William Baffin
William Baffin (u. þ. b. 1584 – 23. janúar 1622) var enskur siglingamaður og landkönnuður. Fátt eitt er vitað um hans fyrstu ár en þó að hann fæddist í Lundúnum til fátækrar fjölskyldu sem þó hægt en örugglega reisti sig upp úr fátækt með vinnusemi og þrautseigju.
Auk mikilvægis síns í landkönnun er Baffins minnst fyrir ýmsar nákvæmar athuganir, þar á meðal staðsetningu á sjó mæld út frá stöðu mána sem voru einhverjar þær fyrstu til að vera safnaðar saman og skráðar.
Baffinsflói og Baffinsland eru nefnd eftir honum.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Fyrst má finna nafn hans í heimildum frá 1612, þar sem hann tók þátt í rannsóknarleiðangri undir stjórn James Hall sem athugaði siglingaleiðina norðvestur fyrir Norður-Ameríku frá Atlantshafi til Kyrrahafs. Kafteinn Hall tapaði lífi sínu í slagsmálum við Grænlendinga og á næstu tveim árum starfaði Baffin einkum við hvalveiðar. Árið 1615 tók Baffin til starfa fyrir „Félag kaupmanna Lundúna, könnuða norðvesturleiðarinnar“ og fylgdi skipstjóranum Robert Bylot sem stýrimaður á litlu skipi nefndu Discovery til að kanna Hudsonflóa. Haffræðilegar og stjarnfræðilegar athuganir Baffins í þessum leiðangri voru síðar staðfestar af Sir Edward Parry þegar hann fór um þessi hafsvæði tvemur öldum seinna (1821).
Á næstu árum fór Baffin aðra ferð sem stýrimaður á Discovery um Davis-sund og fundu þá flóann í norðri sem núna ber nafn hans. Einnig fundu leiðangursmennirnir sund sem Baffin nefndi Lancaster, Smith og Jones Sounds, til heiðurs fjárstyrktaraðilum leiðangursins. Í þessari ferð sigldi Baffin meira en 480 km til norðurs, og var það í 236 ár það lengsta sem nokkur hafði farið í þessum sjó. Allar vonir um að finna sjóleið til Indlands um norðvesturleiðina voru á þessum tíma slokknaðar og meira að segja ýmsar uppgötvanir sem Baffin kom fram með voru dregnar í efa þar til þær voru staðfestar af skipstjóranum John Ross árið 1818.
Að þessu loknu gegndi hann þjónustu hjá Austur-Indíafélaginu, og frá 1617 og 1619 tók hann á hendur ferð til Surat á breska Indlandi. Þegar hann sneri til baka hlaut hann sérstaka viðurkenningu frá félaginu fyrir rannsóknir sínar á Rauðahafi og Persaflóa sem hann gerði í ferðinni.
Á fyrstu mánuðum 1620 sigldi hann á ný til austurs. Hann lést þann 23. janúar 1622 í árás Englendinga og Persa á Qeshm í Persaflóa í ófriðnum gegn Ormus.