Fara í innihald

Vinir vors og blóma

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Vinir vors og blóma er íslensk hljómsveit sem byrjaði árið 1993.


Það var ákveðið á fyrsta degi að Vinir Vors & blóma væri saman komin til að skemmta öðrum númer eitt og tvö og númer þrjú, ásamt hljómsveitarmeðlimum sjálfum. Því var þessi skilgreining "Píkupopp" eitthvað sem hópurinn gekkst við frá degi eitt.

Hljómsveitin Vinir Vors og blóma var stofnuð í Stykkishólmi 6. Febrúar 1993. Sveitin er í rótina Busarnir, en í kjölfarið á því ágæta bernskubreki voru drengnir inn í bandið Birgir Nielsen trommuleikari og Gunnar Þór Eggertsson gítarleikari, úr soul-hljómsveitinni Testemony. Þeir tveir ásamt Þorsteini Gunnari Ólafssyni söngvara, Siggeiri Péturssyni bassaleikara og Njáli Þórðarsyni hljómborðsleikara mynduðu Vini Vors & blóma og starfaði bandið í þeirri mynd til 30 september 1996, þegar VV&b hættu formlega.

Yfir þennan stutta tíma voru gefnar út 3 breiðskífur eftir að landað var þriggja platna samningi við Skífuna, sem þótti meiriháttar díll á þeim tíma. Útgáfan gaf út þrjár plötur og greiddi fyrir þær og bandið fékk ekki aur. En það skipti ekki máli, málið var að koma út tónlist sem hægt væri að nálgast og hlusta á. Fyrsta plata hljómsveitarinnar kom út á þjóðhátíðardag Íslendinga 17. júní 1994 og bar það látlausa nafn “ÆÐI”. Platan mokseldist , enda var um einskonar safnplötu að ræða. Þarna voru lögin Gott í kroppinn, Maður með mönnum, Frjáls, Æði, Læt þau dreyma og Bál svo einhver séu nefnd. Öll þessi lög rötuðu í mikla útvarpsspilun sem gerði þessa fyrstu útgáfu svona vinsæla.

Önnur plata sveitarinnar var gerð í svolitlum skýjaborgum, þ.e. eftir mikla velgengni var ákveðið að ráðast í stórvirki, Hótel Flúðir voru teknar á leigu, þangað komu útsetjararnir Golli og Sigurður Gröndal úr Loðinni Rottu/Pláhetunni, dregnir voru þjóðkunnir laga og textahöfundar að borðinu (t.a.m. Egill Ólafsson og Bubbi Morthens) og nú átti að gera tímamótaverk, þar sem átti að koma saman fagmannleiki fram í fingurgóma og píkupopp sem átti að gleðja landann upp úr sófum, það tókst ekki, sennilega þar sem þessi tvö atriði mynda kannski ekki samhljóm. Enn “Twisturinn” kom út í júníbyrjun 1995 og í raun og veru það eina sem þessi útgáfa skildi eftir sig af vinsældum var lagið “Losti”. Það kom þó ekki að sök, troðfullt var út úr dyrum þetta annað starfsár VV&b eins og árið áður.

Þriðja plata VV&b kom út í júní (eins og hinar tvær)1996, þarna ákvað sveitin að gera “píkupopp-plötu” og var gengið svo langt í því að ná fram rétta andanum að það var ekki samið lag eða hljóðritað nema það væri sól á lofti (til að enginn sem kæmi að verkefninu fyndi fyrir vetrar-doða) einnig voru settir saman rýnihópar (ath þetta er árið 1996, svo markaðsdvergurinn hafði stigið inn með faglegum hætti:-), sem áttu að segja til um hvort þetta væri hresst og “Vina-legt" efni sem þarna væri á borðum. Afraksturinn var svo hljómplatan Plútó, sem gekk vonum framar og fékk frábærar viðtökur. “Ó, ljúfa líf” endurgerð negrasálmsins sem Flosi Ólafsson þýddi eftirminnilega varð meirháttar smellur, á eftir fylgdu lögin “Satúrnus” þar sem Kiddi Bigfoot rappaði á ensku í íslensku lagi, “Faus (eitt skot)”, “10.000 (þúsund feta klúbburinn)” og Dúndrið fengu öll frábærar viðtökur.

Fyrstu ár VV&b voru sannkallað ævintýri, sérstaklega fyrir óreynda píkupoppara utan að landi (3 af 5), allt gerðist svo hratt. Lagið “Gott í kroppinn (fyrsta útg. 1993)” rataði á “Lagasafnið 3” safnplötubálkur sem gefin var út af studio Stöðin, eða Axel Einarssyni. Á þessum tíma (1993) vann Arnþór Örlygsson. eða Addi800 eins og hann er vanalega kallaður, í Stöðinni, og hópnum varð honum til vina og fyrir hans þrýsting setti Axel “Gott í kroppinn” á Lagasfnið 3. Á þessum tíma var meira en að segja það að fá útvarpsspilun, en það þýddi ekkert að gefast upp. Allir vinir og vandamenn voru hvattir til að biðja um “Gott í kroppinn” á Rás2, Stjörnunni FM 102.2 og Bylgjunni (sem þá var tiltölulega ný útvarpsstöð sem allt unga fólkið hlustaði á). Viti menn, lagið rataði beint í 21. sæti “Íslenska Listans” á Bylgjunni, og vinsældir lagsins jukust frá þeim tíma og Hansi Bjarna gerði lagið vinsælt á Sólinni FM 100,6. Stuttu síðar var VV&b að spila á “Hressó” þangað sem Jón Trausti þáverandi útgáfustjóri í Skífunni kom og vildi ræða við VV&b um plötusamning, mánuði eftir það var bandið byrjað að taka upp plötu (ÆÐI) og spila 3-4 daga í viku á sveita- og skólaböllum.

Um Hvítasunnu 1994, var “Gott í kroppinn læf” hljóðritað. Lagið var orðið nokkuð vinsælt og hljómsveitin tók þá miklu áhættu að halda dansleik í Logalandi í Borgarfirði, Hvítasunnudag. Bandið stóð berfætt, á hörklæðum einum fata á Langasandi á Akranesi við myndatöku fyrir fyrstu plötuna. Að því búnu var tætt upp í Logaland, þar sem stóð til að halda alvöru Hvítasunnuball og taka upp “Gott í kroppinn” live . Það sem kom þessum drengjum mest á óvart var að, VV&b komust varla að húsinu, troðningurinn var byrjaður uppúr kvöldfréttum og óhætt að segja að mun færri hafi komist að en vildu. Miðasalan fór fram í Lancer bifreið af ’87 árgerð og ef vel hefði átt að vera þurfti heilsprautun á bílinn eftir þetta eina ball. Stemmingin endurspeglast svo í upptökunni úr Logalandi á “Gott í kroppinn” þar sem troðið varð út úr dyrum, þess má einnig geta að þessi dansleikur var allur hljóðritaður, svo þarna eru sannarlega geymdar gersemar sem gaman væri að gramsa í og setja á veraldarvefinn einn góðan veðurdag.

Þetta markaði upphafið að sumrinu 1994 hjá VV&b, það var troðið út úr dyrum allsstaðar sem bandið hélt ball. Meira að segja í Þorlákshöfn varð ágangurinn svo mikill að einn ballgestanna sem ætlaði að smygla sér inn á ballið í gegnum glugga, áttaði sig ekki á því að hann kom bakkandi inn um glugga á sviðinu, fyrir allra augum. Brá svo ógurlega þegar hann sá hvar hann var, svo hann fór sjálfviljugur sömu leið út og stóð í rifnum fatalörfunum fyrir neðan gluggann skömmu síðar.

Á þeim forsendum sem bandið var stofnað, þetta átti að vera sérstakt, upplifun, ekki þannig sérstakt að gagnrýnendur og poppspekúlantar myndu illa halda vatni og jafnvel þurfa aðstoð við, heldur eftirminnilega upplifun fyrir þann sem mætir, sér og heyrir. Viðkomandi varð að langa að koma aftur, tala um það og mæta með fleiri.

En lykilatriðið var líka að VV&b yrðu að hafa gaman að þessu, annars væri betra heima setið en af stað farið. Lögin sem VV&b spiluðu voru mikið í syrpum og jafnvel bara stuttir bútar úr lögunum, þá þeir bútar sem allir kunnu og allir sungu með. Bil á milli laga var bannað, svo einfalt var það, því var þetta orðið þannig að fyrsta lagið hófst og svo kom óslitið prógramm til enda. Alltaf leikið í búningum af einhverju tagi, grímubúningum, lúðrasveitabúningum, skota-pilsum, Hör-fötum og fleira. Skreytingar á sviði og meira að segja var einusinni gengið svo langt að óska eftir gömlum sjónvörpum í smáauglýsingum DV, til að myndskreyta sviðið. Það var klippt saman 4 tíma myndbrot á VHS spólu, klippur með blikki og lit-effectum úr gamalli SegaMega drive leikjatölvu ásamt frægum video atriðum, svo var eitt videotæki tengt í öll sjónvörpin (sem fylltu lestar hljómsveitarrútunnar sumum til mikilla ama), allt þetta til að aðgreina VV&b frá öðrum böndum á markaðnum.

Í mars 1995, léku VV&b á 28 böllum af 31 degi í mars, sem dæmi um geggjunina sem var í gangi. Þessi hópur lék í óbreyttri mynd til loka september 1996 og var svolítið táknrænt að síðasta ballið var í Logalandi, einmitt þar sem má segja að þetta allt hafi byrjað.

En sumarið 2004 kom fyrirspurn um að leika á Hótelinu í Stykkishólmi í tilefni Danskra daga. Hópnum var hóað saman á símafund og niðurstaðan var að þetta yrði eingöngu gert á þeim forsendum sem upphaflega voru gerðar fyrir VV&b og að original hópurinn mundi taka þetta eina “come-back”. En þar sem Steini söngvari er búsettur í Luxemburg og hafði ekki tök á að taka þátt að þessu sinni, voru góð ráð dýr. Hvað með Bergsvein Arilíusson, sagði einn? Þetta var rætt í þaula, og ákvörðun tekin um að vanda vel til verka og taka “general prufu” föstudag á NASA við Austurvöll, og svo laugardaginn á Dönskum dögum í Stykkishólmi. Æfingar hófust og hópurinn small svo saman. Troðfullt á NASA, troðfullt á Dönskum dögum og það var ekki hægt annað en að spila nokkur böll til viðbótar með Bergsveini. VV&b spiluðu þónokkuð 2004, enn meira 2005 og 2006. Það sem er fyndið við þetta er að í dag er bandið búið að starfa lengur í “come-back-inu” en það gerði frá 1993 til 1996.

Og VV&b eru ennþá að. Ennþá eru skilyrði, það verða allir að komast, má ekki vera of oft og hljómsveitin verður að hafa gaman að þessu, annars er ekki hægt að vera heiðarlegur.

Fyrrum Meðlimir

[breyta | breyta frumkóða]
  • Þorsteinn G Ólafsson (1993-1996)
  Þessi tónlistargrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.