áhrif á meðgöngu og án þess myndi frjóvgað egg ekki verða að fóstri.[2]

Hægt er að nota A vítamín til þess að fyrirbyggja ýmis veikindi og sjúkdóma, meðal annars unglingabólur, alkóhólisma, sykursýki, eiðni, slitgigt, æðahnúta, veirusýkingar og margt fleira.[2]

Aukaverkanir af A vítamíni geta komið fram á þann hátt að líkaminn tekur ekki upp D vítamín á eins skilvirknislegan hátt.[14] Aftur á móti virðist sem að A vítamín virkji upptöku járns úr geymslustöðvum líkamans, sem berst svo til rauðu blóðkornanna sem mynda blóðrauðann, sem er súrefnisvakinn í rauðu blóðkornunum

Ráðlagður dagskammtur[breyta | breyta frumkóða]

Miðað er við að ráðlagður dagskammtur A vítamíns sé 1 mg á dag[4] eða 1000 µg hjá fullorðnum einstaklingum, 700 µg hjá börnum og 400 µg hjá smábörnum.[2]

A vítamín skortur[breyta | breyta frumkóða]

Aðalástæða A vítamín skorts er einfaldlega of lítil inntaka vítamínsins, sem sagt of lítið af A vítamínríkri fæðu í mataræði fólks.[3] Fyrstu einkenni A vítamín skorts er náttblinda sem má rekja til þess að sjónpurpuri nær ekki að endurnýja sig.[2][12] Hornhimnan í augunum verður þá hörð vegna þurrks og getur á þann hátt leitt til þess að manneskjan verður blind.[6]

A vítamín skortur bælir ónæmiskerfið og eykur þannig líkurnar á ýmsum veikindum, sýkingum og sjúkdómum.[2][13] Ef einhver sýking er í líkamanum, kallar hann á A vítamín, sem þar af leiðandi eykur vítamín skortinn enn frekar.[11] Menn geta fengið þurra húð af A vítamín skorti og mikill skortur getur leitt til blindni.[2]

A vítamín skortur er algengur í þróunarlöndunum og sérstaklega hjá börnum á leikskólaaldri og ófrískum konum.[3] Alþjóðaheilbrigðisstofnunin áætlar að um 140 milljón barna í heiminum þjáist af A vítamín skorti.[2] Einnig er A vítamín skortur algengur í suðaustur Asíu þar sem hvít hrísgrjón er uppistaða fæðunnar og innihalda þau ekki vítamínið.[2] Skortur á A vítamíni hjá börnum í þróunarlöndunum er aðalorsök þess að þau börn þjást af slæmri sjón og geta jafnvel orðið blind. Þau eru einnig í meiri hættu á að fá lífshættulegar sýkingar og jafnvel deyja, sem verður þá helst í kjölfar mislinga eða mjög alvarlegs niðurgangs.[15]

A vítamín skortur getur orðið í kjölfar lyfjagjafa. Þetta á við um lyf sem eru notuð til lengri tíma, eða að staðaldri, til dæmis sýrustillandi lyf við magasýru eða magasári.[4] Langvarandi og stöðug áfengisnotkun getur einnig haft þau áhrif á að skortur verði á A vítamíni í líkamanum ásamt því að leiða til lifrarskemmda.

Þar sem að A vítamín er fituleysanlegt vítamín þá þýðir það að það leysist upp í fitu. Efni eins og laxerolía[14] og paraffínolía draga úr upptöku fitu í þörmunum og hafa einnig áhrif á upptöku A vítamíns úr fæðu.[4] Skortur á sinki virðist einnig draga úr upptöku A vítamíns. Það verður vegna þess að sink skorturinn veldur því að það dregur úr losun ensíma í líkamanum sem hafa áhrif á losun retínóls úr lifur.

A vítamín eitrun[breyta | breyta frumkóða]

Sjalfgæft er að fólk þjáist af A vítamín eitrun, en það kemur þó fyrir, og einna helst ef að fæðið er of fituríkt.[4] Eitrun getur einungis orðið vegna of mikils magns af A vítamíni úr dýraríkinu, en of mikil inntaka A vítamíns úr jurtaríkinu (beta-kerótín) kemur þannig fram að húðin verður oft gulleit að lit.[14] Ef of stór skammtur A vítamíns er tekinn getur komið upp sú staða að einstaklingur verði fyrir bráðaeitrun. Það getur gerst ef að einstaklingur innbyrðir 100mg eða meira, það er að segja 100 sinnum meira en ráðlagður dag skammtur.[4] Algengast er að eitrun af völdum A vítamíns verði vegna of stórra vítamín skammta eða vegna lyfja við húðmeðferð.[16] Ekki er eins mikil hætta á eitrun af völdum Beta-karótíns því upptaka þess í líkamanum er mun hægari.[8]

Bráð eituráhrif af völdum A vítamíns geta valdið höfuðverk, ógleði, uppköstum og fleira.[17] Langvarandi eituráhrif geta aftur á móti valdið liðverkjum, eymslum í beinum, þurri húð[18], hárlosi í augabrúnum og þurrum vörum. Hætta er á því að eitrun geti leitt til lifrarskemmda og minni beinþéttni sem að leiðir í kjölfarið til þess að einstaklingar sem þjást af A-vítamín eitrun eru í meiri hættu á að beinbrotna.[14] Bráðaeitrun hjá fullorðnum einstakling er ekki algeng, en hefur þó komið upp á til dæmis á Norðurskautinu þegar heimskautafarar borða lifur úr ísbirni eða sel, sem er mjög rík af A-vítamíni. Einkenni A vítamín eitrunar hjá börnum getur komið fram sem kláði og jafnvel leitt til lystarstols.[16]

Meðferð og bati[breyta | breyta frumkóða]

Áætlað er að það taki um 1 - 4 vikur fyrir einkenni A vítamín eitrunar að ganga til baka eftir að inntaka A vítamíns hefur verið hætt alveg. Þó eru til alvarlegri atvik, eins og þegar um er að ræða fæðingargalla, þar sem það gengur ekki til baka þó að A vítamín inntöku hafi verið hætt.[16]

Meðganga og brjóstagjöf[breyta | breyta frumkóða]

A-vítamín gegnir mikilvægu hlutverki varðandi fósturþroska og vöxt.[6] Þó þurfa konur sem eru barnshafandi, eða með barn á brjósti, að passa að borða ekki lifur né taka inn bætiefni sem að innihalda A-vítamín, til að koma í veg fyrir inntöku á of stórum skammti.[4] Samkvæmt rannsókn sem gerð var rétt fyrir aldamótin 2000, um næringarefnainnihald í brjóstamjólk hjá íslenskum konum, kom í ljós að örlítil tenging fannst á næringarinntöku móðurinnar á A vítamíni og því sem skilaði sér til barns í gegnum brjóstamjólkina.[19] Fyrir konu sem er með barn á brjósti þá er ráðlagður dagskammtur af A vítamíni 1200 míkrógrömm.[19] Varhugavert er fyrir barnshafandi konur að taka stóra skammta af A vítamíni.[14] Mikil umfram neysla á dag hefur verið tengd við það að meiri líkur séu á fósturgalla á fyrsta þriðjungi meðgöngunnar, þá helst andlits- og taugagalla,[6] en einnig getur A vítamín skortur valdið sömu göllum. A vítamín er nauðsynlegt fyrir þroska á líffærum fósturs[4], ásamt augum, lungum, hjarta, eyrum, útlimum og innyflum A vítamín er einnig mikilvægt fyrir genastýringu.[4]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 „Hvað eru vítamín og til hvers þurfum við þau?“. Vísindavefurinn. Sótt 21. maí 2024.
  2. 2,00 2,01 2,02 2,03 2,04 2,05 2,06 2,07 2,08 2,09 2,10 2,11 2,12 Akram, M., Asif, M., Naveed, A. og Shah, P. (2011). „Vitamin A: A review article“.
  3. 3,0 3,1 3,2 Codjia, G. Food Sources of Vitamin A and Provitamin a Specific to Africa: An FAO Perspetive. International Nutrition Foundation 22.
  4. 4,00 4,01 4,02 4,03 4,04 4,05 4,06 4,07 4,08 4,09 Guðrún Gyða Hauksdóttir (2020). „A - vítamín“. Doktor.is.
  5. Þuríður Þorbjarnardóttir. „Verður maður brúnn eða kannski gulur af því að borða gulrætur?“. Vísindavefurinn. Sótt 21. maí 2024.
  6. 6,0 6,1 6,2 6,3 6,4 Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Í hvaða fæðutegundum er A-vítamín?“. Vísindavefurinn. Sótt 21. maí 2024.
  7. Mushtaq, A. (1998). Essentials of Biochemistry. Merit Publisher Multan.
  8. 8,0 8,1 „A-vítamín“. Heilsa.is.
  9. Johnson, E.L. „Vitamin A Deficiency“.
  10. Borel, P., Drai, J. og Faure, H. Recent knowledge about intestinal absorption and cleavage of carotenoids. Annales de Biologie Clinique.
  11. 11,0 11,1 Gilbert, Clare (2013). What is vitamin A and why do we need it?. Community Eye Health.
  12. 12,0 12,1 Fawzi, W. (2006). The Benefits and Concerns Related to Vitamin A Supplementation. The Journal of Infectious Diseases.
  13. 13,0 13,1 Paixão, Maria José Góis (2017). Vitamin A Supplementation for the Prevention of Morbidity and Mortality in Infants. American Journal of Nursing.
  14. 14,0 14,1 14,2 14,3 14,4 „A vítamín“. vitamin.is. Afritað af uppruna á 18. febrúar 2020. Sótt 21. maí 2024.
  15. Underwood, B.A. og Arthur, P. (1996). The contribution of vitamin A to public health. The FASEB Journal.
  16. 16,0 16,1 16,2 Johnson, E.L., (2020). Vitamin A Toxicity.
  17. Myhre, A., Carlsen, M., Bøhn, S., Wold, H., Laake, P. og Blomhoff, R. (2003). Water-miscible, emulsified, and solid forms of retinol supplements are more toxic than oil-based preparations. American Journal of Clinical Nutrition.
  18. Penniston, K., Tanumihardjo, L. og Sherri, A. (2006). The acute and chronic toxic effects of vitamin A. American Journal of Clinical Nutrition.
  19. 19,0 19,1 Ingibjörg Gunnarsdóttir. „Fara A- og D-vítamín yfir í móðurmjólkina og hver er þörf móður og barns fyrir lýsi?“. Vísindavefurinn. Sótt 21. maí 2024.