Útópískur sósíalismi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Útópískur Sósíalismi er hugtak sem er notað til að lýsa þeim hugmyndum sósíalískra hugsuða sem voru uppi á fyrri hluta 19 aldar, fyrir tíma Karl Marx og Friedrich Engels. Meðal helstu fulltrúa útópísks sósíalisma eru Robert Owen, Charles Fourier og Henri de Saint-Simon. Allir sáu fyrir sér framtíð útópískra sósíalískra samfélaga, þar sem fátækt, neyð, misskiptingu og efnahagslegu óréttlæti hafði verið útrýmt. Þeir höfnuðu flestir einkaeignarrétti og töldu að efnahagsstarfsemi ætti að skipuleggja á grundvelli samvinnufyrirtækja. Land og framleiðslutæki ættu að vera í almannaeign.

Einn mikilvægasti munur hugmynda þeirra og síðari sósíalista, anarkista og marxista er að útópískir sósíalistar höfnuðu stéttabaráttu og byltingu sem leið að þessu markmiði. Þess í stað sáu fyrir sér að framtíðarríkið myndi vaxa af sjálfu sér innan ríkjandi þjóðfélagskerfis, t.d. í formi fyrirmyndarsamfélaga á borð við þau sem Owen reyndi að koma á fót í Englandi og Bandaríkjunum. Siðferðilegir og efnahagslegir yfirburðir sameignar- eða samvinnusamfélaga þeirra væru slíkir að allir skynsamir menn myndu taka upp merki þeirra og samfélagið þannig umbreytast af sjálfu sér.[1]

Útópískur sósíalismi, og þá sérstaklega hugmyndir Owen og Saint-Simon, höfðu mikil áhrif á ýmsa frjálslynda og sósíalíska hugsuði 19. aldar. Hugmyndir Owen höfðu mikil áhrif á þróun samvinnustefnunnar.

Gagnrýni á útópískan sósíalisma[breyta | breyta frumkóða]

Karl Marx og Friedrich Engels voru fyrstu fræðimennirnir til þess að nota hugtakið útópískur sósíalismi og skilgreindu þeir það í skrifum sínum. Marx notaði fyrst hugtakið í ritinu “Miskunnarlaus gagnrýni á allt," For a Ruthless Criticism of Everything (1843). Síðar notuðu Marx og Engels hugtakið í Kommúnistaávarpinu (1848) og að lokum krufði Engels muninn á bók sem kallaðist Sósíalismi: Útópískur og Vísindalegur.[2] Í skrifum sínum lögðu þeir áherslu á að kenningar útópísks sósíalisma skorti vísindalega greiningu á kapítalísku þjóðskipulagi, þær væru aðeins hugmyndir um hvaða markmiði ætit að stefna að, en ekki hvernig nálgast ætti markmiðið.[3] Til þess að uppræta tátækt og efnahagslegu óréttlæti þyrfti að gjörbreyta samfélagsgerðinni. Engels sagði að því lengur sem hann velti fyrir sér hugmynd útópískra sósíalista um að þetta myndi gerast að sjálfu sér, þökk sé skynsemi og rökhugsun, því sannfærðari væri hann um að hugmyndir þeirra væru hreinir draumórar.[2]

Hugtakið útópískur sósíalismi var notað í niðrandi merkingu af marxistum, sem lögðu áherslu á að kenningar þeirra væru heimspekilegar vangaveltur, ólíkt vísindalegri aðferð Marx, sem greindi hagkerfi kapítalismans með skipulegum hætti og með greiningartækjum hagfræðinnar í stað gildisdóma og siðferðilegra mælikvarða. Hugmyndir útópískra sósíalista voru þó ekki jafn draumórakenndar eða rómantískar og margir síðari tíma gagnrýnendur vildu meina, heldur lögðu þeir flestir áherslu á mikilvægi vísinda og sérfræðinga í framtíðarríkinu, og gerðu þó skrif þeirra um efnahagsmál hafi ekki verið jafn formleg og greiningar Marx og klassískra hagfræðinga 19 aldar, settu þeir fram skipulega gagnrýni á iðnbyltinguna sem var þá að ganga yfir Evrópu.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „utopian socialism | social and political philosophy | Britannica“. www.britannica.com (enska). Sótt 23. september 2022.
  2. 2,0 2,1 „Socialism: Utopian and Scientific (Chpt. 1)“. www.marxists.org. Sótt 23. september 2022.
  3. „Communist Manifesto (Chapter 3)“. www.marxists.org. Sótt 23. september 2022.