Fara í innihald

Nýnorræn matargerð

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Ný norræn matargerð)
Réttur frá Noma: mergur með súrsuðu grænmeti

Nýnorræn matargerð er stefna í matargerðarlist sem gengur út á að nýta hefðir og hráefni norrænnar matargerðar til að skapa nýjan, hollan og umhverfisvænan mat. Uppruna nýnorræna eldhússins má rekja til sjónvarpsþáttanna New Scandinavian Cooking sem voru framleiddir af norska fyrirtækinu Tellus Works og sýndir frá 2003. Þáttastjórnendur voru Tina Nordström frá Svíþjóð, Andreas Viestad frá Noregi og Claus Meyer frá Danmörku. Í þáttunum ferðuðust þau til afskekktra staða á Norðurlöndunum og elduðu mat úr staðbundnum hráefnum, berjum, jurtum, fiski og villibráð. Sama ár stofnuðu Claus Meyer og René Redzepi veitingastaðinn Noma í Kaupmannahöfn sem lagði áherslu á árstíðabundið og staðbundið hráefni. Noma stóð fyrir fjölsóttu málþingi um norræna matargerð þetta ár og við það tækifæri var samin „stefnuyfirlýsing nýnorrænnar matargerðar“. Árið 2005 tók Norræna ráðherranefndin stefnuna upp á sína arma. Í stefnunni er lögð áhersla á ferskt, staðbundið hráefni sem er einkennandi fyrir náttúru Norðurlandanna og sem er aflað á umhverfisvænan hátt. Nýnorræna eldhúsið er undir áhrifum frá Slow Food-hreyfingunni, efnafræðilegri matargerð og hugmyndum um hollustu lítið unnins hráefnis og kosti þess að versla á bændamörkuðum.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.