Fara í innihald

Stokkhólmsvígin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stokkhólmsvígin á koparstungu frá 1676

Stokkhólmsvígin voru dráp á mestmegnis aðalsfólki og geistlegum stuðningsmönnum Stens Sture og áttu sér stað frá 4. til 10. nóvember 1520 í kjölfarið á innrás Kristjáns II Danakonungs. Blóðbaðið náði hámarki 8. nóvember þegar um hundrað manns voru teknir af lífi.

Forsaga víganna voru átök milli sænskra stuðningsmanna Kalmarsambandsins, sem Gustav Trolle, erkibiskupinn í Uppsölum, leiddi, og þeirra sem vildu sjálfstæði Svíþjóðar og Sten Sture leiddi. 19. janúar særðist Sten Sture til ólífis í orrustunni við Bogesund. Ekkja Stures, Christina Gyllenstierna var svo sigruð í orrustunni við Uppsali 6. apríl og gafst upp 7. september með því skilyrði að stuðningsmenn þeirra nytu friðhelgi.

4. nóvember var Kristján krýndur af Trolle erkibiskupi í Storkyrkan í Stokkhólmi. Að kvöldi þess dags kallaði Kristján foringja sína á fund og skömmu síðar fóru hermenn inn í salinn og tóku alla gesti konungs höndum. Daginn eftir var fólkið dæmt til dauða fyrir villutrú af erkibiskupnum. Karlmennirnir voru hálshöggnir eða þeim drekkt og margar sænskar aðalskonur voru sendar til Danmerkur í fangelsi. Kristján lét meðal annars hálshöggva tvo biskupa og sagt er að hann hafi látið grafa upp lík Stens Sture og brenna það.

  Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.
  Þessi Svíþjóðargrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.